Ekki meistarar þetta árið
20.01.2016
Blikar lutu í gras gegn Stjörnumönnum 2:3 í fotbolta.net mótinu í Fífunni í kvöld. Þessi úrslit þýða að við komust ekki í úrslit á mótinu í ár en við höfðum titil að verja. Leikurinn var jafn og spennandi en nágrannar okkar voru aðgangsharðari upp við markið og það gerði gæfumuninn. Mörk okkar sem Viktor Örn og Gísli settu voru mjög falleg og yljuðu Blikum í stúkunni. Sjá mörkin hér.
Fyrri hálfleikur var nokkuð vel leikinn og áttum við oft margar vel útfærðar sóknir. Einkum var það vinstri vængurinn með Höskuld og Davíð sem var líflegur. Skot okkar á markið voru hins vegar frekar lin og ollu ekki miklum vandræðum fyrir Stjörnuvörnina. Um miðjan hálfleik klikkaði varnarvinna miðjumanna og Arnar Már setti flott mark fyrir þá bláklæddu. Nokkru áður hafði Gulli sýnt heimsklassa handboltamarkvörslu sem hefði sómt sér vel á Evrópumótinu. En Viktor Örn sýndi og sannaði að hann er klassa skallamaður og setti flott mark eftir góða hornspyrnu frá Höskuldi.
Blikaliðið var greinilega enn með mjólkuteið á vörunum þegar seinni hálfleikurinn hófst. Stjarnan komst í sókn og skoraði strax á fyrstu mínútunni. Þetta sló Blikaliðið nokkuð út af laginu og náðum við ekki alveg takti. Við héldum boltanum reyndar meira en vorum lítið ógnandi fram á við. Hröð sókn Stjörnunnar slökti síðan síðasta vonarneistann að við myndum fá eitthvað út úr þessum leik. Að vísu minnkaði Gísli muninn í 3:2 undir lok leiksins eftir góða sókn Höskuldar og Ósvalds upp vinstri kantinn.
Margt jákvætt var í leik Blikaliðsins að þessu sinni, sérstaklega í fyrri hálfleik. En við opnuðum okkur of oft varnarlega og sóknarleikurinn en enn ekki nægjanlega beittur. Glenn var fjarverandi vegna landsliðsverkefni erlendis og Arnór og Oliver eiga enn við smávægileg meiðsli að stríða. Gulli var hins vegar mættur í rammann á nýjan leik og var öruggur þann tíma sem hann spilaði. Hlynur kom í markið í síðari hálfeik og stóð alveg fyrir sínu. Hann verður að minnsta kosti ekki sakaður um mörkin.
Greinilegt er að þjálfararnir eiga enn töluvert í land að móta endanlega liðsuppstillingu. Margir leikmenn sýndu ágæta takta en aðrir eru ekki alveg að ná sér á strik. Þetta verða áhugaverðar vikur framundan þegar endanlegur hópur fer smám saman að myndast.
-AP