- Byrjunarlið Breiðabliks. Mynd: Haukur Valdimarsson
- Bara smá formsatriði og svo hefst leikurinn. Mynd: Haukur Valdimarsson
- Gunnleikur hafði nóg að gera. Mynd: fc-aktobe.kz
- 13 þúsund áhorfendur mættu á Tsentralny leikvanginn: Mynd: Haukur Valdimarsson
- Það fór um mannskapinn einu sinni, þegar Sverrir henti sér niður í stað þess að skalla knöttinn en Gunnleifur kastaði sér niður og greip af öryggi. Eflaust hafa einhver tjáskipti átt sér stað þarna þeirra á milli, sem urðu til þess að Sverrir hætti við en það skilaði sér ekki alla leið í Smárann. Það kostaði andköf og hveljur. Mynd: fc-aktobe.kz
Blikar hársbreidd frá jafntefli í Kazakhstan
01.08.2013
Okkar menn gerðu stuttan stans í Kazakhstan í dag og léku fyrri leikinn gegn Aktobe, frá samnefndri borg, á Tsentralny leikvangnum að viðstöddum 13 þúsund áhorfendum. Ólafur Helgi gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá leiknum gegn ÍBV. Kristinn Jóns, Nichlas og Tómas Óli komu að nýju inn í byrjunarlið í stað Viggós, Árna Vill og Elvar Páls.
Elfar Árni var illa fjarri góðu gamni, enda í leikbanni eins og alþjóð er kunnugt, og Blikar hafa nú lánað Pál Olgeir til Víkings R. og Atla Fannar til Tindastóls, svo hvorugur þeirra var í leikmannhópnum sem hélt utan s.l. þriðjudag.
Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;
Gunnleifur
Þórður Steinar - Sverrir Ingi - Renée - Kristinn J
Tómas Óli - Andri Yeoman - Finnur Orri (F) - Guðjón Pétur
Ellert - Nichlas.
Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Árni Vilhjálmsson
Elvar Páll Sigurðsson
Olgeir Sigurgeirsson
Jökull I Elísabetarson
Viggó Kristjánsson
Sjúkralisti; Gísli Páll Helgason – Rafn Andri Haraldsson
Leikbann; Elfar Árni Aðalsteinsson
Leikskýrsla UEFA Myndband úr leiknum. Heimasíða Aktobe - Nota Google translate á síðuna og þá er hún þokkalega skiljanleg. Myndir úr leiknum.
Fjöldi Blika var samankominn í Smáranum og fylgdist með leiknum á stóra tjaldinu í vefstreymi sem Blikaklúbburin stóð fyrir og Vignir Benediktsson stýrði. Í Smáranum var ekki töluð nein vitleysa frekar en fyrri daginn og loft var lævi blandið og spennuþrungið frá fyrstu mínútu.
Heimamenn voru, eins og við var að búast, meira með boltann lengst af fyrri hálfeik, en þeim gekk illa að skapa sér tækifæri og leikskipulag Blika gekk ljómandi vel upp lengst af og ekki munaði miklu að Nichlas slyppi í gegn en varnarmaður Aktobe bægði hættunni frá á síðustu stundu. Þar fyrir utan áttum við ekki mörg færi en fengum horn og aukaspyrnur sem við náðum ekki að gera okkur mat úr, en litlu munaði eitt sinn en þá var Sverrir Ingi dæmdur rangstæður. Okkar menn börðust eins og hundar og voru vel skipulagðir í flestum sínum aðgerðum og Gunnleifur var öryggið uppmálað. Það fór um mannskapinn einu sinni, þegar Sverrir henti sér niður í stað þess að skalla knöttinn en Gunnleifur kastaði sér niður og greip af öryggi. Eflaust hafa einhver tjáskipti átt sér stað þarna þeirra á milli, sem urðu til þess að Sverrir hætti við en það skilaði sér ekki alla leið í Smárann. Það kostaði andköf og hveljur.
Staðan í hálfleik markalaus og Blikar vel sáttir með stöðuna. Leikskipulag okkar að halda og leikurinn að þróast svipað og leikirnir gegn Sturm Graz. Halda hreinu umfram allt. Andstæðingurinn samt mun beittari og hraðari en Austurríkismennirnir. Mikið gengið um gólf í Smáranum og farið út fyrir og svona. Spáð í veðrið fyrir helgina. Það verður best í bænum eins og stundum áður um þessa helgi. Það er fínt. Blikar eiga leik í Borgunarbikarnum á sunnudaginn og enginn að fara úr bænum hvort sem er.
Síðari hálfleikur var ekki gamall þegar fyrsta gula spjaldið fór á loft og það var heimamaður sem fékk það fyrir brot á Kristni. Blikar fengu svo tvær aukaspyrnur sem ekki náðist að nýta og svo fór leikurinn í svipað far og var megnið af fyrri hálfleiknum. Heimamenn fóru að verða óþolinmóðir og gerðu breytingu á liði sínu. Ólafur Helgi fór að dæmi kollega síns skömmu síðar og setti Elvar Pál inn í stað Tómasar. Leikurinn áfram járn í járn en heimamenn juku smám saman þungann á meðan Blikar vörðust af krafti. Nú fór netsamabandið að stríða okkur og hökta af og til. Það var eiginleg ekki á spennuna bætandi og nú fóru menn eiginlega alveg á límingunum. Já, nema Jón Ingi og Logi, þeir voru pollrólegir að vanda. Trúið þið því? En sambandið datt alltaf inn á ný. Tæknimennirnar að gera virkilega gott mót.
En áfram með leikinn. Heimamenn fengu skömmu síðar hættulegt færi sem rann út í sandinn og síðan annað sem Gunnleifur varði vel. En Blikar gáfu ekkert eftir og reynda að sækja þegar færi gafst og eftir eina slíka sókn átti Kristinn hörkuskot með hægri fæti sem fór því miður í varnarmann og þaðan í horn. Þar munaði mjóu. Og enn munaði litlu þegar heimamenn björguðu nánast á línu eftir atgang í markteignum. Heimamenn skiptu ferskum manni inn á og bættu í sóknina og skömmu síðar gerðu þeir enn breytingu um leið og Ólafur Helgi setti Jökul inn fyrir Guðjón Pétur.
Nú voru 10 mínútur eftir og Blikar gáfu ekkert eftir en óneitanlega var hart að þeim sótt. Gunnleifur var í fanta stuði og varði allt sem á markið kom – og það var svona slatti. Mínúturnar liðu ein af annarri, en afskaplega hægt, og loks sló klukkan í 90 mínútur. En þá fengu heimamenn dæmda fremur ódýra vítaspyrnu. Sóknarmaður þeirra sótti þetta víti af klókindum og það var alveg sama þó Blikar mótmæltu hástöfum, vítið stóð. Föst spyrna í bláhornið sem Gunnliefur var þó ekki fjarri að verja. Víti eða ekki víti. Þar er efinn eins og maðurinn sagði og það þýðir ekki að dvelja lengi við það.
Staðan 1-0 fyrir heimamenn. Ónetanlega svekkelsi fyrir okkar menn sem voru þó aldeilis ekki bugaðir, heldur skelltu strax í eina sókn og fengu aukaspyrnu við vítateig Aktobe. Kristinn sendi fastann bolta með jörðinni inn á markteigshornið en heimamenn komust í boltann og bægðu hættunni frá. Skömmu síðar flautaði tékkneski dómarinn til leiksloka. Niðurstaðan því 1-0 sigur heimamanna.
Blikar stóðu sig mjög vel í dag og seldu sig dýrt. Þeir eru fyrir vikið enn í bullandi séns. Nú er hálfleikur í þessari viðureign og okkar menn eiga enn góða möguleika að ryðja þessari hindrun úr veginum. Það verður ekki auðvelt en þeim mun skemmtilegra.
Aktobe er flott lið og verðugur andstæðingur, með marga hæfileikaríka og skeinuhætta leikmenn. En það erum við líka og okkar menn hafa sýnt að þeir vaxa nú með hverri raun. En síðari hálfleikur er ekki fyrri en næsta fimmtudag og þegar þetta er skrifað er ekki 100% ljóst hvort leikurinn verður á Kópavogs- eða Laugardalsvelli, sem ku vera eini löglegi völlurinn hér á landi fyrir leiki í 3. umferð undankepninnar. Aktobe getur samþykkt að spila leikinn á Kópavogsvelli, en undirrituðum þykir ekki líklegt að þessir rebbar samþykki það. Við sjáum til með það og mætum þeim í Laugardalnum ef svo verkast.
En það er sko ekkert frí þangað til, þvi eins og fyrr var getið eiga Blikar leik n.k .sunnudag í undanúrslitum Borgunarbikarsins. Sá leikur verður örugglega á Laugardalsvellinum og er gegn Fram. Hann hefst k.16:00 Leikmennirnir mæta örugglega klárir í þann leik og ætla að selja sig dýrt til að tryggja sæti í úrslitaleiknum. Blikar elska bikarleiki í Laugardal og láta sig vonandi ekki vanta á pallana. Við ætlum nefnilega að vinna þennan bikar.
Fjölmennum og styðjum strákana.
Áfram Breiðablik !
OWK
p.s.
það er frábært að fá Elfar Helgason til baka en þetta voru ekki góðar fréttir fyrir andstæðingana.
Blikar.is bjóða hann velkominn og vænta þess að hann eigi eftir að hlaupa úr sér lungun, berjast eins og ljón, vinna öll návígi og skora nokkur mörk.
Það er sá Elfar sem við þekkjum.