Breiðablik – Víkingur Ó. Undanúrslit í Mjólkurbikarnum fimmtudaginn 16. ágúst kl.18:00!
14.08.2018Leikir í undanúrslitum Bikarkeppni KSÍ (Mjólkurbikarnum) fara fram á miðvikudag og fimmtudag. Á miðvikudaginn taka Stjörnumenn á móti FH-ingum. Á fimmtudag tekur Breiðabliksliðið á móti baráttujöxlunum úr Víking Ólafsvík.
Blikar hafa verið á góðri siglingu og unnið 5 deildarleiki í röð og eru nú efstir í Pepsi deildinni. Ólafsvíkurliðið hefur hefur veriða að gefa eftir í síðustu leikjum. Hafa gert 3 jafntefli og unnið 2 í síðustu 5 leikjum í Inkasso deildinni.
Leið liðanna í Undanúrslit
Í 8-liða úrslitum unnu Blikar Valsmenn 1:2 með glæsilegu sigurmarki á 93. mín. Nánar um leikinn. Ólafsvíkur-Vikingar unnu Reykjavíkur-Víkinga 0:1 á Víkingsvellinum.
Í 16-liða úrslitum unnu Blikar KR 1:0 í miklum baráttuleik á Kópavogsvelli. Nánar um leikinn. Sama dag vann Víkingur Ó. Lið Fram 0:1 á Framvellinum.
Í 32-liða úrslitum unnu Blikar 1-3 þolinmæðissigur á Leiknismönnum í Breiðaholtinu. Víkingur Ó. vann Hamar 3:5 á Grýluvelli.
Sagan
Breiðablik og Víkingur Ó. hafa mæst 19 sinnum í mótsleikjum. Blikar hafa sigrað í 15 leikjum, Víkingar unnið 1 sinni og 3 leikir hafa endað með jafntefli.
Bikarkeppni
Liðin eiga aðeins 1 leiki að baki í Bikarkeppni KSÍ. Í júní 2005 vinna Blikar 1-2 í Ólafsvík í 32-liða úrslitum. Strax á 3. mínútu skorar Slavisa Mitic sjálfsmark. Hermann Geir Þórsson jafnar leikinn á 33. mín. Á 77. mín kemur Ellert Hreinsson inná hjá Blikum og skorar sigurmark Blika 79. mín.
Tengsl
Það eru töluverð tengsl milli þessara liða. Nokkrir núverandi og fyrrverandi leikmanna Blikaliðsins hafa spilað með Ólafsvíkingum. Rétt fyrir mót 2016 var Gísli Eyjólfsson lánaður til Ólafsvíkurliðsins. Hann var svo kallaður til baka úr láni liðlega mánuði síðar eftir að hafa leikið 3 leiki með liðinu. Í félagaskiptaglugganum 2017 var Alexander Helgi Sigurðarson lánaður til Ólafsvíkur en meiðsli komu í veg fyrir að hann gæti æft og spilað með Ólafsvíkurliðinu það tímabil. Aftur í sumar var Alexander Helgi lánaður til Ólafsvíkurliðsins og nú var hann heill, enda spilaði Alexander 12 leiki með Ólsurum í sumar og skoraði 3 mörk áður en hann var kallaður heim í lok júlí. Damir Muminovic lék 24 leiki með Ólafsvíkurliðinu árið 2013 og skoraði 2 mörk. Ellert Hreinsson var í búningi Ólsara keppnistímabilin 2006 og 2007 og skoraði 11 mörk í 23 leikjum. Í félagaskiptaglugganum árið 2015 fer Gunnlaugur Hlynur Birgisson á láni til Ólafsvíkur og spilar þar 10 leiki með þeim 1. deildinni. Í febrúar 2017 gerði Gunnlaugur Hlynur svo 2 ára samning við Ólafsvíkurliðið. Og Blikar fengu í byrjun árs 2017 þeirra markahæsta mann þegar Hrjove Tokic skirfaði undir 2 ára samning við Breiðabliksliðið.
Dagskrá
Það verður eins og áður boðið upp á grillaða hamborgara, sparkvellina fyrir krakkana og tjaldið verður að sjálfsögðu opið fyrir fullorðna. Mjólk frá MS og Mjólkurbikarglös fyrir heppna áhorfendur. Mætum á völlinn og styðjum liðið áfram í úrslitaleikinn í Mólkurbikarnum 2018.
Upphitun Blikamanna hefst kl.17:00 í salnum í stúkunni á jarðhæðinni. Ágúst Gylfason mætir kl.17:15 og fer yfir leikskipulag Blikaliðsins. Einnig spáir hann í andstæðinginn og gefur stuðningsmönnum innsýn í taktíkina sem hann leggur upp með.
Sjáumst öll á Kópavogvelli á fimmtudaginn og hvetjum okkar menn til sigurs. Mætum snemma! Kópacabana lofar stemmningu.
Leikurinn hefst kl.18:00!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!