BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik – Stjarnan í PEPSI karla á sunnudag kl. 20:00!

01.06.2018

Topplið Breiðabliks tekur á móti Stjörnumönnum á Kópavogsvelli á sunnudagskvöld í 7. umferð PEPSI karla. Leikurinn hefst kl. 20:00!

Okkur hefur gegnið vel með Stjörnuna á Kópavogsvelli og vonandi verður engin breyting þar á. Deildarleikir liðanna á Kópavogsvelli 2009-2017.

Okkar menn hafa verið á mikilli siglingu í fyrstu 6 umferðum í PEPSI karla og eru nú efstir í deildinni með 11 stig ásamt Grindavík og FH. Fyrsti leikurinn var 4:1 stórsigur á ÍBV á Kópavogsvelli í 1. umferð. Í kjölfarið kom sannfærandi 1:3 sigur á FH í Kaplakrika í 2. umferð. Svo var það 1:0 sigur gegn Keflavík í miklum baráttuleik á Kópavogsvelli í 3. umferð. Í 4. umferð var það klassískt 1:1jafntefli við KR-inga í Frostskjólinu í 5. umferð. Og síðasta deildarleik tapaði liðið 2-1 fyrir Valsmönnum á Origo vellinum.

Stjörnu-vélin hefur hins vegar verið að hiksta í upphafi móts og situr Garðabæjarliðið nú í 8. sæti með 7 stig eftir 6 umferðir. Það er því ljóst að Stjörnumenn munu reyna að ná í 3 stig í Kópavoginn á sunnudaginn og vinna þar með deildarleik þar 2 ár í röð - það hefur reyndar aldrei gerst eins og tölfræðin sannar.

Sagan

Liðin hafa mæst í 52 skipti í öllum keppnum frá fyrsta leik árið 1970. Leikirnir 52 dreifast á 6 mót: A-deild(26), B-deild(12), Bikarkeppni KSÍ(2), Litla Bikarkeppnin(6), Lengjubikarinn(3) og Fótbolta net mótið(3). Blikar hafa unnið 23 leiki, Stjarnan 19 leiki og 10 leikjum hefur lokið með jafntefli.

Fyrsti opinberi leikur Breiðabliks og Stjörnunnar fór fram á Melavellinum í Reykjavík 22. ágúst 1970. Leikurinn var í 1. umferð Bikarkeppni KSÍ. Blikar unnu þessa fyrstu viðureign liðanna nokkuð stórt eða með 11 mörkum gegn engu!

Efsta deild frá 2009

Í samtals 18 efstu deildar leikjum liðanna frá endurkomu Stjörnunnar upp í efstu deild árið 2009 hafa Blikar sigrað 10 sinnum, Stjarnan hefur unnið 4 leiki og 4 leikjum hefur lokið með jafntefli. Blikar hafa skorað 34 mörk gegn 18 Stjörnu-mörkum. Samtals gera þetta 52 mörk eða liðlega 3 mörk per leik. Leikir liðanan eru miklir markaleikur - það er bara þannig.

Efsta deild frá upphafi

Leikurinn á Kópavogsvelli á sunnudaginn er 14. efstu deildar leikur liðanna á Kópavogsvelli frá því að liðin léku þar fyrsta A-deildar leikinn 14. júlí 1991. Leikurinn 1991 tapaðist 0:2. Stjörnumenn hafa unnið 2 deildarleiki á Kópavogsvelli síðan 1991. Blikar töpuðu fyrir Stjörnunni 11. júlí 1994. Og Stjarnan sigraði viðureign liðanna á Kópavogsvelli 14. maí í fyrra.

Í 10 efstu deildar leikjum á tímabilinu 1996 til 2016 sigra Blikar 8 viðureignir af 10 og gera 2 jafntefli.

Viðureignir liðanna í efstu deild á Kópavogsvelli árin 2009 - 2017 eru miklir markaleikir eins og sjá má hér – 31 mark í aðeins 9 leikjum.

Dagskrá fyrir leik

Heiðursgestir á leiknum verða Blikarnir og HM fararnir Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson og Sverrir Ingi Ingason

Blikaklúbburinn og Kópacabana hópurinn blása til peppfundar kl. 17:00 í Tjaldinu á Kópavogsvelli fyrir leikinn og ætla að bjópa Silfurskeiðinni í heimsókn.

Peppi Pepsi dós mætir á leikinn og verður með sprell fyrir og á meðan leik stendur.

Pepsi mun gefa gos og snakk við innganginn ásamt því að í hálfleik verður hægt að skjóta í Pepsi dúk með götum fyrir flotta vinninga.

Það verður kaldur í tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kjötsúpa.

Sparkvellir á sínum stað fyrir krakkana.

Fyrir leik munu fulltrúar frá UMFÍ kynna landsmótið á Sauðárkróki.

Sjáumst öll á Kópavogvelli á Sunnudagskvöld og hvetjum okkar menn til sigurs.

Leikurinn hefst kl. 20:00! 

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka