BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik – KA í PEPSI laugardag 29. september kl.14:00

26.09.2018

Þá er komið að því. Síðasti leikur í PEPSI karla 2018 og jafnframt síðasti keppnisleikur Blikamanna á grasigrónum Kópavogsvelli. Blikastrákar hafa spilað á fimmta hundrað mótsleiki á vellinum frá opnunarleiknum í júní 1975. Nánar um leiki á vellinum

Strákarnir okkar fá mjög verðugt verkefni gegn KA-mönnum frá Akureyri á Kópavogsvelli á laugardaginn kl.14.00. KA-liðið hefur verið á góðri siglingu undanfarið. Liðið vann góðan sigur á Grindvíkingum í síðustu umferð í 7 marka leik þar sem KA-menn skoruðu 4 mörk gegn 3 mörkum Grindvíkinga. Jafntefli er niðurstaða í þremur leikjum þar á undan. Gerðu 1:1 jafntefli gegn Stjörnunni á Akureyravelli, 3:3 jafntefli gegn Val einnig á Akureyravelli og 2:2 jafntefli gegn Víking R. í Víkinni. KA liðið hefur verið í miklu stuði undanfarið - ekki tapað leik síðan 19.ágúst. Það er örugglega góð stemmning í þeirra herbúðum eftir sigurleik gegn Grindavík um daginn. Það má búast við hörku leik á laugardaginn í þessum síðasta leik sumarsins á Kópavogsvelli. Leikurinn verður kveðjuleikur Tufa með KA liðið.

Okkar menn hafa ekki spilað á Kópavogsvelli síðan gegn Grindavík 2. september. Þrír síðustu leikir Blika hafa allir verið á útivelli. Úrslitaleikurinn í Mjólkurbikarnum 2018 var á Laugardalsvelli um miðjan september nánar hér. Um miðja síðustu viku gerði lið Blikamanna góða ferð á Floridana völlinní Árbæ og unnu sannfærandi 0:3 sigur nánar hér. Og strax á sunnudaginn var Blikaliðið mætt á Extra völlinn þar sem þeir unni 0:2 sigur á Fjölnismönnum nánar hér.

Það er mikið í húfi fyrir Breiðablik á laugardaginn. Breiðabliksliðið er núna í 2. sæti deildarinnar með 41 stig – aðeins tveim stigum frá toppliði Vals og einu stigi fyrir ofan Stjörnumenn. Sigur gegn KA á laugardaginn gulltryggir okkur silfurverðlaun í Pepsi 2018 - og sigur getur tryggt Blikum Íslandsmeistaratitilinn ef úrslit í viðureign Valsmanna og Keflvíkinga verða okkur hagstæð.

Með sigri gegn KA endar Blikaliðið mótið með 44 stig sem er sami stigaárangur og þegar við urðum Íslandsmeistarar árið 2010. Gangi vangaveltur höfundar ekki eftir er samt ljóst að þátttaka í Evrópukeppni 2018 er tryggð og Blikaliðið getur ekki endað neðar en í þriðja sæti í Pepsi 2018.

Leikbönn

Á fundi aganefndar KSÍ í vikunni voru 4 leikmenn KA og 2 leikmenn Blika dæmdir í eins leiks bann og verða því í leikbanni í leiknum á laugardaginn. Hjá Blikum eru Jonathan Hendrickx og Alexander Helgi Sigurðason í banni. Hjá KA eru Aleksandar Trinic, Archange Nkumu, Callum Williams og Vladimir Tufegdzic í banni.

Tölfræði

Heilt yfir er tölfræðin Blikum í hag ef við skoðum alla mótsleiki liðanna. Leikirnir eru samtals 37 í öllum mótum frá upphafi. Blikar hafa yfirhöndina með 23 sigra gegn 10 tapleikjum, jafnteflin eru 4.

Þegar flautað var til leiks liðanna á Kópavogsvelli 1. maí í fyrra voru 25 ár liðin frá síðasta leik liðanna á Kópavogsvelli í efstu deild. Leikurinn í fyrra var markaleikur sem endaði með 1:3 sigri KA-manna.

Leikir Blika og KA í efstu deild á Kópavogsvelli eru 7. Blikar hafa sigrað 5 leiki og KA 1 leik en jafntefli var niðurstaðan í fyrsta leik liðanna í efstu deild árið 1978. Sjá nánar um leiki liðanna í efstu deild í Kópavogi hér.  

Fyrri leikur líðanna í deildinni endaði með 0-0 jafntefli þrátt fyrir nokkur hættuleg færi og næstum mörk. Nánar um leikinn hér. 

Tengsl

Góðar tengingar hafa verið milli liðanna í gegnum árin. Núna eru 3 fyrrverandi leikmenn Breiðabliks að spila og starfa með KA-liðinu. Þetta eru þeir Guðmann Þórisson, Steinþór Freyr Þorsteinsson og Elfar Árni Aðalsteinsson. Einnig er  framkvæmdastjóri KA, Sævar Pétursson, fyrrverandi leikmaður Blika með 119 mótsleiki og 23 mörk.

Svo má ekki gleyma því að bræðurnir og Stór-Blikarnir Einar, Hinrik og Þórarinn Þórhallssynir (Huldusynir) hafa allir leikið með báðum liðum. Einar 1979, Þórarinn (Tóti) 1983/1984 og Hinrik lék yfir 100 leiki með KA á árunum 1981 til 1987. Hægt að smella hér til að sjá viðtal úr safni við þá bærður.

Dagskrá

Getraunakaffi Breiðabliks hefst á laugardaginn og verður í tengibyggingunni á milli kl. 10-12. Tilvalið að byrja daginn þar, hittast yfir góðum kaffibolla og bakkelsi og spjalla við aðra Blika um þennan stóra dag sem við eigum fyrir höndum og henda inn eins og einum seðli til að vera með í getraunapotti dagsins.

Laugardaginn 29.september verður fjölskylduhátíð í Smáranum á milli klukkan 12-14.

  • Boðið verður upp á grillaðar pylsur og drykki fyrir utan Smárann.
  • Í Fífunni verða knattþrautir fyrir alla, bæði stóra og smáa.
  • Hoppukastalar verða á svæðinu.
  • Meistaraflokkur kvenna verður með Íslands- og bikarmeistaratitilinn til sýnis og geta allir fengið mynd af sér með þeim.
  • Klukkan 14:00 hefst svo leikur Breiðabliks og KA á Kópavogsvelli.
  • Það verður kaldur í tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kjötsúpa.
  • Sparkvöllurinn á sínum stað fyrir þá krakkana.

Hvetjum alla Blika til þess að mæta á leikinn og hvetja strákana til sigurs í síðasta leik tímabilsins.

Leikið er á Kópavogsvelli og hefst leikurinn kl.14:00!

Áfram Breiðablik, alltaf, allsstaðar!

Til baka