Breiðablik – Víkingur R. í PEPSI miðvikudag 23. maí kl. 19:15
20.05.2018Fimmta umferð PEPSI deildar karla hefst á mánudaginn með leikjum ÍBV og FH í Eyjum kl. 15:00 og leik Fjölnis og KR í á Extra vellinum í Grafarvogi kl.19:15. KA tekur á móti Keflvíkingum á Akureyri á þriðjudagskvöld. Umferðinni lýkur svo á miðvikudaginn með þremur leikjum sem allir hefjast kl.19:15. Grindavík tekur á móti Valsmönnum í Grindavík, Stjarnan spilar við Fylkismenn í Garðabænum og topplið Breiðabliks fær Reykjavíkur-Víkinga í heimsókn í Kópavoginn.
Blikar hafa byrjað mótið mjög vel og eru efstir í PEPSI deildinni með 10 stig eftir 4 leiki. Fyrsti leikurinn var 4:1 stórsigur á ÍBV á Kópavogsvelli í 1. umferð. Í kjölfarið kom sannfærandi 1:3 sigur á FH í Kaplakrika í 2. umferð. Svo var það 1:0 sigur gegn Keflavík í miklum baráttuleik á Kópavogsvelli í 3. umferð. Og síðasti leikur var klassískt 1:1 jafntefli við KR í Frostskjólinu í 4. umferð.
Sagan
Breiðablik og Víkingur R. eiga 77 mótsleiki að baki í öllum keppnum inni og úti frá því að Breiðabliksmenn byrjuðu að sparka í bolta í Kópavoginum árið 1957, en það ár var fyrsti innbyrgðis keppnisleikur liðanna spilaður á gamla Melavellinum, sem þá var heimavöllur Víkingsliðsins, 17. júlí 1957.
Tölfræði úr leikjunum 1957 – 2018 er nánast jöfn. Blikar hafa unnið 28 leiki, Víkainar 29, jafnteflin eru 20. Nánar hér.
Í efstu deild eru innbyrgðis leikir liðanna 38. Víkingar hafa yfirhöndina þar með 14 sigra gegn 11 sigrum Blika og jafnteflin eru 13.
2000 - 2017
Lið Breiðabliks og Víkings R. hafa mæst 14 sinnum í efstu deild karla frá árinu 2000. Jafnt er á öllum tölum. Bæði lið hafa sigrað 5 sinnum og jafnteflin eru 4. Skoruð mörk á þessu tímabili eru samtals 50 enda leikir liðanna í efstu deild frá árinu 2000 gjarnan miklir markaleikir. Úrslit eins og t.d. 2-6, 2-2, 4-1, 4-1, 3-1 er oftar en ekki niðurstaðan á þessu tímabili
Síðustu 5 á Kópavogsvelli
Blikar hafa yfirhöndina í síðustu 5 viðureignum á Kópavogsvelli með 3 sigra gegn 2 sigrum Víkinga. Þar sem Víkingar léku í 1. Deildinni árin 2012 & 2013 og því ná leikirnir 5 yfir á 7 ára tímabil.
2017: Blikar tapa 1:2 Blikar manni færri frá 38. mín. Nánar hér
2016: Blikar vinna 1:0 Víkingar manni færri frá 39. mín. Nánar hér
2015: Blikar vinna 4:1 Óli Þórðar fær rautt í hálfleik. Nánar hér
2014: Blikar vinna 4:1 Víkingar manni færri frá 46. mín. Nánar hér
2011: Blikar tapa 2:6 Takefusa með þrennu. Nánar hér
Leikmannahópur Blika
Leikmannahópur Blika er ekki mikið breyttur frá í fyrra. Jonathan Hendrickx er nýr leikmaður hjá okkur eins og allir vita. Arnór Gauti snýr aftur heim eftir dvöl í Eyjum í fyrra. Guðmundur Böðvar Guðjónsson kemur til Blika frá ÍA. Og svo er Oliver Sigurjónsson kominn aftur til okkar í bili en hann náði 12 mótsleikjum í fyrra - þar af fjórum í efstu deild. Leikmannahópur Blika 2018
Víkingsliðið er með einn uppalinn Blika innan sinna raða. Gunnlaugur Hlynur Birgisson skrifaði undir samning við Víking R eftir að hafa spilað með Víking Ó keppnistímabilið 2017.
Það má búast við hörkuleik á miðvikudagskvöld enda hafa þessi lið marga hildina háð frá því að Breiðablik hóf að leika knattspyrnu árið 1957.
Vonandi sjá flestir Blikar sér fært að mæta á Kópavogsvöll og hvetja okkar menn til sigurs.
Leikurinn hefst stundvíslega klukkan 19:15 á miðvikudagskvöld. Grillaðir börgerar og kjötsúpa. Kaldir drykkir í veitingatjaldinu. Sparkvöllur fyrir unga fólkið. Sannkölluð Fan Zone stemmning í boði.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!