Breiðablik - KR í Lengjubikarnum á laugardaginn
15.03.2018Síðustu leikir í riðli 2 í Lengjubikarnum 2018 verða spilaðir á laugardaginn.
Við Blikar fáum KR-inga í heimsókn í Fífuna. Leikurinn hefst kl.11:00. Klukkan 15:15 mætast svo ÍR og Magni í Egilshöllinni og leikur Þróttara gegn KA er svo strax í kjölfarið kl. 17:15.
Eftir slæm úrslit fyrir norðan um síðustu helgi er möguleiki okkar manna á efsta sæti riðilsins ekki lengur í okkar höndum. Til að Blikar eigi möguleika á að komast í undanúrslit þarf liðið að taka 3 stig í leiknum gegn KR og Þróttur R þarf að vinna sinn leik gegn KA, en slík úrslit eru ólíkleg miðað við siglinguna sem KA er á þessa dagana.
Sagan
Fyrsta viðureign Breiðabliks og KR í efstu deild var á Melavellinum árið 1971. Blikar unnu leikinn 1-0 með marki frá Haraldi Erlendssyni. Leikið var á Melavellinum sem var heimavöllur Breiðabliks frá 1971 til 7. júní 1975 en þann dag var Kópavogsvöllur vígður.
Breiðablik og KR hafa mæst 85 sinnum í opinberum leikjum frá upphafi. KR hefur vinninginn með 41 sigur gegn 19 sigrum Blika. Jafnteflin eru 25.
Lengubikarinn
Í 12 leikjum í Lengjubikarnum (Deildarbikar KSÍ) frá 1999 hafa KR-ingar yfirhöndina með 6 sigra gegn 4 sigrum Blikamanna.
Nokkrir þessarra 12 leikja voru í undanúrslitum og úrslitum:
Árið 2005 tapa Blikar 3-0 fyrir KR í undanúrslitum í Egilshöll.
Árið 2010 spiluðu liðin til úrslita í Deildarbikarnum í Kórnum. Leikurinn tapaðist 1-2 með mörkum frá Björgólfi Takenfusa og Mark Rutgers á 43. og 45. mín áður en fyrirliðinn Kári Ársælsson lagaði stöðun með marki á 61. mín.
Árið 2012 vinna KR-ingar 2-0 sigur í undanúrslitum á KR-velli.
Árið 2013 í 8-liða úrslitum á KR-velli vinna Blikar 1-3. Það voru Páll Olgeir, Árni Vilhjálms og Jökull I. Elísarbetarson sem sem skorðu mörkin á 45., 46. og 78. mín. Baldur Sigurðsson setti mark KR-inga á 21. mín. Nánari umfjöllun um leikin hér. Blikar kláruðu svo mótið með 1-2 sigri á Víking Ó. undanúrslitum og 3-2 sigri á Valsmönnum í úrslitaleik á Stjörnuvelli.
Leikur Blika gegn KR er kl.11:00 á laugardaginn. Hvetjum alla Blika til að mæta í Fífuna og hvetja sína menn.
Leikurinn er sýndur í beinni á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki komast.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!