BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar sóttu 3 stig til Keflavíkur

03.03.2019

Blikar unnu Keflavíkinga 3:4 í hörkuleik í Lengjubikarnum í Reykjaneshöllinni í dag. Sigurinn var verðskuldaður en heimapiltar eiga hrós skilið fyrir mikla baráttu og létu okkur svo sannarlega hafa fyrir stigunum þremur.

Leikskýrslur:

   

Þjálfararnir gerðu breytingar á vörninni í þessum leik og sátu bæði Elfar Freyr og Viktor Örn á bekknum í byrjun leiks. Það virtist fara eitthvað illa í liðið því í nánast hvert sinn sem heimapiltar komust nálægt vörninni í fyrri hálfleik skapaðist hætta upp við mark okkur. Sóknarmaður Keflavíkinga fíflaði til dæmis vörnina upp úr skónum í fyrra markinu og svo settu okkar piltar knöttinn í eigið mark eftir hornspyrnu skömmu síðar.

En sem betur eigum við þá Aron Bjarna og Thomas Mikkelsen í sókninni. Bæði mörkin í fyrri hálfleik voru keimlík. Aron tætti vörnina í sig hægra megin og sendi knöttinn yfir á Súper-Danann sem skoraði örugglega.

Elfar Freyr og Viktor Örn komu inn á eftir leikhlé og virtumst við ætla að sigla öruggum sigri i höfn eftir að Aron hafði sett þriðja markið og Þórir Guðjóns það fjórða. En hið unga lið Keflavíkur neitaði að gefast upp og sótti hart að okkur. Þrátt fyrir nokkur ágæt marktækifæri á báða bóga urðu mörkin ekki fleiri.

Leikir í hálf-gerðum æfingamótum eins og Lengjubikarnum eru tilvalin til að gera ýmsar tilraunir á leikskipulagi og liðsuppstillingu. Varnartaktíkin gekk hins vegar ekki alveg upp í þessum leik og langt síðan við höfum fengið þrjú mörk á okkur. En margt annað var ágætlega gert í leiknum og þá sérstaklega frammistaða Arons á vinstri kantinum. Hann lagði upp þrjú markanna og skoraði þriðja markið. Geri aðrir betur.

Við sitjum því á toppi riðilsins eftir þrjá sigra. Næsti leikur er gegn Haukum annan mánudag á Ásvöllum. Það verður fyrsti leikurinn okkar utandyra á þessu keppnistímabili og verður gaman að sjá hvernig strákarnir okkar kunna við sig undir berum himni!

-AP

Klippur úr leiknum í boði BlikarTV

Leikurinn í boði Keflavík TV.

Staðan í A deild karla riðli 4. 


 

Til baka