Erfitt í Víkinni.
13.09.2015
Nítjánda umferðin í Pepsideild karla í sumar er ekki einhver umferð sem við Blikar munum ræða neitt sérstaklega í framtíðinni. Jafnteflið við Leikni í síðasta leik fyrir landsleikjahlé batt endi á gott “run” hjá Blikaliðinu og því skundaði maður með eftirvæntngu í hjarta í Víkina. Feginn því að deildin gæti hafist að nýju eftir hlé.
Byrjunarlið Blika var þannig skipað
1. Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
3. Oliver Sigurjónsson
4. Damir Muminovic
5. Elfar Freyr Helgason, gult.
7. Höskuldur Gunnlaugsson
8. Arnþór Ari Atlason, út á 83.
17. Jonathan Ricardo Glenn
22. Ellert Hreinsson, út á 69.
23. Kristinn Jónsson, út á 82.
29. Arnór Sveinn Aðalsteinsson
30. Andri Rafn Yeoman
Varamenn voru þeir:
24. Aron Snær Friðriksson (m)
6. Kári Ársælsson
10. Guðjón Pétur Lýðsson, inn á 69.
11. Olgeir Sigurgeirsson
21. Viktor Örn Margeirsson
31. Guðmundur Friðriksson, inn á 83.
33. Gísli Eyjólfsson, inn á 82.
Leikskýrsla: Víkingur - Breiðablik 13.9.2015
Atli Sigurjónsson tók út leikbann og Ellert kom því aftur inn, sem og Andri Rafn Yeoman sem byrjaði í stað Guðjóns Péturs.
Það sem tók mesta athygli mína í byrjun leiks var ný hárgreiðsla Olivers, sem hefur nýtt landsleikjahléið í það að setja Rastafari Dreadlocks í fagra makkann sinn og lúkkar eins og einhver sem er tilbúinn í að fara á Inter-rail. Oliver púllar samt allan fjandann. Hann er bara þannig týpa.
Leikurinn byrjaði ágætlega og það virtist vera að Blikar ætluðu að taka öll völd í þessum leik. Andri Yeoman átti skot að marki á 7.mínútu og það var gaman að sjá Andra byrja sprækann. Blikar réðu spilinu í þessum leik í byrjun og á 18.mínútu skoraði Oliver Sigurjónsson glæsimark, beint úr aukaspyrnu. Þrumufleygur sem endaði efst í horninu í marki Víkinganna. Gjörsamlega óverjandi.
Fyrri hálfleikurinn leið svo ósköp rólega og manni virtist sem Blikar ætluðu að spila þennan leik af skynsemi. Fyrir utan stórkostlega markvörslu Gulla á 23.mínútu, þegar hann varði skot Vladimir Tufegdzic af mjög stuttu færi. Snerpan sem Gulli sýndi er sjaldséð hjá markmönnum á Íslandi, hvað þá þeim sem eru orðnir fertugir.
Seinni hálfleikur byrjaði svo með látum. Þó aðallega Víkingsmegin, því Blikar voru varla mættir inn á völlinn þegar fyrrnefndur Tufegdzic nýtir sér algert samskiptaleysi varnarmanna Blika og setur boltann auðveldlega í netið af stuttu færi á 47.mínútu. Blaut tuska í andlitið, svo ekki sé meira sagt.
Eftir þetta var leikur okkar manna mjög stefnulaus og tilviljanakenndur í rúmar tuttugu mínútur. Víkingarnir voru alltaf líklegri og það virtist vera einhver þreyta í Blikaliðinu, sem ég efast að sé raunin. Þó það hafi litið út fyrir það í stúkunni.
Á 71.mínútu geysist svo Andri Rafn Yeoman upp vinstri kantinn og kemur sér fram hjá tveimur Víkingum og sendir boltann á Höskuld Gunnlaugsson sem skoraði laglegt mark og maður fann hvað maður hresstist til muna í stúkunni. Við ætluðum að sigla þessu heim. Blikaliðið stjórnaði svo spilinu í einhvern tíma en þá vöknuðu Víkingar að nýju. Á 88. mínútu er eitthvað klafs í vítateig Blikanna sem endar með því að Erlendur dómari dæmir vítaspyrnu! Byggða á þeim rökum að boltinn hafi endað í hönd annaðhvort Elfars eða Höskulds, sýndist manni úr stúkunni. Ívar Örn Jónsson fór á punktinn og skoraði af öryggi. Litlu mátti muna mínútu síðar að varamaðurinn Gísli Eyjólfsson kæmi okkur yfir aftur, en allt kom fyrir ekki. Gísli hafði komið inn á fyrir Kidda sem fékk hnjask aftan á læri, sem er vonandi ekki alvarlegt. Niðurstaðan 2-2 jafntefli og úrslitin vonbrigði.
Andri Rafn Yeoman var mjög sprækur, sem og Oliver. En allir hafa átt betri dag.
Þetta gerir það að verkum að vonir um Íslandsmeistaratitil eru úr sögunni. Það er að vísu eitthvað sem gaman var að gæla við á síðustu vikum, og eitthvað sem enginn bjóst við í byrjun móts. Það sem er þó enn opið er Evrópusætið, og það er það sem við Blikar viljum fá!
Í næsta leik fáum við fimleikadrengina úr Hafnarfirði í heimsókn, sem geta tryggt sér meistaratitilinn með sigri í Kópavogi.
Þó svo að FH eigi titilinn vísan þá erum við ekki að fara að leyfa þeim að fagna honum í okkar grillveislu. Við þurfum að berjast með kjafti og klóm til þess að tryggja okkur í öðru eða þriðja sæti deildarinnar, svo maður geti farið að safna fyrir skemmtiferð til Kazakstan eða Norður-Írlands á næsta ári. Breiðablik á að vera í Evrópukeppni. Einfalt.
Kópacabana voru þreyttir í stúkunni, og ég lái þeim ekki. Það fór titill upp í Kópavoginum í gær og þeir eru mannlegir.
Annars er við hæfi að enda þetta á að óska stelpunum til hamingju með titilinn sem er loksins kominn heim. Eins varð 2. og 3. flokkur drengja Íslandsmeistari á síðustu dögum svo þetta hefur verið góð vika í Smáranum.
Hannes.