Blikar halda í Grafarvoginn í kvöld
08.05.2017Blikar reima á sig útivallarskóna og halda yfir bæjarlækinn upp í Grafarvog í kvöld kl.19.15. Andstæðingar okkar að þessu sinni eru frískir Fjölnismenn.
Eins og við eru þeir gulklæddu frekar súrir yfir byrjum Íslandsmótsins en þeir gerðu markalaust jafntefli við ÍBV á útivelli eftir að hafa verið einum fleiri nánast allan leikinn. Við eigum harma að hefna gegn Fjölnismönnum því þeir fóru illa með okkur í síðasta leik Íslandsmótsins í fyrra þar sem við misstum af Evrópusæti. Það verður því hart barist í Grafarvoginum í kvöld.
Tölfræðin í leikjum gegn Fjölni er reyndar okkur í hag. Liðin hafa mæst 10 sinnum í efstu deild og tapið í fyrra var fyrsta tap okkur gegn Grafarvogspiltunum frá upphafi. Þrisvar sinnum hefur orðið jafntefli en við höfum unnið sex leiki í efstu deild.
En tölfræðin vinnur enga leiki! Við þurfum að leggja hart að okkur til að ná í þrjú stig og strákarnir eru staðráðnir í því að sýna sitt rétta andlit. Það tekst með góðum stuðningi áhorfenda og hvetjum við alla Blika sem vettlingi geta valdið til að mæta á leikinn í kvöld.