BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik – FH í PEPSI sunnudaginn 22. júlí kl. 19:15

20.07.2018

Bæði lið eru búin með 12 leiki og eru í 3. og 4. sæti deildarinnar – Breiðablik í þriðja sæti með 22 stig og FH í fjórða sæti með 19 stig. Með sigri ná Blikar 25 stigum og tryggja sér 3. sætið, a.m.k.

Blikar unnu sannfærandi 1-3 sigur í fyrri leik liðanna í Kapplakrika í sumar. Sjá nánar um þann leik Hér.

Sagan

Breiðablik og FH eiga að baki 106 mótsleiki frá upphafi. Í öllum 106 skráðum leikjum liðanna frá 1964 til 2017 sigra Blikar 36 leiki, jafnteflin eru 21 og FH sigrar 49 viðureignir.

Fyrsti mótsleikurleikur liðanna var í A-riðli í 2. deildar laugardaginn 13. júní 1964. Leikurinn var jafnframt vígsluleikur Vallargerðisvallar og bæjarstjórinn Hjálmar Ólafsson tók upphafsspyrnu leiksins í tilefni dagsins. Dómari leiksins var Magnús Pétursson. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Jón Ingi Ragnarsson skoraði mark Blika eftir flotta stoðsendingu Daða E. Jónssonar. Jón Ingi var svo aftur á ferðinni í fyrsta sigri Breiðabliks á FH í síðari deildarleik liðanna sem fram fór á Hvaleyrarholtsvelli 23. júlí 1964. Blikar vinna leikinn 2-3 með tveimur mörkum Jóns Inga Ragnarssonar og einu marki Grétars Kristjánssonar. Þriðji mótsleikur liðanna var einnig árið 1964. Sá leikur var í 2. umf Bikarkeppni KSÍ og fór fram fram á Hvaleyrarholtsvelli í Hafnarfirði. Leiknum lauk með 2-3 sigri Blika. Mörk Blika í þeim leik skoruðu Jón Ingi Ragnarsson, Júlíus Júlíusson og Sigmundur Eiríksson. Nánar um leiki liðanna árið 1964.

Það var mikið skorað í leikjum liðanna fyrstu 2 árin eða 27 mörk í 5 leikjum sem gaf tóninn fyrir framhaldið. Liðin hafa skorað að jafnaði 3+ mörk í yfir helming innbyrgðis mótsleikjum liðanna frá upphafi.

Frá 1964 til ársins 2000 höfðu Blikar gott tak á FH. Í 60 mótsleikjum 1964-2000 sigra Blikar í 28 leikjum, jafnteflin eru 12 og FH hefur vinninginn í 20 viðureignum. Nánar um tímabilið 1964-2000.

Markasúpur á Kópavogsvelli

Sú var tíðin að leikir liðanna á Kópavogsvelli voru miklir markaleikir og hin besta skemmtun í orðsins fyllstu merkingu. Úrslit eins og 4:3, 4:1, 2:3, 2:0 voru algeng úrslit í innbyrgðis viðureignum liðanna á árunum 2007 til 2010, en frá 2010 hafa leikir liðanna á Kópavogsvelli verið að enda 2:1, 1:2 og 0:1 nema árið 2014 þegar FH-ingar sigruðu í 6 marka leik.

Nokkrar viðureignir liðanna á Kæopavogsvelli frá 2006 hafa verið fjörugrir markaleikir:

Í september 2007 vinna Blikar 4-3 í rosalegum leik þar sem Blikar komast í 4-1 stöðu með mörkum frá Nenad Zivanovic, Prince Rajcomar og 2 mörkum frá Magnúsi Páli Gunnarssyni. En FH-ingar settu mikla spennu í leikinn með mörkum 71. og 77. mín og voru næstum búnir að jafna leikinn. Nánar um leikinn.

Í júní 2008 vinna Blikar FH með 4 mörkum gegn 1 í gríðarlega skemmtilegum leik þar sem Prince Rajcomar skoraði 2 mörk áður en Tryggvi Guðmundsson skorar úr víti. Nenad Petrovic skoraði svo gott mark. Arnar Grétarsson innsiglaði svo 4-1 sigur með marki úr vítaspyrnu á 82. mín. Það er ekki hægt annað en að minnast á atriði sem átti sér stað milli Casper Jacobsen og Tryggva Guðmundssonar eftir að sá síðarnefndi skoraði úr vítaspyrnunni á 50. mínútu. Nánar um atvikið og leikinn.

Í maí 2010 vinna Blikar FH 2-0. Kristinn Steindórsson skoraði bæði mörk Blika. Einhverjir sjónvarpslýsendur töluðu um „stoðsendingu ársins“ þegar Alfreð Finnbogason sendi boltann á Kristinn Steindórsson í fyrra markinu. Nánar um leikinn og myndband.

Í september 2015 vinna Blikar 2-1 sigur eftir að FH komst í 0-1. Sigur FH í leiknum hefði tryggt þeim Íslandsmeistaratitilinn í 20. umferð með tilheyrandi fagnaðarlátum á Kópavogsvelli. Slík var ekki í boði á okkar heimavelli enda skoruðu Jonathan Glenn og Damir Muminovic sitt hvort markið eftir stoðsendingu frá Atla Sigurjónssyni. Nánar um leikinn.

2017

Leikurinn við FH á sunnudaginn er fjórði mótsleikur liðanna á þessu ári. Liðin áttust við í 3. umf. Fótbolta.nets mótsins (2:4) í lok janúar og í byrjun apríl í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins (0:3). Blikar unnu svo sannfærandi 1-3 sigur í fyrri deildarleik liðanna í Kapplakrika í sumar. Sjá nánar um þann leik Hér

Þjálfarinn

Ólafur Kristjánsson þjálfari FH er okkur Blikum að góðu kunnur. Hann tók við þjálfun Blikaliðsins um mitt sumar árið 2006 og stýrði því fram í mitt ár 2014. Undir stjórn Ólafs náðum við að festa okkur í sessi sem gott efstudeildarfélag. Hápunkti náðum við með bikarmeistaratitli árið 2009 og Íslandsmeistaratitli árið 2010.  Einnig náði Blikaliðið fínum árangri í Evrópukeppni meðal annars með frægum sigri á Sturm Graz frá Austurríki árið 2013. Árið 2014 ákvað Ólafur að freista gæfunnar erlendis og tók við þjálfun Norsjælland í  Danmörku. Í vor koma hann síðan heim aftur og tók við uppeldisfélagi sínu FH. Við hlökkum til að bjóða Ólaf aftur til baka á sinn gamla heimavöll og lofum því að sýna honum enga gestrisni!

Dagskrá

Það verður eins og áður boðið upp á grillaða hamborgara, sparkvellina fyrir krakkana og tjaldið verður að sjálfsögðu opið fyrir fullorðna. Mætum á völlinn og styðjum við liðið í toppbaráttunni.

Sjáumst öll á Kópavogvelli á sunnudagskvöld og hvetjum okkar menn til sigurs.

Leikurinn hefst kl. 19:15!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka