Blikar lönduðu þrem stigum gegn Víkingi
11.06.2013Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;
Gunnleifur
Finnur Orri – Sverrir Ingi – Renee Troost – Kristinn Jóns
Elfar Árni – Andri Yeoman – Guðjón Pétur – Ellert
Nichlas Rohde – Árni Vilhjálms
3 breytingar frá bikarleiknum gegn HK. Inn komu Guðjón Pétur og Andri Yeoman, ylvolgur úr frægðarför til Azerbaijan með U21 árs liði Íslands, í stað Jökuls og Olgeirs á miðsvæðinu og Árni kom inn við hlið Nichlas í fremstu línu. Finnur Orri fór í bakvörðinn í stað Þórðar Steinars. Taktísk breyting að sögn þjálfara. Ekki 4-4-2 en Ólafur Helgi útskýrði þetta ágætlega í viðtali í kvöld. Sjá hér
Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Olgeir Sigurgeirsson
Jökull I. Elísabetarson
Viggó Kristjánsson
Tómas Óli Garðarsson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Þórður Steinar Hreiðarsson
Sjúkralisti – Gísli Páll, Rafn Andri
Sjá leikskýrslu HÉR
Fyrir leik var gleðigjafans Hermanns Gunnarssonar, knattspyrnu-, útvarps- og sjónvarpsmanns minnst á viðeigandi hátt með einnar mínútu lófaklappi á Kópavogsvelli. Að því búnu hófst svo leikurinn og er óhætt að segja að hann hafi farið nokkuð fjörlega af stað. Og þá erum við að bera byrjunina saman við rólegheitin sem eftir fylgdu, þannig að þetta er svona hlutfallslegt fjör ef svo má segja. Leikmenn beggja liða áttu reyndar í erfiðleikum með að fóta sig á hálum vellinum og er það rannsóknarefni útaf fyrir sig hversu skreipt hérlendum knattspyrnumönnum verður sporið á döggvotri nýslægjunni. Nóg kosta nú skórnir trúi ég. Í útlöndum hlaupa kollegar þeirra frá sér ráð og rænu allan veturinn í húðarrigningum og stórviðrum á glerhálum leikvöngum og það dettur varla nokkur maður. Er ekki hægt að fá almennilega takka undir þetta plastddrasl sem menn skæðast nú til dags?
Nú nú, en þegar örskammt var liðið leiks eða því sem næst 5 mínútur átti Guðjón Pétur háa sendingu inn fyrir vörn gestanna, á Árna Vill sem var kominn inn fyrir á augabragði og í gott færi. Þar reyndi einn varnarmanna gestann fyrst að fella okkar mann með fljúgandi mjaðmahnykk, en það óþokkabragð tókst ekki. En sekúndubroti seinna, þegar Árni gerði sig líklegan í skotið krækti sá hinn sami í hæl Árna þannig að hann misst taktinn og mokaði boltanum yfir markið. Dómari leiksins hafði engar vöflur á, dæmdi umsvifalust vítaspyrnu og dró upp rauða spjaldið og vísaði gestinum þegar af velli. Veskú, gúddbæ og Auf Wiedersehen! Þetta sáu reyndar, annars glöggir, fjölmiðlamenn frá PEPSI ekki, þó þeir sæju oft í hægri endursýningu. Ættu kannski að spá minna í dómarana og reglurnar og gefa meiri gaum að að símaskránni og finna sér augnlækni. Undirritaður getur vitnað um það að sjóninni hrakar með aldrinum. Og það hendir líka bestu menn. Guðjón Pétur skoraði af öryggi úr vítinu eftir nokkra rekistefnu um hver ætti að taka spyrnuna. Hefði víst getað orðið vesen fyrir Ólaf Helga ef spyrnan hefði klikkað, því hann var að eigin sögn skyndilega lostinn óminnishegra og vissi nokkur augnablik hvorki í þennan heim né annan. Talaði tungum og taldi dúfur, og mælti sitt á hvað að Sverrir eða Guðjón, nú eða Sverrir Guðjóns ætti að spyrna . Varð honum það til bjargar að sögn að enginn kom til bjargar. Annars hefði getað farið illa.
Það sem eftir lifði hálfleiksins gerðist fátt. Og þetta var svona fálm út í loftið. Blikar 80% með boltann en ekkert að frétta. Langar spyrnur í tíma og ótíma og hægagangur. Marktilraunir of fáar og færi varla teljandi fyrir utan gott færi sem Nichlas fékk, en markvörður gestann varði vel.
Frekari atvikalýsingar má lesa í fjölmiðlum ýmsum sem vísað er á,m.a. hér
en þær ná ekki alveg stemmningunni. Það gerir hinsvegar sígild svohljóðandi veðurlýsing frá Dalatanga ágætlega; ,,Logn, skýjað, skyggni ágætt, ládauður sjór. Súld á síðustu klukkustund. Loftþrýstingur 965 millibör, hækkandi. “
Vínarbrauð og snúðar í Blikakaffinu í hálfleik og þar voru menn mjög lausnamiðaðir. Láta boltann ganga hraðar. Keyra á þá. Skjóta á markið. Ekki flókið, en sennilega hægara um að tala en í að komast. En allir vissu að Blikar voru ekki á hálfri ferð. Vorum við ekki örugglega einum fleiri??
Seinni hálfleikur var nánast endurtekning á þeim fyrri. Örlítið meira tempó, en það var bitamunur og ekki fjár og skilaði ekki færum að neinu ráði. Eftir stundarfjórðung fengu Blkar svo annað víti. Blikar unnu knöttinn við miðlínu og voru fljótir að senda í gegn á Elfar Árna sem lék inn í teig og þar kom markvörður gestanna og skellti sér á okkar mann sem náði að pota í knöttinn og fór svo nokkuð fimlega í gamla góða svifstökkinu yfir markvörðum. Þetta hefur hann lært á Laugarvatni í vetur. Á leikfimiprófi hefði hann sennilega fengið mínus fyrir að vera ekki með beina rist en plús á móti fyrir góða hæð og mjúka lendingu, miðað við aðstæður. Enn á ný kom Guðjón Pétur, og nú var ekkert vesen á þessu. Þéttingsfast með hægri fæti í nærhornið út við stöng. Óverjandi. Svona á að taka víti. Staðan orðin 2-0 og eftir þetta var aldrei spurning hvoru megin sigurinn lenti. Blikar sigldu þessu svo heim í sömu rólegheitunum og áður. Páll Olgeir kom inn á fyrir Nichlas á 60. mínútu og Viggó kom inn fyrir Guðjón Pétur á 72. mínútu. Tómas Óli kom svo inn fyrir Elfar Árna á 89. mínútu. Gott að fá Tomma úr meiðslum. Vonandi helst hann heill það sem eftir er.
Það er alveg hægt að vera draugfúll yfir þessum leik og segja að Blikar hafi verið lélegir og leikurinn leiðinlegur. Hvorttveggja er satt, og það er ekki einu sinni smekksatriði. En svona þegar mesta fýlan er runnin af manni, þá er á hitt að líta að við fengum 3 verðskulduð stig, skoruðum úr tveim vítum í sama leiknum og héldum hreinu í fyrsta sinn í PEPSI deildinni 2013.
Þetta er alltaf spurning um val.
Næsti leikur Blika er á sunnudag. Þá förum við í Lautina í Árbænum og mætum sennilega alveg snarvitlausum Fylkismönnum sem hafa farið illa af stað í deildinni og ætla sér ekkert nema sigur. Þetta verður bardagi upp á líf og dauða. Á hinn bóginn þá gætu þeir líka bara mætt með hangandi haus og stigin innpökkuð með slaufu og gefið okkur..…..
Það mun alveg örugglega ekki gerast og þá dugar ekki að vera í fyrsta gír og lága drifinu.
Stuðningsmennirnir mæta í grænu og styðja strákana til sigurs.
Áfram Breiðablik !
OWK
p.s.
hið geysivinsæla Breiðablik OPEN golfmót verður haldið 28.júní
Allt um það á Blikar.is
Ert þú búinn að skrá þig?