BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik-KA í kvöld á Kópavogsvelli kl.19.15

18.06.2015

Minnum á leik Breiðabliks og KA í bikarkeppni karla á Kópavogsvelli í kvöld kl.19.15. Búast má við hörkuleik enda KA-menn með ágætis lið þrátt fyrir að vera deild neðar en við. Við lentum í basli með þá í úrslium Lengjubikarsins í vor þannig að við þurfum að eiga góðan leik til að komast áfram.

Samt er líklegt að Arnar og Kristófer gerir einhverjar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Ekki þó eins margar eins og leiknum gegn KFG en það kemur allt í ljós á Kópavogsvelli í kvöld.

Liðin hafa leikið 31 leik í opinberum keppnum. Fyrsti leikurinn var 2-2 jafntefli í gömlu 1. deildinni á Kópavogsvelli 13. maí árið 1978. Liðin eiga 3 leiki að baki í Bikarkeppni KSÍ. Fyrsti leikurinn var 2002 en þá vinnur KA sannfærandi 3-0 sigur í 8-liða úrslitum á Akureyravelli. Annar leikurinn var 2006 en þá töpuðum við 3-2 fyrir norðan í 16-liða úrslitum. Það tap varð til þess að Bjarni Jóhannesson, þáverandi þjálfari Blika og núverandi þjálfari KA, sagði starfi sínu lausu sem þjálfari meistaraflokks karla. Þetta gerðist 3. júlí 2006. Blikar þjálfaralausir um mitt mót. Það fór svo að Ólafur H. Kristjánsson var ráðinn í starfið og hafði hann 3 sólarhringa til að undirbúa liðið fyrir útileik gegn Val í 10. umferð. Þriðji og síðasti leikur liðanna í Bikarkeppni KSÍ var 1-0 sigur Blika á Kópavogsvelli í 32-liða úrslitum 19. júní 2008. Það var Prince Rajcomar sem skoraði eina mark leiksins á 37. mínútu. Nokkrir leikmenn í núverandi leikmannahópi Blika tóku þátt í þessum leik fyrir réttum 7 árum síðan; Olgeir Sigurgeirsson, Kristinn Jónsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson. Og þjálfarinn okkar Arnar Grétarsson var varamaður í leiknum. Eitthvað hefur gengið á inn á vellinum og á bekknum því Nenad Petrovic náði sér í spjald strax á 5. mínútu og spjöldin voru orðin 4 áður en yfir lauk þ.m.t. spjald á Óla Kristjáns þjálfara. Þjálfari KA manna fyrir 7 árum er okkar maður, Dean Martin.

Við minnum á að Blikaklúbbskírteini gilda ekki á þennan leik því þetta er bikarleikur!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka