BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik - ÍBV í PEPSI sunnudaginn 24. september kl. 14:00

20.09.2017

Breiðabliksliðið fær lið ÍBV í heimsókn á Kópavogsvöll í 21. umferð PEPSI karla á sunnudaginn kl. 14:00. Eyjaliðið, sem hafa verið á góðri siglingu undanfarið, eru í 9. sæti deildarinnar með 22 stig -  einu sæti fyrir neðan Blikaliðið sem situr í 8. sæti deildarinnar með 24 stig.  

Vörður býður frítt á völlinn!

Um er að ræða síðasta heimaleik meistarflokks karla á tímabilinu og strákarnir ákveðnir í því að kveðja Kópavogsvöll með sigri í ár. Frítt verður á völlinn í boði Varðar og hvetjum við alla Blika til þess að mæta og styðja strákana til sigurs.

Leikur Breiðabliks og ÍBV á sunnudaginn er þriðji leikur liðanna á þessu ári. Í janúar léku liðin í Fótbolta.net æfingamótinu. Nánar hér. Og í júlí mættu Blikar til Eyja í 10. umferð Pepsi karla. Nánar hér.

Í 9 efstu deildar viðureignum Breiðabliks og ÍBV á Kópavogsvelli frá árinu 2006 hafa Blikar unnið 4 leiki, ÍBV 2 leiki og 3 leikjum hefur lyktað með jafntefli. Nánar hér.

Fróðleikur

Olgeir Sigurgeirsson aðstoðarþjálfari Blika er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Hann kom í heiminn árið 1982 og byrjaði ungur að sparka bolta. Hann spilaði sinn fyrsta leik með meistaraflokki ÍBV árið 1999 aðeins 17 ára að aldri. Olgeir gekk síðan til liðs við okkur Blika árið 2003 og er í dag leikjahæsti leikmaður meistaraflokks frá upphafi. Olli lék 321 leiki með okkur Blikum og skoraði í þeim 39 mörk.

Sagan

Breiðablik og ÍBV hafa mæst 90.sinnum í opinberri keppni. Þar til viðbótar eru margir óskráðir leikir í svonefndri Bæjarkeppni liðanna sem var leikin heima og heiman vor og haust. Keppnin hófst í kjölfar eldgossins í Eyjum enda góður vinskapur á milli Kópavogs og Vestmannaeyja.

Allra fyrsti leikur liðanna var æfingaleikur við ÍBV í Vestmannaeyjum sumarið 1958 þegar Breiðabliksliðið var að stíga sín fyrstu skerf á knattspyrnuvellinum, en knattspyrnudeild Breiðabliks var stofnuð árið 1957.

Í efstu deild eiga liðin að baki 55 leiki. Tölfræðin úr þeim leikjum alveg jöfn því hvort lið hefur sigrað 21 leik og jafnteflin er 13. Nánar hér.

Í 27 efstu deildar leikjum gegn ÍBV á Kópavogsvelli frá upphafi hafa Blikar unnið 14 sinnum, tapað 9 sinnum og gert 4 jafntefli. Nánar hér.

ÍBV fellur um deild haustið 2006 – árið sem Blikar koma aftur upp í efstu deild eftir nokkur ár í næst efstu deild. Árið 2009 er ÍBV liðið aftur komið meðal þeirra bestu. Úrslit í viðureignum liðanna á Kópavogsvelli síðan 2009: 2016: 1-1   2015: 1-0   2014: 1-1   2013: 3-1   2012: 1-0   2011: 1-2   2010: 1-1   2009: 3-4   Sem sagt 3 sigrar, 3 jafntefli og 2 töp. Nánar hér.

Heimavöllurinn hefur gefið okkur lítið í sumar. Nú þarf liðið að koma vel undirbúið til leiks gegn ÍBV á sunnudaginn. Með sigri þar tryggjum við sæti okkar í deildinni. Koma svo Blikar – endum tímabilið með heimasigri!

Leikur Breiðabliks og ÍBV verður á Kópavogsvelli á sunnudaginn 24. júlí klukkan 14:00.

Athugið að í hálfleik verða Íslandsmeistarar í yngri flokkum félagsins heiðraðir og biðjum við ykkur kæru Blikar að taka þátt í athöfninni með því að staldra við og klappa fyrir þessum ungu og efnilegu iðkendum okkar.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka