BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar lögðu ÍA

06.06.2017

Blikar mættu Skagamönnum í 6.umferð Pepsi deildarinnar á Skipaskaga í gær. Blikar búnir að ná 6 stigum í hús í síðustu 2 leikjum og Skagamenn náðu í sín fyrstu stig með sannfærandi sigri á ÍBV þar syðra í 5. umferð. Bæði lið því búin að reka af sér slyðruorðið ef svo má segja, eftir arfaslaka byrjun í mótinu. Það mátti því búast við hörkuleik í dag og sú varð raunin. Veður ekki óbærilegt. Strekkings sólvindur af norðaustri og skáhallt eftir vellinum. Hiti nærri 12°C en kólnaði talsvert er á leið. Þá kom sér vel að hafa teppi að sitja á.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)(F)
Guðmundur Friðriksson - Damir Muminovic – Michee Efete - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason – Martin Lund Pedersen – Höskuldur Gunnlaugsson – Hrvoje Tokic 

Varamenn:
Ólafur Íshólm Ólafsson(M) – Kolbeinn Þórðarson - Aron Bjarnason - Sólon Breki Leifsson – Ernir Bjarnason – Willum Þór Willumsson - Viktor Örn Margeirsson
Sjúkralisti: Oliver Sigurjónsson (meiddur)
Leikbann: Enginn 

Blikar með eina breytingu frá síðasta leik og nú hefur Michee sennilega mætt á réttum tíma á töflufundinn, því hann kom úr skammarkróknum, beint í byrjunarliðið í stað Viktors.
Margir leikir Blika í sumar hafa byrjað frekar varfærnislega, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið, og okkar menn verið svona að sjá til hvað hinir ætluðu að gera og ekki verið allt of öruggir með sjálfa sig. Og stundum hafa þeir ekki rankað við sér fyrren tuðran lá í netinu og allt í veseni. Og stundum hafa þeir bara alls ekki rankað við sér. Ekki frekar en ofaldir og feitir fresskettir sem ekki nenna lengur að veiða mýs. Allir vita nú hvað er gert við þá. 

En í dag var ekkert slíkt á boðstólum og okkar menn mættu ákveðnir og grimmir til leiks. Og innan tíu mínútna voru okkar menn komnir í 0-2. Fyrra markið kom eftir flotta sókn upp vinstri kantinn þar sem Gísli rak endahnútinn á og skoraði með öruggu skoti markhornið. 0-1. Seinna markið kom svo eiginlega uppúr þurru og þó ekki því Blikar hömuðust og djöfluðust á heimamönnum sem vissu varla hvaðan á þá stóð veðrið og eftir tæpa sendingu félaga Kale á samherja í liði heimamanna hirti Martin boltann og brunaði upp kantinn og inn í teig og sendi svo fyrir markið þar sem Arnþór Ari kom á ferðinni og afgreiddi boltann í netið af stuttu færi. Þetta var 3 mínútum eftir mark nr. 1. 

Vallarþulur minnti nú heimamenn á að leikurinn væri hafinn. Það var óþarfi og fór ekki vel í þá, því samstundis geystust þeir í sókn og komust í sannkallað dauðafæri. En boltinn fór í stöngina fjær og lak svo eftir allri línunni og í fang Gunnleifs. Og þetta var upptaktur af því sem í vændum var því það sem eftir lifði hálfleiksins var leikurinn mikil og góð skemmtun fyrir áhorfendur og færin komu á bandi sitt á hvað. Blikar áttu þó mun fleiri færi og m.a. skalla í slá, skalla sem var varinn á línu, skot sem Kale varði frábærlega og svo framvegis og svo framvegis. Blikar áttu að mér telst til hátt í 15 marktailraunir í fyrri hálfleik og oft munaði mjóu að við næðum 3ja markinu. En það kom ekki. Heimamenn áttu líka sín færi og hefðu sannarlega getað refsað okkur því þeir fengu 2 algjör dauðafæri eftir sofandahátt okkar manna. Það hefði ekki verið fallegt. 

Staðan í hálfleik 0-2 og það var ýmislegt sem ornaði í hryssingnum. Okkar menn að spila virkilega vel á köflum en næstum búnir að núlla það út með sofandahætti í varnarleiknum. Það þarf að laga. Lið með meira sjálfstraust en ÍA hefur þessa daga hefði refsað okkur. Hálfleikskaffið sammála um að takturinn og bragurinn á liðinu sé að þokast í rétta átt. Sumir hinsvegar ekki par ánægðir með varabúninginn sem boðið var upp á í dag og vilja sjá liðið í sínum rétta varabúningi, með grænar buxur og græna sokka. Annað er móðgun við félagið. Punktur. 

Síðari hálfleikur hófst með látum og okkar menn gerðu sig strax líklega til að bæta í. Pressuðu heimamenn framarlega og voru mikið með boltann. Skagamenn í talsverðum vandræðum og eiginlega í nauðvörn lengst af þar til Blikar náðu skoruðu 3ja markið. Það kom eftir flotta sókn sem lauk með því að Tokic kom skoti á markið sem Kale annaðhvort varði eða bjargað var á línu. Boltinn barst út fyrir fjærstöngina þar sem Arnþór Ari náði honum og sneri laglega á vörn heimamanna og þrumaði boltanum í markið. Vel gert hjá Blikum. Staðan orðin 0-3 og nú héldu sennilega flestir að dagskránni væri lokið, a.m.k. óformlega. En það var nú öðru nær því heimamenn komu sér inn í leikinn á ný strax í næstu sókn. Blikar hálfsofandi eða vankaðir eftir fagnaðarlætin og leikmenn ÍA fengu nægan tíma til athafna inni í vítateig og það endaði með skoti frá vítateigslínu upp í markvinkilinn. 1-3. Og áfram hélt fjörið. Blikar fengu horn eftir hörkuflotta sókn og heimamenn björguðu tvívegis á línu eftir hornspyrnuna. Blikar gerðu nú skiptingu og Aron kom inn fyrir Guðmund Friðriks. Blikar breyttu uppstillingunni í kjölfarið og hvort sem það var þessvegna eða ekki þá var komið að ÍA sem fengu sannkallað dauðafæri en framherji þeirra missti boltann frá sér og Gulli náði að klófesta boltann. Þar sluppum við vel. Fjörið hélt áfram. Skagamenn herjuðu á ókkur vinstra megin og við sömuleiðis á þá vinstra megin. Aron fékk tvö mjög góð færi til að skora en náði ekki að nýta sénsana, virtist smá stressaður. Skagamenn fengu enn einn sénsinn vinstra megin. Það var eiginlega alltaf leikmaður númer 7 sem olli okkur vandræðum. Það var smá skjálfti í kominn í okkar menn og nú var kíttað í vörnina. Tokic fór útaf og Viktor Örn kom inn og fór beint í bakvörðinn hægra megin og Höskuldur aftur í sína stöðu. Þetta virkaði ágætlega og sóknarlotum gestanna fór nú fækkandi en við héldum boltanum betur. Blikar gerðu enn breytingu og inná kom Ernir í i stað Andra Rafns sem hafði fengið heldur óblíða meðferð hjá gestunum og ítrekað sparkaður niður. Harkaði af sér lengi vel en heltist að lokum úr lestinni.. Síðustu mínútur leiksins róaðist leikurinn aðeins og það var einsog heimamenn væru búnir að missa móðinn. Við fengum meira pláss en fórum oft illa að ráði okkar við teig heimamanna og töpuðum boltanum ítrekað að óþörfu. Mikið hlaupið með boltann í stað þess að spila á fáum snertingum og láta boltann ganga. Vallarklukkan silaðist yfir 90 mínútur og Blikar sáu nú glitta í sigur 3 stig. En þegar síst varði urðu alvarlegar gangtruflanir í varnarleik okkar og eftir kæruleysislegt dútl á misðvæðinu misstum við boltann og Skagamenn (leikmaður #7 – hver annar?) komst inn í teig og gaf fyrir. Þar var skallað í stöngina og þaðan hrökk boltinn út í teiginn fyrir fætur heimamanna sem skiluðu honum rakleitt í netið. 2-3. Og nú urðu menn órólegir um stund en heimamönnum gafst ekki tími til frekari aðgerða því dómarinn flautaði til leiksloka skömmu síðar.

Sanngjarn sigur okkar manna staðreynd og 3 stig í húsi. 

Þessi leikur var í meira lagi fjörugur og á köflum alveg galopinn í báða enda. Blikar lengst af með frumkvæðið en heimamenn sannarleg í færum líka. Marktækifærin mýmörg í leiknum og kannski hefði markatalan 3-7 gefið réttari mynd af gangi leiksins. Blikar byrjuðu þennan leik af miklum krafti og keyrðu grimmt á heimamenn. Og það var þessi góða byrjun sem lagði grunninn að sigrinum ásamt fínni spilamennsku og ágætri baráttu lengst af. 

9 stig í húsi og nú er allt hægt. Það þarf hinsvegar að laga varnarleikinn, við lekum of mörgum mörkum og sum þeirra eru hreinlega gefin með leyfi að segja gáleysislegum sendingum og gagnslausu föndri á eigin vallarhelmingi. 

Og það er nægur tími til að fara í og laga smáatriðin því nú er landsleikjahlé í Pepsi deildinni og næsti leikur ekki fyrr en 14. júní. Þá koma Valsmenn í heimsókn og ég verð illa svikinn ef Blikar mæta ekki alveg tilbúnir í þann leik og búnir að setja undir lekann. 

Áfram Breiðablik ! 

OWK  

Til baka