BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik - ÍA í PEPSI sunnudag 27. ágúst kl. 18:00

26.08.2017

17. umferð Pepsi-deildar karla verður leikin um helgina. Blikaliðið fær ÍA í heimsókn á Kópavogsvöll á sunnudaginn. Blikar eru nú með 21 stig í 8. sæti deildarinnar. Skagamenn, með 10. stig í neðsta sætinu, róa nú lífróður fyrir áframhaldandi veru sinni í deildinni.  

Hjá Blikum er Gísli Eyjólfsson er í leikbanni með 4 gul spjöld en Kristinn Jónsson og Arnþór Ari Atlason eru aftur gjaldgengir eftir að hafa tekið út leikbann í síðasta leik. Skagamenn mæta til leiks með nýtt þjálafarteymi eftir að Gunnlaugur Jónsson sagði starfi sínu lausu í vikunni.

Sjá viðtöl við Aron Bjarnason, Andra Rafn Yeoman og Milos Milosjevic fyrir leik Breiðabliks og ÍA í Pepsí-deild karla.

Sagan

ÍA er það lið sem Breiðablik hefur mætt næst oftast í opinberri keppni. Liðin hafa mæst 109 sinnum í mótsleik frá fyrsta leik liðanna sem var 16. maí árið 1965. Skagamenn hafa sigrað í 62 viðureignum, Breiðablik í 25 viðureignum og jafnteflin eru 22. Á 30 ára tímabili frá 1965 til 1995 unnu Skagamenn nánast allar viðureignir liðanna. Fyrsti sigurleikur Blika á ÍA kom í Litla bikarnum 16. maí 1970 Fyrsti sigur Blika á ÍA í efstu deild (þá 1.deild) kom í leik á gamla Melavellinum í Reykjavík 9. ágúst 1972.

Í 30 mótsleikjum liðanna frá árinu 2000 hafa Blikar unnið 12 leiki, jafnteflin eru 8, og 10 töp. Blikar hafa skorað 58 mörk gegn 40 mörkum Skagamanna. Samtals 99 mörk skoruð í 30 leikjum síðan árið 2000.

Í efstu deild er vinningshlutfalið jafnt eftir að Breiðablik tryggði sér þar sæti eftir nokkur mögur ár í 1. deild. Árin 2006-2017 eru viðureignir liðanna í efstu deild 15: 6 sigrar, 4 jafntefli og 5 töp.

Skagamenn léku 1. deild frá 2009 og 2011, og aftur árið 2014. Því eru efstu deildar leikirnir liðanna aðeins 15 á 12 ára tímabili frá 2006 til 2017.

Blikum hefur gengið ágætlega gegn ÍA á Kópavogsvelli; 4 sigrar, 1 jafntefli og 2 töp í 7 leikjum á framangreindu 11 ára tímabili.

2006: 2-2 jafntefli í 16. umferð - nánar

2007: 3-0 sigur í 5. umferð - nánar

2008: 6-1 sigur í 12. umferð - nánar

2012: 0-1 tap í 1. umferð - nánar

2013: 4-1 sigur í 3. umferð – nánar

2015: 3-1 sigur í 18. umferð - nánar

2016: 0-1 tap í 10. umferð - nánar

Leikur Breiðabliks og ÍA á sunnudaginn verður 110.viðureign liðanna í öllum opinberum mótsleikjum frá upphafi: 54. viðureign liðanna í efstu deild frá upphafi og 27. efstu deildar viðureign liðanna á Kópavogsvelli frá upphafi.

Leikurinn hefst kl.18:00.

Við skorum á alla Blika að mæta og styðja við bakið á strákunum!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka