BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Eitt stig í ævintýraferð til Eyja

15.09.2014

Blikar héldu yfir úfið ballarhaf og mættu pirruðum Eyjamönnum í hörkuleik í Vestmannaeyjum í gær. Töluverð læti voru í leiknum en að lokum sættust bæði lið á skiptan hlut 1-1. Í  raun voru bæði lið ósátt við þau úrslit enda dugðu þau ekki til að losa liðin við falldrauginn. Þó það sé frekar ólíklegt að lið falli með 21 stig þá hefur það þó gerst. Við Blikar þurfum því að halda vel á spilum í komandi leikjum til að losna úr þessari úlfakreppu.

Veður til knattspyrnuiðkunar voru ágætar á Hásteinsvelli.  Þokkalega hlýtt, völlurinn aðeins blautur og örlítill úði til að halda mönnum við efnið. Samt var nokkur útsynningur á annað markið sem gerði mönnum erfitt fyrir að halda knettinum á jörðinni. Okkar drengir byrjuðu samt ágætlega og á tíundu mínútu átti Guðjón Pétur hörkuskot úr aukaspyrnu en einn heimadrengja ákvað að fórna andlitinu í skotið. En fljótlega eftir þetta misstu okkar drengið aðeins tökin á leiknum, hættu að spila boltanum og fóru í langar kýlingar fram gegn vindinum. Það kann ekki góðri lukku að stýra enda er það ekki Blikabolti. Um miðjan hálfleikinn fengu heimamenn aukaspyrnu töluvert fyrir utan teig. Með sterkum vindi þeyttist boltinn í grasið og Gunnleifur náði ekki að halda knettinum. Einn Eyjapeyja náði frákastinu og eftirleikurinn auðveldur. Hugsanlega hefði landsliðsmarkvörðunn átt að slá knöttinn til hliðar í stað þess að reyna að grípa hann. En það er þetta með ef og frænku hennar hefði!

Nokkuð var um stimpingar í hálfleiknum og átti dómari leiksins fullt í fangi með að hafa hemil á heimamönnum. Einkum var það enski dægurlagasöngvarinn í Eyjaliðinu sem var með lymskuleg atvinnumannabrot og var það furðulegt að hann skyldi ekki fá gult spjald i leiknum fyrr en undir lok leiksins. Hann tók til dæmis hælkrók vinstri með hárri hálsbeygju á Oliver um miðjan fyrri hálfleikinn en dómarinn lét hagnaðarregluna gilda og gleymdi svo að spjalda Englendinginn. Í leið til búningsherbergja lenti síðan Árna Vill saman við Jonathan Glenn og segja óvilhallir menn að Trinidad maðurinn hafi sparkað til Árna. Ekki urðu þó neinir eftirmálar af þessu máli enda dómarinn fjarri góðu gamni eins og oft í leiknum.

Blikar komu sterkari til leiks í síðari hálfleik og náðu að jafna verðskuldað um miðjan hálfleikinn. Guðjón Pétur átti þá snilldarsendingu inn í teig þar sem Damir reis hærra upp en Heimaklettur sjálfur og skallaði boltann glæsilega í netið. Skömmu áður hafði dómarinn sleppt augljósri vítaspyrnu á Eyjaliðið þegar Höskuldur var klárlega felldur í teignum. En þrátt fyrir gott skot Andra Rafns og flottan skalla Ellerts skömmu fyrir leikslok tókst okkur ekki að ná í stigin þrjú.

Blikaliðið getur verið þokkalega sátt við þennan leik. Oliver stóð sig vel í sínum fyrsta byrjunarliðsleiks og Guðjón Pétur ógnaði alltaf með skothörku sinni og sendingargetu. Finnur Orri stjórnaði varnarleiknum eins og herforingi og Ellert barðist vel allan leikinn. Einnig átti Davíð ágæta innkomu í lok leiksins og átti fínar fyrirgjafir sem hefðu getað gefið mark. Hins vegar á Blikaliðið að spila boltanum meira en það gerði til dæmis í fyrri hálfleik. Það á ekki að þurfa að vera í ,,kick-and run“ bolta. Við sýndum það köflum en við getum spilað flottan fótbolta og er það krafan í komandi leikjum.

Þó nokkrir Blika fylgdu liðinu út í Eyjar og er það til fyrirmyndar. Sumir höfðu meira að segja mætt daginn áður til að taka út völlinn og andrúmsloftið í bænum! Þeir studdu vel við bakið á Blikaliðið úr stúkunni og hafði það sitt að segja.

Það var viðeigandi að Blikaliðið sigldi með Baldri milli lands og eyja. Í gömlum ritum er sagt svo frá að Baldur (norræna: Baldr) annar sonur Óðins á eftir Þór, bjó á stað sem var kallaður Breiðablik og var á himninum fyrir ofan Ásgarð. Þar var allt tandurhreint og óspillt.  Að vísu var nú þessi Baldur aðeins lúinn og úr sér genginn og ekki alveg tandurhreinn og óspilltur. Enda gaf önnur aðalvél skipsins sig  og þurfti því að aflýsa ferðinni upp á land eftir leik!

Þá voru góð ráð dýr en Borghildur formaður og Halldór, hennar hægri hönd, redduðu skopparabát til að flytja allt liðið upp að Landeyjarhöfn.  Ekki var nú heilsan í hæstu hæðum hjá mörgum góðum drengnum þegar upp á land var komið en eins og segir í kvæðinu góða ,,en allir komu þeir aftur og engin þeirra dó.“

Undirbúningur undir næsta verkefni getur því hafist. Það eru Víkingarnir úr Fossvoginum sem koma í heimsókn í Kópavoginn á sunnudaginn kl.16.00. Við eigum harma að hefna frá því í fyrri umferðinni en þá lögðu þeir röndóttu okkur að velli 1:0. Krafan er því að við náum í þrjú stig enda ætlum við ekki að færa þeim Evrópusæti á gjafverði!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

AP

Til baka