BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar komnir í úrslit Lengjubikarsins

21.04.2014

Blikar héldu norður yfir heiðar og lögðu Þórsara 1:2 í undanúrslitum Lengjubikarsins í meistaraflokki karla í dag.  Það voru þeir Guðjón Pétur Lýðsson og Árni Vilhjálmsson sem skoruðu mörkin mikilvægu sem fleyttu okkur áfram í keppninni. Við spilum til úrslita gegn FH á Stjörnuvellinum á fimmtudaginn (Sumardaginn fyrsta) kl.19.00. 

Leikurinn fyrir norðan var nokkuð kaflaskiptur. Við vorum mun sterkari í fyrri hálfleik og réðum í raun lögum og lofum allan hálfleikinn. Fyrra markið kom beint úr aukaspyrnu Guðjóns Péturs sem sýndi enn og aftur hve öflugur spyrnumaður hann er. Brotið var á Elfari Árna rétt fyrir utan vítateig og átti markvörður gestann aldrei möguleika í hárnákvæma spyrnu GPL. Síðara markið setti Árni Vilhjálmsson snyrtilega á 27. mínútu þegar hann slapp inn fyrir vörnina og setti boltann örugglega í netið.

Heimamenn komu miklu grimmari til leiks í síðari hálfleik. Ekki voru liðnar nema nokkrar mínútur þegar þeir hvítklæddu voru búnir að minnka muninn í 1:2. En þrátt fyrir harða sókn í lok leiksins stóðst Blikavörnin pressuna og landaði sigri á erfiðum útivelli.

Spáin fyrir fimmtudag er mjög góð þannig að Kópavogsbúar verða að fjölmenna á Stjörnuvöllinn kl.19.00. FH slóg út KR í vítaspyrnukeppni í hinum undanúrslitaleiknum þannig að ljóst er það verður ekkert gefið eftir.

Mætum og málum Garðabæinn grænan á fimmtudaginn!

-AP

Til baka