BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar Mjölni lostnir

29.09.2014

Okkar menn héldu norður yfir heiðar og mættu Þór Akureyri í 21. umferð PEPSI í gær. Fyrir leikinn var staðan þannig að með sigri gátu okkar menn ef til vill haldið Evrópudraumnum lifandi. Aðstæður á Þórsvellinum voru ágætar. Hægviðri að norðan með úrkomuslitri nánast allan tímann en það kom ekki að sök og engar regnhlífar fóru á loft. Hiti 7°C. Alskýjað. Völlurinn nokkuð blautur og laus í sér enda búið að rigna hressilega undanfarna daga að sögn heimamanna. Og það var fámennt á Þórsvelli.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
Damir Muminovic - Finnur Orri Margeirsson (F) - Elfar Freyr Helgason  - Arnór Aðalsteinsson
Höskuldur Gunnlaugsson - Andri Yeoman - Guðjón Pétur Lýðsson - Baldvin Sturluson
Elfar Árni Aðalsteinsson - Árni Vilhjálmsson

Varamenn:
Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
Oliver Sigurjónsson
Stefán Gíslason
Olgeir Sigurgeirsson
Elvar Páll Sigurðsson
Gunnlaugur Hlynur Birgisson
Davíð Kristján Ólafssson

Óléttur: Ellert Hreinsson

Ellert Hreinsson átti ekki heimangengt að þessu sinni þar sem hann ku eiga von á erfingja þá og þegar og vonandi gengur það allt vel.
Leikurinn hófst eiginlega á því að heimamenn skoruðu mark og komust yfir þegar tæpar 4 mínútur voru liðnar. Blikar steinsofandi og fyrirgjöf utan af hægri kanti sveif inn í teig og þar skallaði heimamaður boltann í netið af krafti, óáreittur. Staðan 0-1. Ekki frábær byrjun.
Okkar menn vöknuðu aðeins við þetta og ætluðu að svara strax og áttu ágætar tilraunir til þess en það næsta sem þeir komust var að Elfar Árni skallaði í slá frá markteig. Næsta háfltímann eða svo voru heimamenn ívið sterkari og þó aðallega grimmari. Stundum var grimmdin fullmikil og dómari leiksins hefði að ósekju mátt taka harðar á nokkrum brotum. Einkanlega voru þeir einbeittir í að sparka í Árna og var hann nánast verkaður í hvert einasta sinn sem við sóttum. Gilti þá einu hvort hann var með boltann eður ei. Við vorum hinsvegar í miklu flottari búningi og allt það en þetta gekk bara of hægt. Of mikið dútl með boltann og við náðum engu flæði í þetta. Vorum að tapa boltanum að óþörfu og í návígjum vantaði alla grimmd framan af. Öfugt við það sem var gegn Víkingum. Undir lok hálfleiksins, þegar heimamenn voru nær alfarið komnir í það að rífast við dómarann, sem sýndi þeim mikinn skilning, þá fór þetta að ganga örlítið betur hjá okkur og við náðum ágætum upphlaupum og færum sem á góðum degi hefði skilað mörkum. En það vantaði svosem eins og teskeið af ákveðni og snerpu í þetta eins og fyrr segir og oftast rann þetta út í sandinn áður en það varð alvöru færi. Undantekningin var hinsvegar dauðafæri sem Elfar Árni fékk þegar hann komst í gegn, einn á móti markmanni, eftir flotta sendingu frá Höskuldi,  en hann vippaði framhjá markinu.

Staðan í hálfleik því 0-1.

Í síðari hálfleik réðu Blikar lögum og lofum úti á vellinum en þegar nálgaðist vítateig heimamann var fátt um fína drætti og sáralítið af marktækifærum leit dagsins ljós. Hinsvegar var talsvert af misheppnuðum sendingum og rangstöðum. Dútl og fitl við tuðruna í hávegum haft og tímasetning á sendingum þar af leiðandi einatt slæm. Þetta olli aðallega slatta af rangstöðum og pirringi, líka hjá fréttaritara. Það eru margir leikmenn sem fá af og til þá flugu í höfuðið að besta leiðin til að vinna leiki sé að flækja hlutina og vera lengi að því. En þetta er ekki góð aðferð, það er margsannað. Einfalt er málið. Blikar gerðu breytingar þegar hálftími var eftir þegar Davíð kom inn fyrir Elfar Árna. En það breytti hinsvegar litlu og svona gekk þetta megnið af seinni hálfleik og það kom satt að segja ekki mjög á óvart að gestirnir skyldu svo skora úr einu örfárra (skyndi)upphlaupa sinna þegar rúmlega tíu mínútur voru til leiksloka. Löng sending fram völlinn og einhvernveginn komst Þórsarinn fram hjá varnarmönnum okkar og lagði svo boltinn í öndvert horn við hlaupstefnu. Staðan orðin 2-0.  Blikar gerðu nú tvöfalda skiptingu og Oliver og Elvar Páll komu inn fyrir Andra og Baldvin. Talandi um að Andri hafi farið útaf  þá er það umhugsunarefni af hverju Þórður Birgisson fær yfirhöfuð að leika í PEPSI deildinni. Sannkallaður fauti á leikvelli og virðist hafa það aðalmarkmið að meiða sandstæðinginn. Brot hans á Andra skömmu eftir leikhlé hefði verðskuldað rautt spjald, en ekki einungis gult. Nú en það er annað mál. Litlu munaði svo að Oliver legði upp mark þegar hann átti flotta sendingu inn fyrir vörn Þórsara en Árni náði ekki skotinu. Þetta reyndist síðasta tækifæri okkar manna sem heitið gat og þeir gengu hnípnir og fúlir af velli í leikslok. Vissu að þeir hefðu getað gert betur. Og svo til að toppa þetta þá kom á daginn þegar öll úrslit dagsins lágu fyrir að sigur hefði haldið okkur inni í baráttunni um Evrópusætið. Fúlt.

Síðasti leikur okkar Í PEPSI deildinni 2014 er gegn Val n.k. laugardag. Við mætum öll þar og styðjum við bakið á strákunum. Vonandi verða þeir snarpari og í meira stuði en í gær.

 

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka