BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Davíð Örn til Blika

21.01.2021

Breiðablik hefur fest kaup á bakverðinum öfluga Davíð Erni Atlasyni frá Víkingi Reykjavík.

Davíð Örn er 26 ára en hann hefur undanfarin ár verið einn sterkasti bakvörður Pepsi Max deildarinnar.

Davíð Örn á að baki 150 leiki í meistaraflokki og fimm leiki með yngri landsliðum Íslands. Hann hóf meistaraflokksferil sinn með KA árið 2011 en hann var um tíma á láni hjá Dalvík/Reyni.

Undanfarin ár hefur Davíð verið fastamaður í Víkingsliðinu og varð meðal annars bikarmeistari með þeim röndóttu árið 2019.

"Ég er mjög ánægður með að vera kominn til Breiðabliks. Mér líst mjög vel á allar aðstæður og það hlutverk sem mér er ætlað. Ég er búinn að vera lengi í Víkinni og hef átt frábæra tíma þar en fannst vera kominn tími til að breyta til. Einnig er ég sérstaklega ánægður með hvernig félögin stóðu að þessum félagaskiptum. Víkingar eiga miklar þakkir skildar fyrir fagleg vinnubrögð” sagði Davíð Örn Atlason við tíðindamann Blikar.is

"Frábærar fréttir fyrir Breiðablik að hafa fengið Davíð Örn Atlason til félagsins. Hann hefur verið einn besti bakvörður deildarinnar undanfarin ár og mun styrkja leikmannahópinn okkar bæði innan vallar sem utan. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn í hópinn“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.

Davíð Örn hefur gert þriggja ára samning við Breiðablik og má búast við að hann spili sinn fyrsta leik í grænu treyjunni gegn Keflavíkingumm í Fótbolta.net mótinu á laugardaginn.

Og fyrir þá sem hafa gaman af ættfræði þá er vert að geta að Davíð Örn er sonur Atla Hilmarsson, sem var einn af bestu handknattleiksmönnum landsins um árabil, og því  yngri bróðir Arnórs Atlasonar sem einnig var einn af lykilmönnum íslenska handknattleikslandsliðsins.

Við Blikar bjóðum Davíð Örn hjartanlega velkominn í Kópavoginn.

Davíð Örn Atlason

Til baka