Breiðablik – Valur í PEPSI miðvikudaginn 14. júní kl. 19:15
11.06.2017Opinberir leikir Breiðabliks og Vals í meistarflokki karla frá upphafi eru 85. Fyrsti mótsleikur liðanna var leikur í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ á Melavellinum föstudaginn 13. ágúst 1965. Leikið var gegn B-liði Vals. Leikurinn tapaðist 3 - 1. Næsta viðureign liðanna var árið 1968. Og aftur var leikið gegn B-lið Vals í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ. Leikurinn fór fram á Melavellinum 26. júlí 1968. Blikar unnu leikinn 3-0. Mikið skorað strax í fyrstu leikjum liðanna og tónninn fyrir framhaldið gefinn strax í byrjun.
Fyrstu viðureignir liðanna í efstu deild voru árið 1971 - árið sem Blikar léku fyrst í efstu deild. Fyrri leikurinn 1971 var heimaleikur Blika. Leiknum lauk með 2-0 sigri okkar manna. Hinsvegar tapaðist seinni leikurinn 4-2. Um haustið áttust liðin við í 8-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ í leik sem Blikar unnu 2-1. Samtals 11 mörk í þremur innbyrðisleikjum liðanna árið 1971.
Þrátt fyrir aðeins 3 mörk í leikjum liðanna í deildinni í fyrra eru leikir liðanna gjarnan mikilir markaleikir. Árið 2014 vinna Blikar 3-0 heima og 2-1 úti. Og 8. ágúst árið 2012 vinnur Breiðablik magnaðan 3-4 útisigur á Val í leik þar sem m.a. Ingvar Þór Kale, þáverandi markvörður Blika, var rekinn af velli á 65. mín og Valur komst í 2-0 í þeim leik sem Blikar vinna upp með mörkum á 70., 84., 85., og 90. mín. Árið 2010 vinnur Breiðablik 5-0 heima svo nokkur dæmi um markafjölda séu nefnd.
Sagan er með Val í 85 mótsleikjum frá fyrsta leik liðanna árið 1965. Valur hefur sigrað 35 sinnum, Blikar hafa sigrað 31 sinni og 19 leikjum hefur lokið með jafntefli.
Tölfræðin er hníf-jöfn þegar kemur að efstu deildar leikjum liðanna. Í 60 leikjum liðanna í efstu deild hefur Valur sigrað 23 leiki, Blikar 23 leiki og jafnteflin eru 14.
En Blikar eru með gott tak á Valsmönnum í efstu deild frá því að liðin komu upp úr 1. deildinni síðast - Valur árið 2005 og Breiðablik árið 2006 - því að í 22 viðurgeignum heima og úti hafa Blikar unnið 12 sinnum, Valur 4 sinnum og jafnteflin eru 6.
Í 11 heimaleikjum á Kópavogsvelli hafa Blikar unnið 6 leiki, jafnteflin eru 3 og Valur hefur sigrað 2 leiki.
Leikur Breiðabliks og Vals er á Kópavogsvelli á miðvikudag og hefst klukkan 19:15.
Fyrir leik ætlar Vörður tryggingar að bjóða upp á pylsur, gos, popp og blöðrur. Einnig verða á svæðinu bæði hoppukastali og Bubble Ball leikvöllur sem er tilvalið að spreyta sig á.