Blikar sigldu örugglega í 16 liða úrslit Borgunarbikarsins. Tékk !
31.05.2013
Blikar mættu HK í dag í 32ja liða úrslitum Borgunarbikarsins á Kópavogsvelli. Fyrirfram var búist við fjörugum ,,grannaslag“ þó allnokkur munur sé á stöðu liðanna í deildakeppninni. Blikar í efstu deild en HK í 2. deild eftir frekar dapurt gengi undanfarin ár. En þeir fylgjast með fótbolta og eru komnir með hár á efrivörina og kannski farnir að missa það annarsstaðar, vita mætavel að í bikarkeppni styttist ævinlega bilið – það er nánast náttúrulögmál - og þar getur allt gerst. Allnokkur fjöldi Blika var mættur á völlinn, en það var svo sem ekkert öngþveiti því heldur fáir stuðningsmenn granna okkar voru á staðnum.
Veður var hið ágætasta í Kópavogsdalnum, sem nú grænkar óðum, í byrjun leiks og hélst frekar blítt allan leikinn, með örstuttum golurokum annað slagið.Völlurinn nokkuð blautur og boltinn spýttist talsvert í fyrri hálfleik.
Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;
Gunnleifur
Þórður Steinar – Sverrir Ingi – Renee Troost – Kristinn Jóns
Elfar Árni – Jökull – Finnur Orri (F) – Olgeir – Ellert
Nichlas Rohde
3 breytingar frá leiknum gegn KR. Inn komu Jökull og Olgeir í stað Guðjóns Péturs og Andra Yeoman á miðsvæðinu og Nichlas kom inn fyrir Árna í fremstu línu. Andri var reyndar ekki í hóp í dag vegna smávægilegra meiðsla og í hans stað kom fyrirliði íslenska U19 ára landsliðsins, hinn bráðefnilegi Ósvald Jarl Traustason. Bekkurinn býsna ungur hjá okkur í dag, aldursforsetinn 26 ára og hinir nýfermdir svo að segja. En þeir eru ágætir í fótbolta og það er það sem telur.
Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M) (94)
Árni Vilhjálmsson (94)
Guðjón Pétur Lýðsson (87)
Viggó Kristjánsson (93)
Alexander Helgi Sigurðarson (96)
Páll Olgeir Þorsteinsson (95)
Ósvald Jarl Traustason (95)
Blikar tóku öll völd á vellinum strax í upphafi og leikurinn var nánast einstefna frá upphafi til enda. Andstæðingarnir áttu sárafáar almennilegar sóknir og greinlegt að okkar menn voru alveg með það í dagskránni að pressa og gefa ekki mikinn tíma á boltanum. En þetta gekk nú reyndar ekki alveg átakalaust. Okkar menn áttu óteljandi sóknir og fyrirgjafir fyrstu 20 mínúturnar, auk skota á markið, sem ýmist voru varin af markmanninum eða samherjum hans, og fyrsta markið lét bíða eftir sér. Svo kom smá doði í okkar menn, sendingar ónákvæmar og boltað tapað á slæmum stöðum og HK menn fengu boltann oftar og það losnaði aðeins um þá. Það kom smá blóð á tennurnar á þeim og þeir 2 eða 3 hornspyrnur og áttu nokkur upphlaup sem hefðu getað orðið hættuleg, en runnu því betur út í sandinn. Blikar vöknuðu á ný og settu harða pressu á andstæðingana og hún bar árangur að lokum þegar varnarmaður HK kastaði sér fyrir skot Elfars Árna, eftir mikið hark í teignum, og setti hendurnar í boltann á marklínunni. Dómarinn dæmdi umsvifalust víti og vék HK ingnum af velli. Sverrir Ingi fór á punktinn og bombaði í markið af alefli og markvörður HK átti ekki séns. Þar með var ísinn brotinn og maður var ekki alveg að sjá að HK myndi ná að rétta sinn hlut eftir þetta, orðnir manni færri. En Blikarnir voru ekkert að flýta sér að ganga frá leiknum og héldu uppteknum hætti. Héldu boltanum vel og lengi og voru kannski full lengi að athafna sig að manni fannst og hefðu mátt nýta svæðin úti á vængjununm betur. Nichlas kom ítrekað með fín hlaup en fékk boltann lítið og oft fannst manni að það hefði mátt spila meira og hraðar fram á við. Fyrir vikið gekk treglega að opna vörn andstæðinganna, en við fengum samt alveg næga sénsa til að bæta við marki eða mörkum, en það vantaði ávallt herslumun. Horn- og aukaspyrnur fengum við í bílförmum en náðum ekki að gera okkur neinn mat úr þeim. Þar er mikið pláss fyrir bætingu hjá liðinu öllu. Bæði í spyrnunum sjálfum og eins að ráðast á þá bolta sem þó rata inn í boxið.Meiri grimmd, takk.
Staðan í hálfleik 0-1 og það var enginn að fara að setja peninginn á andstæðingana úr þessu. Nokkrir stuðningsmenn Blika úr Reykhólasveitinni voru sammála og einróma um að forystan ætti að vera stærri og men væru eilítið að leika sér að eldinum. Það þyrfti helst að koma annað mark fljótlega. Annars var allt gott að frétta. Búið að vera ansi hvasst fyrir vestan en framkvæmdir langt komnar.
Blikar gerðu eina breytingu í hálfleik. Inn kom Guðjón Pétur fyrir Finn Orra . Blikar héldu svo uppteknum hætti og lúsleituðu að smugu í vörn andstæðinganna en varð lítt ágengt til að byrja með. Allt þar til á 55tu minutu er áðurnefndur Guðjón Pétur renndi boltanum laglega á Nichlas, sem kom með enn eitt flotta skáhlaupið í teignum vinstra megin og þrumaði boltanum í netið. Snaggaralegt mark hjá Nichlas og sendingin hjá Guðjóni var fyrsta flokks. 2-0 og nú var mönnum loks rórra í stúkunni. Næstu 15 mínútur gekk á með hornum og marktilraunum Blika en ekki gekk rófan upp við markið. Viggó kom inn fyrir Renee og fór í bakvörðinn og Þórður Steinar fór þá í miðvörðinn við hlið Sverris. Skömmu síðar kom Árni inn fyrir Olgeir og hann var ekki lengi að stimpla sig inn með stæl. Blikar áttu álitlega sókn sem endaði með því að Kristinn Jónsson sendi háan bolta á fjærstöng þar sem Árni var mættur og skallaði í netið af stuttu færi. Vel gert. Staðan orðin 3-0. En Blikar vildu meira. Enginn þó meira en Ellert sem var búinn að eiga nokkrar marktilraunir án þess að ná að skora. Á 90. mínútu náðu Blikar að þræða sig í gegnum vörn HK með stuttum samleik og Árni lagði boltann á þennan sama Ellert sem komst nú á auðan sjó og kláraði færið af mikill yfirvegun. 4-0 og nú var ekkert eftir annað en standa upp og syngja ,,Stöndum upp fyrir Breiðablik”, við alþekkt slagaralag, og það gerðu stuðningsmennirnir síðustu mínúturnar, allt til leiksloka.
Líkar þetta !
Leikurinn náði aldrei hæðum sem alvöru slagur eins og sumir höfðu væntingar um. Til þess voru yfirburðir okkar manna of miklir, þó treglega gengi upp við markið framan af. 10 HKingar áttu eiginlega aldrei séns þrátt fyrir dugnaðinn. Blikar voru svo sem ekki með neinn glansleik en gerðu það sem til þurfti. Skoruðu 4 mörk og enn eru framherjarnir að skora, sem er afar ánægjulegt. Vörnin var örugg allan leikinn og gaf engin færi á sér. Hélt hreinu og skoraði úr víti. Það er ekki beðið um meira.
Okkar menn verða því í pottinum þegar dregið verður í 16 liða úrslitum á morgun. Það verður spennandi að sjá hvað bíður okkar þar. Skyldum við fá heimaleik?
Næsti leikur Blika er hinsvegar við nýliðana úr Víkingi Ólafsvík. Sá leikur er á Kópavogsvelli 10.júní og þar verðum við að vera grimmir. 3 stig og ekkert minna er sameiginleg krafa leikmanna og stuðningsmanna.
Þar verðum við, mætum í grænu og styðjum strákana til sigurs.
Áfram Breiðablik !
OWK
p.s.
hið geysivinsæla Breiðablik OPEN golfmót verður haldið 28.júní
Nánar um það hér á Blikar.is um helgina…. Taka daginn frá.