- Byrjunarlið Breiðabliks. F.v: Kristinn Jónsson, Andri Rafn Yeoman, Elfar Árni Aðalsteinsson, Renee Troost, Nichlas Rohde, Sverrir Ingi Ingason, Ellert Hreinsson, Tómas Óli Garðarsson, Þórður Steinar Hreiðarsson, Gunnleifur Gunnleifsson og Finnur Orri Margeirsson fyrirliði. Mynd: GEPA Pictures
- Blikar vinna leikinn 0 -1 (staðfest). Mynd: Stuðningsmannasíða Sturm Graz
- Blikar fagna sigurmarkinu sem Ellert Hreinsson skoraði á 39. mínútu eftir stoðsendingu frá Nichlas Rohde. Þetta mikilvæga mark var jafnframt fyrsta mark Breiðabliks í útileik í Evrópukeppnum. Mynd: Stuðningsmannasíða Sturm Graz.
- Ólafur H. Kristjánsson þjálfari og Borghildur Sigurðardóttir formaður knattspyrnudeildar fagna sigrinum í leikslok. Mynd: Stuðningsmannasíða Sturm Graz.
Blikar með frábæran sigur gegn Sturm Graz
01.08.2013Blikar léku í dag seinni leikinn gegn Sturm Graz í 2. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar. Ólafur Helgi gerði aðeins eina breytingu á byrjunarliðinu frá fyrri leiknum og Ellert kom inn í stað Guðjóns Péturs. Að öðru leyti var allt óbreytt.
Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;
Gunnleifur
Þórður Steinar – Sverrir Ingi – Renée Troost - Kristinn Jónsson
Tómas Óli – Finnur Orri (F) - Andri Yeoman - Ellert
Elfar Árni - Nichlas
Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Árni Vilhjálmsson
Guðjón Pétur Lýðsson
Atli Fannar Jónsson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Viggó Kristjánsson
Olgeir Sigurgeirsson
Sjúkralisti; Gísli Páll Helgason – Rafn Andri Haraldsson
Leikbann; Ekki nokkur maður
Leikskýrsla frá UEFA Kicker Online Myndir - Kleine Zeitung Mark Blika Viðtöl eftir leik
Það var sannarlega ekki hægt að kvarta yfir aðstæðum á UPC Graz Liebenau vellinum í dag. Hiti rorraði í kringum 29°C í sannkölluðu blíðviðri og sól skein í heiði og á þann hluta vallar sem varamannabekkir voru á . Völlurinn vel bleyttur og iðagrænn og áhorfendur rétt tæplega átta þúsund. Mozartkúlur ekki sjáanlegar.
Blikar léku í sínum hefðbundna græna aðalbúningi en heimamenn í Keflavíkurbúningunum. Hvorutveggja frá JAKO.
Blikar byrjuðu af krafti og komu heimamönnum greinilega í opna skjöldu með ákafri pressu framarlega á vellinum. Blikar virkuðu mjög frískir og ekki sjánlegt að ferðalagið, hitinn eða leikur gegn Þór s.l. sunnudag sæti í leikmönnum. Litlu munaði strax á 3ju mínútu að Elfar Árni næði að gera sér mat úr slakri sendingu aftur til markvarðar en þeir austurrísku sluppu með skrekkinn í það skiptið. Blikar voru, eins og í fyrri leiknum, þéttir og hreyfanlegir og heimamenn fundu engar glufur á vörninni en reyndu þess í stað skot utan teigs sem Gunnleifur var ekki í miklum vandræðum með. Eftir um það bil hálftima leik komu svo fyrstu alvöru færin. Fyrst fengu Blikar tvö góð færi í sömu sókninni. Þeir náðu góðri sókn upp hægri kantinn og boltinn barst til Nichlas sem kom sér í færi, nokkuð þröngt, og hann náði skoti sem var varið. Boltinn hrökk út í teig og þar munaði litlu að Tómas næði að komast í skot en heimamenn náðu að moka boltanum út úr teignum og þar náði Elfar Árni boltanum en got skot hans fór hárfínt framhjá. Þá voru allir staðnir upp í Smáranum, þar sem stór hópur Blika fylgdist með leiknum í beinni útsendingu ORF (Österreichissche RundFunk, sem er n.k. RUV þeirra Austurríkismanna) fyrir tilstilli Blikaklúbbsins þar sem tæknimaður var Vignir Benediktsson.
Svo settist fólk og þá skipti engum togum að heimamenn komust í sannkallað dauðafæri, þegar senterinn þeirra fékk sending inn fyrir vörn okkar manna en Gunnleifu varði frábærlega með vinstri fæti. Las hann ! En svo lá hann í netinu réttu megin í næsti sókn okkar manna. Gunnleifur átti langt útspark til vinstri og þar stökk Elfar mann hæst og náði að fleyta boltanum inn fyrir vörn heimamanna á Nichlas. Hann náði til knattarins rétt utan vítegshornsins og lagði boltann á hægri fótinn, gabbaði varnarmann og komst áfram nánast upp að endalínu rétt utan markteigs og sendi svo fasta sendingu með vinstri fæti þvert fyrir mark heimamanna. Á móts við fjærstönginni kom svo Ellert á fleygiferð og ruslaði boltanum yfir línuna um leið og hann skellti einum varnarmanni Sturm í í föðurættina. Staðan orðin 0-1 fyrir Blika og allt gekk bæði af göflum og hjörum í Smáranum. Þetta var frábærlega gert hjá okkar mönnum og af harðfylgi. “Easy goal at the far post” kallar tjallinn þetta stundum og það má til sanns vegar færa. Þetta var sannkallað rothögg fyrir heimamenn því nú þurftu þeir að skora að minnsta kosti tvö mörk til að komast áfram, vegna þessa unaðslega útivallarmarks Blika. Heimamenn virkuðu örvæntingarfullir það sem eftir lifði hálfleiksins en náðu þó einni stórhættulegri sókn, upp hægri kantinn, sem endaði með skoti. Þórður henti sér á boltann inni í markteig og setti hann beint í leikmann Sturm Graz, en sá var óviðbúinn og Blikar náðu að bægja hættunni frá. Staðan í hálfleik 0-1 fyrir Blika.
Í leikhléi hættu fjölmargir stuðningsmenn Sturm Graz við að borga staðfestingargjald vegna ferðar til Kasakstan, enda okkar menn ekki líklegir til að fá á sig tvö mörk í seinni hálfleik. Í Smáranum var hinsvegar boðið upp á kaffi og prins í boði Blikaklúbbsins, og þeir sem ekki vildu það átu neglurnar eða sultu. Og nú dreif að fólk hvaðanæva að og þurfti að bæta við stólum og hella upp á meira kaffi í snatri. Það var rafmögnuð háspenna, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Austurríkismenn gerðu strax breytingar á lðinu í hálfleik. Blikarnir í Smáranum bjuggu sig undir æsilegan seinni hálfleik. Og það kom á daginn. Heimamenn héldu boltanum vel en sem fyrr gekk þeim illa að ná okkar mönnum út úr stöðum og skapa sér góð færi. En dældu þess í stað háum boltum inn að marki og áttu nokkur skot en ekki nein afgerandi marktækifæri . Síðasta hálftímann settu þeri svo enn meir þunga í pressuna en okkar menn stóðust þetta allt með prýði og þeim gekk svo alveg ágætlega að hægja á leiknum þegar færi gafst á, án þess að vera sakaðir um óþarfa tafir. Áttu svo sjálfir efnileg skyndiupphlaup af og til og hótuðu sífellt þannig að heimamenn þurftu fyrir vikið alltaf að halda 3-4 mönnum til baka. En góð marktækifæri fengum við ekki frekar en heimamenn.
Þegar allt virtist stefna í nokkuð ,,þægilegar” lokamínútur, greip gríski dómarinn á það ráð að vísa Elfari Aðalsteinssyni út af með rautt spjald á 80. mínútu og það setti óneitanlega aukna spennu í málið. Blikar deila ekki um þetta seinna gula spjald en fyrra spjaldinu sem Elfar fékk mun Tómas hafa unnið fyrir. En dómarinn lét ekki segjast og Elfar mátti beygja sig undan yfirvaldinu. En það kom fyrir ekki hjá heimamönnum og 10 grænir áttu allskostar við þá þessar síðustu mínútur þó á stundum hafi lítið mátt út af bregða. Heilum 4 mínútum var bætt við venjulegann leiktímann en Blikar um allan heim fögnuðu ógurlega þegar sá gríski flautaði til leiksloka. Leikmenn og aðstandendur fögnuðu vel og lengi og undirritaður gat ekki betur séð en austurrísku áhorfendurnir klöppuðu okkar mönnum lof í lófa að leikslokum. Það áttu þeir sannarlega skilið enda fer þessi leikur, og dagurinn, í sögubækur íslenskrar knattspyrnu. Að ekki sé nú talað um bækur okkar sjálfra.
Breiðablik er nú komið í 3ju umferð undankeppninnar og nú liggur leiðin austur á bóginn, nánar tiltekið til Kazakhstan þar sem við mætum heimamönnum í Aktobe. Sjá nánari staðsetningu ef einhver skyldi eiga leið um austur þar 50° 17′ 0″ N, 57° 10′ 0″ E og vilja kíkja á leik.
Þetta er ánægjulegur árangur og áfangi, en ekki sjálfgefinn. Enn eitt skrefið í þróun Breiðabliks sem knattspyrnuliðs í fremstu röð. Frábært hjá okkar mönnum.
Blikar fá nú tvo daga til að koma sér heim og og undirbúa mikilvægan leik gegn ÍBV í PEPSI deildinni. Þeir munu eflaust sjúga karamelluna í kvöld en koma svo vel undirbúnir og með sjálfstraustið í botni í þann leik. En það býr margt í þokunni og margt að varast. Við getum hinsvegar létt undir með þeim og aukið heildaránægjuna enn frekar með því öflugum stuðningi á vellinum n.k. sunnudag.
Leikurinn hefst kl.17:00 og nú má enginn sitja heima !
Áfram Breiðablik !
OWK