Enn eitt jafnteflið!
12.08.2014Blikar sóttu Fjölnismenn heim í Grafarvoginn í gær og fóru til baka með eitt stig í farteskinu. Hugsanlega getur þetta stig orðið gríðarlega mikilvægt þegar upp verður staðið í haust en við hefðum samt þurft á öllum stigunum þremur að halda. En spilamennska Blikaliðsins bauð ekki upp á meira en þetta stig og verðum við að sætta okkur við það.
Sólin skein glatt á Fjölnisvellinum og voru aðstæður til knattspyrnuiðkunar eins og best geta orðið. En því miður virtist hitinn eitthvað draga þrótt úr báðum liðum og var fyrri hálfleikur hrútleiðinlegur á að horfa. Blikar tefldum fram breyttu liði frá Keflavíkurleiknum; Baldvin Sturluson kom inn á miðjuna, og Damir fór í hægri bakvarðarstöðuna. En þeir náðu ekki að frekar en flestir aðrir leikmenn liðsins að setja mark sitt mikið á leikinn.
Sjálfstraustið virðist ekki vera mikið í Blikaliðinu og ná menn alls ekki að spila boltanum úr vörninni fram á miðjuna og þannig gera usla í sókninni. Varnarmennirnir reyna háa bolta hvað eftir annað og miðjumennirnir detta algjörlega úr spilinu. Þetta gefur ekki góða raun og verður að breytast. Mark Blikaliðsins var reyndar gullfallegt; Árni átti góða sendingu á Höskuld sem gaf á Baldvin út á kantinn, hann gaf vel fyrir þar sem Elfar Árni hoppaði skemmtilega yfir knöttinn og þar kom Árni Vill á ferðinn og sendi knöttinn örugglega í netið.
Glöddust þá grænklæddir stuðningsmenn Blika í stúkunni og sáu fram á bjartari tíma. En eins og oft áður í sumar hörfaði Blikaliðiðið aftar á völlinn og leyfði Fjölnismönnum að pressa framarlega. Varnarmenn okkar kýldu boltann fram hvað eftir annað í stað þess að spila boltanum úr vörninni. Það kom því ekki mjög á óvart að heimamenn náðu að jafna eftir lélega varnarvinnu okkar pilta. Einn Fjölnismaður fékk heila flugbraut til að athafna sig og náði að senda fyrir þar sem eftirleikurinn var auðveldur fyrir gulan sóknarmann að klára dæmið.
Við hresstum aðeins við þetta mótlæti en samt ekki nægjanlega mikið til að ná í öll stigin þrjú. Það voru því hnuggnir stuðningsmenn sem héldu aftur í Kópavoginn á þessu fallega sumarkvöldið. Það þarf ekki að hafa mörg orð um næsta leik Blika sem verður á mánudagskvöldið. Þá fáum við Framara í heimsókn í Kópavoginn. Það er fallbaráttuslagur eins og hann gerist tærastur. Því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir þeirri staðreynd því meiri möguleiki er að við komum í leikinn með réttu hugarfari og réttri taktík. Það býr meira í Blikaliðinu en það hefur sýnt hingað til. Aðeins sigur kemur til greina og verðum við að hafa trú á verkefninu! Það gerum við með samstilltu átaki.
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
-AP