BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik - FH á sunnudaginn kl.16.30!

18.09.2015
Leikurinn við FH á sunnudaginn er fjórða viðureign liðanna í opinberri keppni á þessu ári. Liðin áttust við í Fótbolta.net mótinu, Lengjubikarnum og í fyrri umferðinni í Krikanum í leik sem lauk með 1-1 jafntefli. Arnþór Ari Atlason skoraði mark Blika á 69. mínútu en Kassim Doumbia jafnað með skallamarki á 93. mínútu. Lesa má nánar um þann leik hér.
 
Liðin hafa mæst 41 sinnum í efstu deild frá upphafi. Tölfræðin er nokkuð jöfn. FH er með 17 sigra, Blikar 15 sigra og jafnteflin eru 9. 
 
Það fer lítið fyrir efstu deildar sigrum Blika á FH frá því að Breiðablik endurheimti sæti í efstu deild árið 2006. Fimleikafélagið hefur vinninginn í tíu leikjum, Blikar í þremur leikjum og jafnteflin eru sex. Leikir á Kópavogsvelli frá 2006 eru níu. Blikar hafa sigrað þrisvar, gert eitt jafntefli og tapað fimm sinnum. 
 
Margir leikir liðanna hafa verið miklir markaleikir og hin besta skemmtun í orðsins fyllstu merkingu. Úrslit eins og 2-4, 3-0, tveir 4-1 leikir (á Kópavogsvelli 2008 og í Krikanum 2011), 2-3 og svo hinn magnaði 4-3 sigur  í Kópavoginum árið 2007. Þrír leikmenn Blika í þeim leik munu koma við sögu í leiknum á sunnudaginn. Fyrirliðinn okkar Arnór Sveinn Aðalsteinsson og þjálfarinn okkar Arnar Grétarsson. Vonandi fáum við að sjá Guðmann Þórisson sem lék með Blikum hér á árum áður þ.m.t. í 4-3 leiknum 2007. Kristinn Jónsson, sem var að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki árið 2007 (þá aðeins 17 ára gamall) var í leikmannahópi Breiðabliks. En sjón er sögu ríkari. Hér má sjá svipmyndur frá þessum magnaða leik. 
 
Breiðablik - FH á sunnudaginn kl.16.30!
 
Skyldumæting hjá öllum Blikum.
 
Áfram Breiðablik!

Til baka