Breiðablik – Keflavík í PEPSI laugardaginn 12. maí kl. 16:00!
10.05.2018Þriðja umferð PEPSI deildar karla hefst á laugardaginn með 3 leikjum. KA-menn fá ÍBV í heimsókn norður á Akureyri. Grindvíkingar fá KR-inga í heimsókn til Grindavíkur og við Blikar – eina liðið með full hús stiga eftir fyrstu 2 umferðirnar – fáum lið Keflvíkinga í heimsókn á Kópavogsvöll. Keflvíkingar eru með 1 stig eftir tvær umferðir og vilja örugglega rífa sig upp eftr 2-0 tap í Suðurnesjaslagnum um síðustu helgi.
Leikur Breiðabliks og Keflavíkur, kl. 16:00 á laugardaginn, er eini PEPSI deildar leikur dagsins á Stór-Kópavogssvæðinu. Það verður líf og fjör á Kópavogsvelli. Grillaðir börgerar. Kaldir drykkir fáanlegir í veitingatjaldinu. Sparkvöllur fyrir unga fólkið. Sannkölluð Fan Zone stemmning að myndast í Portinu á Kópavogsvelli. Og markaregn inn á vellinum ef liðin halda uppteknum hætti.
Blikar hafa byrjað mótið vel í ár með 2 öruggum sigrum. Fyrst 4:1 stórsigur á ÍBV á Kópavogsvelli í 1. umferð og svo sannfærnadi 1:3 sigur á FH í Krikanum í 2. umferð.
Sagan
Samkvæmt vef KSÍ hafa lið Breiðabliks og Keflvíkinga mæst 76 sinnum í opinberum mótsleikjum frá árinu 1962. Blikar hafa örlítið forskot með 32 sigra gegn 30 sigrum Keflavíkurliðsins. Jafnteflin eru 14. Skoruð mörk eru 271 og skiptast þannig að Blikar hafa skorað 127 mörk gegn 144 mörkum Keflvíkinga. Sem sagt: 3.56 mörk per leik.
Mótsleikjafjöldinn er reyndar 118 þegar búið er að bæta við leikjum sem ekki eru skráðir á vef KSÍ. Þar er um að ræða 3 leiki í gömlu B-deildinni. Sá fyrsti, sem er jafnframt fyrsti opinberi leikur liðanna frá uppafi, er 8:0 tap Blika gegn Keflavík á Njarðvíkurvelli 23 júní 1957, en árið 1957 var fyrsta árið sem Breiðablik sendi lið til keppni í meistaraflokki. Síðari 2 leikirnir voru í gömlu B-deildinni árið 1962. Leikur 24. júní 1962 tapaðist 2:3. Leikurinn, sem var heimaleikur Breiðabliks, var spilaður á gamla Melavellinum sem þá var heimavöllur Breiðabliks þar til Vallargerðisvöllur í Kópavogi var vígður árið 1964. Hinn leikurinn 1962 fór fram í Keflavík og tapaðist 8:2.
Og svo eru það 37 leikir í litlu bikarkeppninni árin 1965 til 1995.
Keflavíkurliðið er því sá andstæðingur sem Breiðablik hefur oftast keppt við í opinberum mótum frá upphafi knattspyrnudeildar Breiðabliks árið 1957.
Efsta deild
Viðureignir liðanna í efstu deild eru 54 leikir. Fyrsti efstu deildar leikur liðanna var árið 1971 en það ár lék Breiðablik í efstu deild í fyrsta sinn. Í 54 viðureignum hafa Keflvíkingar unnið 23 leiki, Breiðablik 18 og jafntefli er niðurstaðan í 13 leikjum. Markatalan er 97-82 Blikum í óhag.
En ef við færum okkur aðeins nær í tíma og kíkjum á tölfræðina eins og hún er eftir að eftir að Blikar koma aftur upp í efstu deild árið 2006, eftir nokkur mögur ár í fyrstu deildinni, þá fellur tölfræðin heilt yfir með Blikum. Í 20 efstu deildar leikum frá 2006 til 2015 leiða Blikar með 9 sigra gegn 5 KEF sigrum. Jafnteflin eru 9. Liðin skora 75 mörk í þessum 20 leikjum. Blikar skora 39 af þessum 75 mörkum og Keflvíkingar 36. Meðalatalið er 3.75 mörk per leik.
Síðustu 5 á Kópavogsvelli
Síðasti heimaleikur Blika gegn Keflavík var 4:0 sigurleikur okkar manna í ágúst árið 2015. Keflavíkurliðið féll um haustið en er nú aftur komið upp í efstu deild. Árið 2014 eru samtals 8 mörk skoruð í sögulegu 4:4 jafntefli á Kópavogsvelli. Fimm mörk eru skoruð í 3:2 sigri Blika árið 2013. Árið 2012 skella Keflvíkingar Blikum 0:4 á Kópavogsvelli í fjörugum leik þar sem núverandi aðstoðarþjálfi Blika skoraði eitt marka Keflavíkurliðsins (nánar). Og árið 2011 vinna Blikar 2:1 sigur. Það er óhætt að segja að það “rigni mörkum” þegar þessi lið mætast – 24 mörk í 5 leikjum á Kópavogsvelli 2011-2015. Reiknivélin sýnir 4.8 mörk per leik.
Leikmannahópur Blika
Leikmannahópur Blika er ekki mikið breyttur frá í fyrra. Jonathan Hendrickx er nýr leikmaður hjá okkur eins og allir vita. Arnór Gauti snýr aftur heim eftir dvöl í Eyjum í fyrra. Guðmundur Böðvar Guðjónsson kemur til Blika frá ÍA og Alexander Helgi Sigurðarson hefur nú náð sér eftir langvarandi meiðsli. Og svo er Oliver Sigurjónsson kominn aftur til okkar í bili en hann náði 12 mótsleikjum í fyrra - þar af fjórum í efstu deild. Leikmannahópur Blika 2018
Aðstoðarþjálfarinn
Það er ekki hægt að fjalla um Keflavíkurliðið án þess að nafn Guðmundar Steinarssonar komi upp í hugann. En markaskorarinn mikli, Guðmundur Steinarsson, aðstoðarþjálfari Ágústar Gylfasonar aðalþjálfara Breiðabliks, er leikjahæsti leikmaður Keflavíkurliðsins frá upphafi með 244 leiki og 81 mark í A-deild fyrir liðið. Hann er líka markahæsti leikmaður frá upphafi í Keflavík. Guðmundur hefur spilað 3 A-landsleiki en heilt yfir hefur hann spilað 344 mótsleiki á ferlinum og skorað í þeim 113 mörk.
Leikur Breiðabliks og Keflavíkur verður á Kópavogsvelli klukkan 16:00 á laugardaginn. Grillaðir börgerar og kaldir drykkir fáanlegir í veitingatjaldinu. Sparkvöllur fyrir unga fólkið. Sannkölluð Fan Zone stemmning í boði.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!