Blikar sjálfum sér verstir
01.09.2014
Okkar menn mættu Fylkismönnum í kvöld í 18.umferð PEPSI deildarinnar.
Veðrið var alveg hreint bærilegt eftir storminn sem bleytti vel í landanum í dag og austan áttin blés úr ýmsum áttum á 4 til 8 metra hraða á sekúndu. Vætan víðsfjarri þar til leið á seinni hálfleik að ýrði úr lofti en það var ekki til baga. Hiti tæpar 13 gráður og þær heldur hráslagalegar.
Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
Baldvin Sturluson - Finnur Orri Margeirsson (F) - Elfar Freyr Helgason - Arnór Aðalsteinsson
Höskuldur Gunnlaugsson - Andri Yeoman - Guðjón Pétur Lýðsson - Elvar Páll Sigurðsson
Ellert Hreinsson - Árni Vilhjálmsson
Varamenn:
Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
Stefán Gíslason
Oliver Sigurjónsson
Ernir Bjarnason
Gunnlaugur Hlynur Birgisson
Davíð Kristján Ólafssson
Olgeir Sigurgeirsson
Sjúkralisti:
Elfar Árni Aðalsteinsson
Leikbann:
Damir Muminovic
Farnir í nám erlendis:
Tómas Óli Garðarsson
Gísli Páll Helgason
Þetta var skrýtinn leikur. Blikar sóttu linnulítið megnið af fyrri hálfleik, sköpuðu sér nokkur góð færi en náðu ekki að nýta eitt einasta. Mótherjinn fékk eitt færi og BANG. Hann lá í netinu. 0-1. Nánast súrrealísk staða en ekki í fyrsta sinn í sumar sem við sjáum svona rugl. Lið sem leyfa sér svona leik eftir leik lenda í basli og þar erum við einmitt núna. En það er seigla í okkar mönnum þó í þeim blundi sjálfstortímingin og þeir eru því ekki auðunnir. Aðeins tapað 4 leikjum sem er jafnt og við gerðum 2010 sem var ágætt ár ef mig misminnir ekki. En jafnteflin eru núna orðin 11 á móti 5 þá. Svona samanburður getur verið fróðlegur en hann leysir ekki vandann.
En aftur að leiknum. Eftir að hafa lent undir, óverðskuldað, voru okkar menn nokkuð slegnir, en gerðu samt harða hríð að marki gestanna, en sem fyrr án árangurs. Staðan í hálfleik því 0-1 gestunum í vil.
Allir arfafúlir í hálfleik yfir því að vera undir. 2ja marka forysta okkar mann hefði ekki verið ósanngjörn miðað við gang leiksins.
Seinni hálfleikur byrjaði vægast sagt illa hjá okkar mönnum og gestirnir gerðu harða hríð að okkar marki og fengu nokkur horn og voru nærri að koma sér í upplögð færi. Blikar virkuðu hálf dofnir og voru eins og svefngenglar. En þeir sluppu með skrekkinn og voru svo búnir að jafna sig og jafna leikinn áður en 10 mínútur voru liðnar. Blikar náðu sókn upp hægri kantinn og komu boltanun inn í teig þar sem hann barst til Árna. Hann skallaði á mark en skallinn var varinn en ekki meira en svo að hann hrökk út í teiginn þar sem Árni náði að pikka boltanum frá varnarmanni Fylkis og til Elvars Páls sem smellti boltanum í netið af stuttu færi. Staðan 1-1 og Blikar fögnuðu á meðan gestirnir gerðu aðsúg að dómaranum og voru mjög ósáttir. Töldu að Árni hefði gerst brotlegir í aðdragandanum. Það var hinsvegar algjör della, eins og sást í PEPSI mörkunum . Undirritaður saknar þess hinsvegar að Blikar geri stundum aðsúg að dómaranum þegar á þá er hallað. Það má alveg láta það í ljós að maður sé óánægður, sbr.þegar gaurinn keyrði Árna niður í vítateignum í fyrri hálfleik. Boltinn víðsfjarri og samherjar Árna sáu þetta og hefðu méð réttu átt að rjúka í dómarann og krefjast réttlætis. Önnur lið stunda þetta grimmt og sum með ansi góðum árangri. Það þarf frekju ef menn ætla að ná árangri. Það er partur af leiknum.
Eftir markið tóku Blikar vel við sér og næstu mínúturnar voru þeir ívið sterkari og áttu fínar sóknir og settu pressu á gestina. En ekki gekk rófan og gestirnir áttu sína spretti og náðu hættulegum sóknum inn á milli. En á 79 mínútu dró til tíðinda. Blikar höfðu sett mikla pressu á gestina og Elfar náð skalla sem bjargað var á línu. Eftir mikið klafs var svo dæmd hendi á Fylkismann rétta utan vítateigs. Guðjón Pétur tók spyrnuna og skaut í varnarvegginn. Þaðan barst boltinn að markteigshorninu og varð allmikið klafs og menn rugluðu saman fótum eins og Bakkabræður forðum en það var svo Ellert Hreinsson sem krafsaði boltann út úr þvögunni og renndi honum í netið alveg við stöngina. Vel gert hjá Ellert og Blikar ærðust úr fögnuði. Enn á ný gerðu gestirnir aðsúg að dómaranum og vildu meina að hann hefði átt að stöðva leikinn vegna höfuðmeiðsla leikmanns Fylkis. En dómaranum varð ekki haggað og markið stóð. 2-1 fyrir Blika og 10 mínútur til leiksloka skv. vallarklukkunni.
Það sem gerðist næst var einhvern veginn eins og þversumman af gengi okkar til þessa í sumar og þar af leiðandi þyngra en tárum tekur. Fylkismenn tóku miðju. Léku til baka og sóðuðu síðan boltanum út á kant. Þar gátu tveir Blikar ráðist á boltann en hvorugur tók af skarið. Fyrir vikið náði leikmaður gestanna boltanum og brunaði í átt að markinu. Varnarmenn okkar hörfuðu undan alveg inn í vítateig í stað þess að fara í manninn og loks lét hann skotið vaða við teiginn. Skotið var svo sem ágætt en Gunnleifur hefði örugglega varið ef boltinn hefði ekki lent í afturenda varnamanns okkar, sem sneri sér undan skotinu, og breytt stefnu án þess Blikar fengju rönd við reist. Þetta var algert kjaftshögg á Blika og næstu mínúturnar voru þeir á hælunum og máttu í sjálfu sér þakka fyrir að lenda ekki undir á ný. En Gunnleifur var vandanum vaxinn í markinu og bjargaði í tvígang vel og um leið stiginu.
Leiknum lauk því með enn einu jafnteflinu og þó þau telji lítið þá hafa þau samt séð okkur fyrir rúmum helmingi stiganna í sumar. En til að breyta jafnteflum í vinninga þarf liðið að herða á sér. Það eru enn 4 leikir eftir og til að ná úrslitum í þeim verður að bæta nokkrum snúningum við einbeitinguna. Mörkin sem við erum að fá á okkur, í allt sumar, eru flest tilkomin eftir að menn eru óákveðnir og hika. Hika við að ráðast á boltann. Hika við að setja pressu á andstæðinginn. Hika í dekkningum. Leikmenn verða einfaldlega að skerpa fókusinn og mér er alveg sama þó menn segi að þeir séu með fókusinn alveg skýran. Verkin segja annað.
Olli lék í kvöld sinn 300. leik fyrir Breiðablik en hann lék sinn fyrsta leik fyrir okkur 2003. Dágott hjá Olla og Blikar.is óska honum til hamingju með þennan áfanga og bíða spenntir eftir veislunni. Oliver Sigurjónsson kom hinsvegar inná í sinum fyrsta leik í kvöld og á örugglega eftir að leika marga leiki til viðbótar ef hann æfir vel, vandar sig og er einbeittur.
Næsti leikur er gegn Eyjamönnum eftir tvær vikur, sunnudaginn 14. september , því nú kemur landsleikjahlé.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þessa leiks og við þurfum við að fjölmenna út í Eyjar og standa við bakið á okkar mönnum. Það eiga þeir skilið þó það ári ekki vel hjá þeim núna. Nágrannar okkar í Garðabæ eru búnir að sýna í allt sumar hverju öflug stuðningssveit getur áorkað. Ekki viljum við vera minni menn – eða hvað?
Er hér með skorað á Blikaklúbbinn og deildina að efna til hópferðar fyrir þá sem ekki eiga þess kost að fara á eigin vegum.
Sækjum 3 stig til Eyja.
Áfram Breiðablik !
OWK