Breiðablik - Valur í PEPSI mánudaginn 20. ágúst kl.18:00!
18.08.2018Sautjánda umferð PEPSI-deildar karla hefst á laugardag með leik ÍBV og Keflavík í Eyjum. Þrír leikir eru á sunnudag: KA - KR, Gringavík – Stjarnan og Fylkir – FH. 17. umferðinni lýkur svo á mánudagskvöld með leik Fjölnis - Víkings R. og okkar leik gegn Valsmönnum á fagurgrænum og rennisléttum Kópavogsvelli kl.18.00.
Eftir 5 sigurleiki í röð gegn: Vík R., KR, Keflavík, FH og Fjölni eru Blikar efstir á stigatöflunni í PEPSI með 34 stig eftir 16 leiki.
Valsmenn eru í 2. sæti með 32 stig eftir 15 leiki - eiga inni leik við Stjörnuna sem verður spilaður miðvikudaginn 29. ágúst. Valsmenn hafa unnið 3 af 5 síðustu deildarleikjum. Unnu Keflavík, Vík R., og Grindavík, en gerðu jafntefli við Fylki og KR.
Það er því ljóst að Blikum bíður mjög krefjandi verkefni á mánudagskvöld. Sigur gegn Val setur okkar menn í lykilstöðu í baráttunni um toppsætið.
Sagan
Opinberir leikir Breiðabliks og Vals í meistarflokki karla frá upphafi eru 89. Fyrsti mótsleikur liðanna var leikur í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ á Melavellinum föstudaginn 13. ágúst 1965. Leikið var gegn B-liði Vals. Leikurinn tapaðist 3:1. Næsta viðureign liðanna var árið 1968. Og aftur var leikið gegn B-lið Vals í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ. Leikurinn fór fram á Melavellinum 26. júlí 1968. Blikar unnu leikinn 3:0.
Sagan frá upphafi er með Val. Í 89 mótsleikjum frá upphafi hafa Valsmenn sigrað 38 sinnum, Blikar hafa sigrað í 32 skipti og jafnteflin eru 19.
Efsta deild
Fyrstu viðureignir liðanna í efstu deild voru árið 1971. Fyrri leikurinn 1971 var heimaleikur Blika og lauk með 2-0 sigri okkar manna. Það voru þeir Guðmundur Þórðarson og Magnús Steinþórsson sem skorðu fyrstu 2 mörk Blika gegn Val í efstu deild. Hinsvegar tapaðist seinni leikurinn 4-2. Um haustið áttust liðin við í 8-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ. Blikar unnu bikarleikinn 2-1.
Tölfræðin er nokkuð jöfn þegar kemur að efstu deildar leikjum liðanna. Í 63 leikjum í efstu deild hefur Valur sigrað 26 leiki, Blikar 23 leiki og jafnteflin eru 14.
Í 12 efstu deildar leikjum liðanna á Kópavogsvelli frá 2005 hafa Blikar yfirhöndina með 6 sigurleiki gegn 3 sigurleikjum Vals. Jafnteflin eru 3.
Frá 2005
Hinsvegar hafa Blikar haft gott tak á Valsmönnum í efstu deild frá því að liðin færðust síðast upp um deild - Valur árið 2005 og Breiðablik ári síðar. Í 25 viðureignum liðanna heima og úti hafa Blikar unnið 12 leiki, Valsmenn hafa unnið 7 leiki, og jafnteflin eru 6.
Síðustu 5 á Kópavogsvelli
2017: 1:2 – Flautumark Bjarna Ólafs á 94. mín tryggði Valsmönnum 3 stig.
2016: 0:0 – Líklega sanngjarnt jafntefli í tíðindalitlum leik.
2015: 1:0 – Gulli varði meistaralega í leiknum. Höskuldur skoraði sigurmarkið.
2014: 3:0 – Guðjón Pétur og Ellert Hreinsson skoruðu mörk Blika.
2013: 1-0 – Ellert Hreinsson skoraði sigurmark Blika á 61. mín.
Leikmannahópur Blika
Leikmannahópur Blika hefur tekið breytingum í sumar. Í júlí skrifaði Sveinn Aron Guðjohnsen undir 3 ára samning við Ítalska liðið Spezia og flutti til Ítalíu í kjölfarið. Í júní skrifaði Danski framherjinn Thomas Mikkelsen undir 2 ára samning við Breiðablik. Fyrir mót kom Jonathan Hendrickx til okkar eins og allir vita. Arnór Gauti snéri aftur heim eftir dvöl í Eyjum í fyrra. Guðmundur Böðvar Guðjónsson kom til okkar frá ÍA. Alexander Helgi Sigurðarson, sem var lánaður til Ólafsvíkur, var kallaður heim rétt fyrir lok félagaskiptagluggans. Fyrir mót kom Oliver Sigurjónsson aftur til okkar frá Noregi. Og Elfar Freyr Helgason er búinn að ná sér eftir axlarmeiðslin sem hann varð fyrir í byrjun júní. Leikmenn Blika 2018
Blikar hjá Val
Einn leikmaður Valsliðsins hefur leikið með Blikum. Guðjón Pétur Lýðsson lék 104 mótsleiki með Blikum frá 2013 til 2015 og skoraði í þeim 25 mörk.
Dagskráin
Sjáumst öll á Kópavogsvelli á mánudagskvöld og hvetjum okkar menn til sigurs. Búast má við fjölmenni á völlinn þannig að við hvetum fólk til að mæta tímanlega.
Það verður kaldur í tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kjötsúpa. Sparkvöllurinn á sínum stað fyrir þá krakkana.
Leikurinn á Kópavogsvelli hefst kl.18:00!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!