BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Er bannað að hafa gaman?

18.09.2013

Blikar mættu Fram í gær(kveldi) í 20.umferð PEPSI deildarinnar. Leikurinn á okkar heimavelli og sem fyrr voru Blikar að eltast við hálmstrá sem að gagni mætti í leit að lausu sæti í Evrópukepppni á næsta ári. Andstæðingarnir voru reyndar komnir með þann pálma í hendurnar eftir sigur í Borgunarbikarnum en þurftu samt nauðsynlega á sigri að halda til að losa sig harðasta botnslag PEPSI deildarinnar. Blikar voru með fullskipað lið eftir að tæpur fjórðungur leikmannahópsins hafði tekið út þá refsingu sem dómstóll  KSÍ útdeildi þeim öllum í einu símskeyti. Þjálfarinn setti fjórmenningana rakleitt í byrjunarliðið. Andri Rafn var illa fjarri góðu gamni sökum meiðsla og var þar skarð fyrir skildi.

Byrjunarliðið okkar var því þannig skipað;

Gunnleifur (M)
Þórður Steinar - Sverrir Ingi - Reneé - Kristinn J
Ellert – Finnur - Guðjón Pétur - Tómas Óli
Árni Vill - Nichlas

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Olgeir Sigurgeirsson
Elfar Freyr Helgason
Jökull I. Elísabetarson
Arnar Már Björgvinsson
Gísli Páll Helgason
Viggó Kristjánsson

Sjúkralisti;  Rafn Andri Haraldsson og Andri Rafn Yeoman

Leikbann; Enginn

Leikskýrsla

Norðan kaldaskítur, 9 m/sek og hiti 5°C þegar best lét. Þurrt með 73% raka og 30 km skyggni. Vallaraðstæður fínar. Ekki sérlega margir áhorfendur mættir í byrjun en tosaðist á sjöunda hundraðið áður en yfir lauk. Skoðun á leiktíma frá síðasta pistli er óbreytt.

Leikurinn fór frekar rólega af stað og eiginlega gerðist ekki mikið fyrstu 15 mínúturnar, en þá glaðnaði aðeins til og munaði litlu að Árni kæmist í gott færi, en gestirnir björguðu naumlega í horn. Næsta færi áttu hinsvegar Framarar eftir vandræðagang hjá Blikum eftir hornspyrnu, en boltinn fór í stöngina og aftur fyrir. Næsta færi kom uppúr hornspyrnu okkar manna en Framarar náðu að bjarga skalla frá Sverri á línu. Skömmu síðar urðu Blikar fyrir áfalli þegar Nichlas þurfti að yfirgefa völlinn eftir að hafa tognað aftan í læri. Jökull kom inn á miðjuna og Tommi færði sig framar á völlinn. Næstu mínútur gerðu Blikar allharða hríð að marki gestanna en í þrígang varði Ögmundur vel. Fyrst frá Árna, sem var sloppinn einn í gegn og virtist ætla að vippa boltanum yfir Ögmund. Það tókst ekki. Síðan var komið að Guðjóni og lokatilraunina í þessari atlögu átti svo Ellert en sem fyrr varði Ögmundur.
En svo skoruðu Framarar fyrsta mark leiksins og það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, en þó ekki. Aðdragandi marksins var skrautlegur og verður að segjast að okkar menn misstu einbeitinguna alveg herfilega. Fyrst var brotið á leikmanni Fram út við hliðarlínu. Engin hætta á ferðum en samt brotið. Blikar vörðust aukaspyrnunni en gestirnir fengu í kjölfarið innkast. Þar fékk óvaldaður leikmaður gestanna nægan tíma til að taka boltann, leggja hann fyrir sig og senda fyrir markið þar sem 3 varnarmenn Blika létu hann fara fram hjá sér og horfðu svo á þegar boltinn var sendur þvert fyrir markið, og þar var auðvitað mættur einn Framarinn til, en enginn Bliki. 0-1 takk fyrir. Hálfleikur.

Það var einsog markið hefði slegið okkar menn alveg út af laginu því síðari hálfleikurinn fór alveg svakalega rólega af stað og eignlega virtust okkar menn ekki vakna fyrr en þeir fengu annað mark í andlitið eftir tíu mínútna leik. Við vorum í sókn, misstum boltann og gestirnir brunuðu af stað á meðan helmingur okkar manna joggaði í rólegheitunum til baka. Ein sending innfyrir og búmm. Í markinu á boltinn og þá voru enn a.m.k tveir leikmenn okkar enn á vallarhelmingi andstæðinganna, en enginn úr liði andstæðinganna. Lýsandi fyrir frammistöðu liðsins í leiknum til þessa. En nú var einsog menn vöknuðu upp við vondan draum og þó fyrr hefði verið. Okkar menn fengu aukaspyrnu og Sverrir Ingi náði að skalla knöttinn inn að marki gestanna þar sem okkur barst óvæntur liðsauki þegar varnarmaður gestanna mokaði boltanum í eigið mark. Staðan 1-2 og enn var hálftími til stefnu. Sá háltftími dugði þó skammt og raunar skemmst frá því að segja að þrátt fyrir slatta af færum og sum í betri kantinum, var okkar mönnum alveg fyrirmunað að koma knettinum í markið. Blikar sendu Viggó inn fyrir Tomma og svo kom Gísli Páll inn fyrir Renée en allt kom fyrir ekki.
Blikar máttu því sætta sig við enn eitt tapið gegn Fram um leið og þeir bláklæddu svo gott sem tryggðu sæti sitt í PEPSI deildinni.

Evrópusætið færðist ekki nær við þetta, það er ljóst. Og í ljósi annarra úrslita er svekkjandi að hafa ekki náð sigri í gær. En það þýðir ekkert að grenja yfir því. Það sem er búið er búið. Og hvað gera bændur þá? Því verður ekki svarað hér með neinum skynsamlegum hætti en væri það t.d. frábær hugmynd núna hjá leikmönnum, stuðningsmönnum og þeim sem að liðinu standa að fara í massíva fýlu yfir töpuðum stigum og tækifærum í leikjunum sem búið er að spila og hafa allt á hornum sér fram að næst leik? Nei það er sennilega ekki málið. Enn eru leikir eftir og enn er séns. En þeir verða reyndar ekki mikið fleiri.

Og af hverju að vera í fýlu yfirhöfuð? Þetta er liðið sem við vorum stolt að styðja fyrir örfáum vikum þegar það náði alveg sérlega glæstum árangri, hér heima og erlendis. Menn og konur tóku sér frí í vinnu og skunduðu í Smárann til að horfa á útsendingu í takmörkuðum myndgæðum austan frá Austurríki og Kazakhstan, í miðjum slætti. Harðir stuðningsmenn annara lið gerðust Blikar í nokkrar klukkustundir og misgamlar konur féllu í öngvit. Allt útaf þessu liði. Sama liði og við höfum nú með ólund skammast út í undanfarnar vikur fyrir það að þeir hafa ekki uppfyllt væntingar, okkar og sínar eigin. Sömu leikmenn og sömu þjálfarar . Hvað hefur breyst?
Það er ekki gott að segja. En það blasir við að nú eru þeir í klemmu, sem lið og sem einstaklingar. Þeir eru súrir, skammast sín (þora ekki öðru því það eru allir að skamma þá) og það skín ekki beinlínis af þeim leikgleðin. Svekktir og spældir. Það er það sem þeir eru. Það er skiljanlegt.Tækifærin virðast vera að renna frá þeim eftir að ,,nokkrir“ leikir hafa ekki farið samkvæmt okkar óskum að undanförnu. En er nokkur ástæða til að láta það eyðileggja meira fyrir sér en orðið er? Þessir strákar og allir í kringum þá gera miklar kröfur til sín og við vitum að þeir eru að leggja sig fram og reyna. En stundum er það eitt og sér bara ekki nóg. Það þarf eitthvað meira, eitthvað annað. Eitthvað sem greinilega vantar.
Og hvað er það, spyr maður? Tja, ekki gott að segja en það mætti a.m.k. prófa að
gefa dauðann og djöfulinn í þetta, láta vaða og hafa GAMAN !

Við leikmennina vil ég segja þetta;
Strákar !
Þið hafið verið ykkur og félaginu til sóma í sumar. Blikar eru stoltir af að eiga jafn frábært lið og þið eruð þegar þið skemmtið ykkur á vellinum. Þá er GAMAN að vera Bliki.
Takið vel á því, skemmtið ykkur og klárið mótið með stæl !
Svo kíkjum við í pokann.

Kæru stuðningsmenn !
Eigum við ekki að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þeim leikjum sem eftir eru með öflugum stuðningi?  Liðið þarf á því að halda og á það skilið.

Áfram Breiðablik !

OWK
(að fagna næsta marki)

Til baka