- Blikar fögnuðu mikið í leikslok á miðvikudagskvöldið. Fyrirliðinn Finnur Orri Margeirsson gleymir 150 leiknum sínum ekki í bráð. Mynd: Torfi Jóhannsson - Fótbolti.Net
- Rauðu spjöldin elta Ingvar Kale. Hann mun fylgjast með leiknum úr búrinu á 3 hæðinni í stúkunni. Sigmar stendur vaktina í markinu eins og svo oft áður í sumar. Mynd: Torfi Jóhannsson - Fótbolti.Net
Erum við menn eða mýs?
10.08.2012Blikaliðið fær góða gesti í heimsókn á sunnudaginn kl.19.15. Það eru Fimleikadrengirnir úr Hafnarfirði sem munu guða á glugga hér í Kópavoginum. FH-liðið er á mikilli siglingu þessa dagana og er efst í Pesí-deildinni. Blikaliðið hefur einnig verið á ágætu skriði í undanförnum leikjum og hefur ekki tapað leik síðan 5. júlí. Skemmst er að minnast frækilegs sigurs gegn Valsmönnum á miðvikudaginn í einum eftirminnilegasta knattspyrnuleik síðari tíma! Sá leikur telur hins vegar ekki neitt á sunnudaginn og þarf Blikaliðið að eiga toppleik til að leggja Hafnfirðingana að velli. En strákarnir eru staðráðnir í því að hefna ófaranna frá því í fyrri umferð en þá lögðu FH-ingar okkur örugglega. Ef Blikastrákarnir sýna sínar bestu hliðar og áhorfendur fjölmenna og leggja sitt af mörkum þá gætum við blandað okkur af alvöru í toppbaráttuna í deildinni. Það má því búast við hörkuleik í Kópavoginu á sunnudaginn.
Tölfræðin er okkur ekki hagstæð í viðureignunum við FH á undanförnum árum. Síðan Ólafur tók við Blikaliðinu árið 2006 höfum við sigrað í þremur leikjum, tveir hafa endað með jafntefli en þeir svart-hvítu hafa unnið okkur sjö sinnum. Þetta er auðvitað ekki ásættanleg tölfræði og skorum við á Blikastrákana að rétta af þennan halla! Ef við skoðum aðra tölfræði þá verður þetta leikur númer 50 hjá Tómasi Óla í efstu deild ef hann spilar, Finnur Orri spilaði sinn 150 leik gegn Val, Olgeir er kominn með 247 leiki og vantar aðeins einn leik til að jafna leikjafjölda Arnars Grétarssonar. Árni Kristinn Gunnarsson er leikjahæsti Bliki frá upphafi með 254 leiki þannig að Olgeir vantar ekki mikið upp á þá tölu. Ingvar Kale er kominn yfir 100 leiki en hann verður fjarrri góðu gamni gegn FH vegna rauða kortsins sem hann fékk í leiknum gegn Val.
Það verður ekki lögð of mikil áhersla á mikilvægi góðs stuðning úr stúkunni. Strákarnir hafa oft talað um að þegar þeir heyra í öflugum kór úr stúkunni er eins og þeir fái aukakraft inn á vellinum. Við hvetjum því alla Blika, nær og fjær, til að fjölmenna á leikinn á sunnudaginn. Takið með ykkur vini og kunningja og æpið úr ykkur lungum því oft er þörf en nú er nauðsyn. Nú munum við Blikar sýna úr hverju við erum gerðir!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
-AP