BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik-Jelgava í kvöld kl.19.15 - Evrópustemmning í Kópavoginum

30.06.2016

Spenningurinn er að aukast fyrir Evrópuleik Breiðabliks og Jelgava frá Lettlandi í kvöld á Kópavogsvelli kl.19.15.

Þetta er fyrsti Evrópuleikur Blika síðan árið 2013 þegar Blikar duttu út gegn Aktobe frá Kazakstan eftir æsispennandi leik og vítaspyrnukeppni. Sama ár höfðu Blikar slegið út Santa Coloma frá Andorra og hið sterka lið Sturm Graz frá Austurríki.

Töluverð breyting hefur orðið á Blikaliðinu frá þessum leikjum og eru einungis þrír leikmenn eftir í leikmannahópi Blika sem spiluðu þessa  leiki. Þetta eru þeir Gunnleifur markvörður, Andri Rafn og Ellert.  Það er því spenna í öllum þeim leikmönnum sem eru að spila sinn fyrsta Evrópuleik.

Miðvörðurinn sterki Damir Muminovic sagði til dæmis í viðtali við blikar.tv að strákarnir hlakki mikið til þessa leiks. Hann vonist til að áhorfendur fjölmenni á völlinn því stuðningur stuðningsmanna skipti miklu máli. Arnar Grétarsson, þjálfari, sagði í viðtali við blikar.is að Blikaliðið renni dálítið blint í sjóinn varðandi getu þessa lettneska liðs. ,,Við höfum skoðað upptökur af þremur leikjum frá þeim. Svo höfum við fengið upplýsingar um liðið frá aðilum sem þekkja til lettnesks fótbolta. Ljóst er að þetta er eitt af betri liðum landsins og við verðum að eiga toppleiki til að komast áfram. Stuðningur áhorfenda skiptir hér miklu mál og vonandi fjölmenna Blikar á völlinn í kvöld.“

Blikaklúbburinn tekur undir áskorun Arnars og Grétars til Blika að fjölmenna á völlinn. Enn er hægt að tryggja sér miða á góðum stað en miðasalan er í Smáranum í allan dag.

Sjá viðtal við Damir og Arnar á blikar.tv hér.

Þess má geta að framleidd var sérstök Evróputreyja fyrir Evrópukeppni karla og kvenna í ár og verður hún til sölu á leiknum í kvöld. Hún kostar aðeins 7.500 krónur (sjá mynd)

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka