BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Einstefna í Ólafsvík

21.08.2017

Blikar renndu vestur í Ólafsvík í gær og mættu Víkingum í 16. umferð PEPSI deildarinnar. Leikurinn gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið sem eru að dóla í neðri hluta deildarinnar. Blikar fyrir þennan leik í 9. sæti deildarinnar með hrollvekjandi 18 stig og Víkingur sæti ofar með 19. Það var því jarðvegur fyrir spennandi viðureign.

Það var sama blíðan og venjulega er í Ólafsvík þegar við spilum þar. Blankalogn, með 12°C hita og sól þegar leikur hófst ( en dró fyrir sólu eftir því sem seig á ógæfulhliðina hjá heimamönnum). Völlurinn leit vel út en var greinilega nokkuð þungur og laus í sér. Slatti af Bikum mættir vestur til að horfa á sína menn en hafa oft verið fleiri.  Enn er lýst eftir Kopacabana mönnum. Eru þeir allir týndir?

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M/F)
Dino Dolmagic - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Gísli Eyjólfsson - Willum Þór Willumsson - Martin Lund Pedersen - Sveinn Aron Guðjohnsen - Aron Bjarnason
Varamenn:
Ólafur Íshólm Ólafsson(M) - Brynjar Óli Bjarnason - Þórður Steinar Hreiðarsson - Sólon Breki Leifsson - Guðmundur Friðriksson - Ernir Bjarnason - Davíð Ingvarsson

Sjúkralisti: Hrvoje Tokic (meiddur)
Leikbann: Arnþór Ari Atlason - Kristinn Jónsson

Þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Elfar Freyr kom inn að nýju eftir meiðsli og Willum og Sveinn Aron komu inn fyrir Kristinn Jónsson og Arnþór Ara sem báðir voru í leikbanni.

Okkar menn byrjuðu leikinn mjög vel (eins og oft áður) og fyrstu mínúturnar komu heimamenn varla við boltann ef frá er talinn upphafsspyrna leiksins. Fyrsta færið kom eftir um tíu mínútna leik þegar Martin brenndi af úr upplögðu færi eftir laglegt spil og góða sendingu frá Gísla. Illa farið með mjög gott færi. En þetta var skammgóður vermir fyrir heimamenn því 3 mínútum síðar kom eitt af mörkum ársins þegar Martin sendi á Gísla inn á miðjuna. Gísli stóð af sér atlögu eins leikmanna Víkings og renndi boltanum til hliðar og þrumaði svo boltanum í markið af um 23ja metra færi. Boltinn lenti nálægt markvinklinum og það söng í járnstöngunum þegar boltinn small í þeim. Glæsilegt mark og algerlega óverjandi. 0-1 fyrir Blika og það er óhætt að segja að það sló þögn á Snæfellinga. Og þarf nú dálítið til. Okkar menn hertu heldur tökin á leiknum í kjölfarið og gáfu heimamönnum engan frið og pressuðu þá út um allt og hirtu af þeim boltann jafnharðan.  Náðu sjálfir nokkrum álitlegum sóknum þar sem boltinn gekk hratt og ákveðið á milli manna en oft vantaði aðeins herslumun. Martin fékk annað dauðafæri eftir mjög flotta sókn en brenndi gróflega af. Þarna hefði staðan átt að vera 0-3. Áfram héldu Blikar og næstu 20 mínúturnar eða svo var bara eitt lið á vellinum og það heyrði til undantekninga ef heimamenn náðu að spila yfir miðjuna. En þeir voru nálægt því að skapa sér færi í eitt skipti en Davíð Kristján hirti boltann af heimamanni sem var að munda skotfótinn í ágætu færi. Vel gert og gríðarlega mikilvægt, því það hefði ekki verið gott að fá jöfnunarmark á sig þarna.
En þegar skammt var til leikhlés bættu Blikar við öðru marki og það kom eftir snarpa sókn og góðan spretta Arons. Hann fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Víkinga og hljóp tvo varnarmenn af sér áður en hann renndi boltanum á Svein Aron sem setti hann í netið frá vítpunkti. Laglegt mark. Blikar komnir með 2ja marka forystu og með hana fóru þeir inn í leikhlé. Sanngjörn forysta og síst of mikil. Hefði hæglega getað verið 0-4.

Í hálfleik var að vísu hægt að fá kaffisopa en það var langt að fara fyrir ókunnuga. Upp margar tröppur og svo í kringum húsið. Það var fenginn þaulvanur maður í það verkefni og kaffið smakkaðist vel.
Gummi Þórðar sá mikli markarefur var mættur á staðinn og fór fremstur í flokki heldri Blika sem mættir voru. Búinn að fara fyrir nesið og um allt í blíðunni með sinni konu og þeirra barnabarni. Honum fannst okkar menn vera að spila vel en þyrftu að nýta færin miklu betur. Menn veltu fyrir sér þeirri staðreynd að markahæstu menn Blika voru fyrir þennan leik með 4 mörk á meðan einn leikmanna Grindavíkur er búinn að skora 14. Hvað er langt síðan leikmaður Blika skoraði 10 mörk í deildinni?  Af hverju erum við ekki að búa til alvöru sentera? Það má alveg velta því fyrir sér.

Síðari hálfleikur hófst eins og sá fyrri byrjaði og Blikar með öll tök á leiknum. Talsverð töf varð á leiknum vegna meiðsla eins heimamanns en svo fór þetta í gang á ný og þá voru okkar menn snöggir að setja 3ja markið. Blikar náðu laglegu spili inni á miðjunnu og eftir smá klafs nálægt vítateig komst Aron einn í gegn af harðfylgi og kláraði færið vel. Staðan orðin 0-3. Eftir þetta var merkjanleg uppgjöf hjá heimamönnum. Þeir komust lítt áleiðismeð sitt spil og fundu engar glufur á sterkum varnarleik okkar manna. Blikar sigldu svo leiknum snyrtilega í höfn og áttu ekki í teljandi vandræðum að heitið geti. Sólon Breki kom inn fyrir Martin þegar 20 mínútur voru eftir og var frískur. Skömmu síðar yfirgaf Damir völlinn vegna meiðsla og Þórður Steinar kom inn í hans stað. Þórður sýndi að óvægin umræða um hans frammistöðu hafði ekki haldið fyrir honum vöku og það var í raun eftirtektarvert að liði hikstaði ekkert við þessar mannabreytingar. Sami kraftur hélst og menn létu engan bilbug á sér finna. Ernir kom svo inn fyrir Willum þegar 15 mínútur voru eftir. Willum spilaði afar vel í þessum leik, hans besta frammistaða til þessa, og Ernir kom frískur inn í leikinn. Aron var nálægt því að auka muninn skömmu síðar en markvörður heimamanna varði. Sveinn Aron slapp svo einn í gegn eftir frábæra sendingu frá Sóloni, þegar skammt var til leiksloka, en fyrsta snerting var ekki alveg nógu góð og fyrir vikið náði markmaðurinn að loka á skotið. Þetta reyndist síðast færið í leiknum og Blikar fögnuðu góðum sigri og ekki síður 3 dýrmætum stigum í fallbaráttunni. Blikar nú komnir með 21 stig og höfðu sætaskipti við andstæðingana á stigatöflunni.

Sjá mörkin úr leiknum

Svona leikur á að skila 4-5 marka sigri að lágmarki og þó ekki væri nema til að laga markatöluna sem er enn neikvæð. Blikaliðið spilaði hinsvegar mjög vel í þessum leik og virkaði heilsteypt og með sjálfstraustið í lagi. Baráttan til háborinnar fyrirmyndar í +90 mínútur. Undirritaður er ekki mikið fyrir að taka einstaka leikmenn út úr jöfnunni en á því eru fáar undantekningar og það skal fullyrt hér og nú að Andri Rafn Yeoman er að spila í landsliðsklassa, segi og skrifa. Þvílík yfirferð og vinnsla.
Það var yfirleitt gott spil út úr vörninni og menn voru að spila hratt og fast á milli sín. Fyrir vikið náðist oft að opna vörn gestanna upp á gátt og skapa góð færi en nýtingin er það sem má og verður að setja út á. Annað var það nú ekki og takk fyrir okkur.

Það verður fróðlegt að sjá hvort Milos gerir breytingar á byrjunarliðinu eftir þennan leik. Vandi er um slíkt að spá. En eitt er víst, að það verður mikil pressa á þeim sem koma inn ef breytingar verða.

Framundan er gríðarlega mikilvægur leikur gegn ÍA á heimavelli næsta sunnudag. Þar verðum við að ná í 3 stig, sama hvernig allt veltist og snýst og slíta okkur frá fallbaráttunni.

Áfram Breiðablik !

OWK

Umfjallanir netmiðla

p.s.
munið Blika golfmótið 25. ágúst.

Til baka