- Byrjunarlið Breiðabliks ásamt LukkuBlikum. Mynd: HVH
- Alexander Helgi (Lexi) lætur vaða og skorar eina mark leiksins og sitt fyrsta efstu deildar mark. Hann kom inn á í sínum fyrsta leik í sumar. Þetta var annar efstu deildar leikur Alexanders á ferlinum. Mynd: HVH
- Liðsfélagar fagna markinu. Mynd: HVH
- Thomas setti þennan í slánna. Mynd: HVHJ
- Gísli að undirbúa dauðafæri. Mynd: HVH
- Gúst gat leyft sér að fagna vel með leikmönnum og stuðningsmönnum eftir sigurinn. Breiðabliksliðið hans hefur nú unnið fjóra leiki á röð og trónar nú á toppi Pepsi-deildarinnar. Mynd: HVH
Evrópa í augsýn
08.08.2018Það verður einfaldlega að segjast að það er eitthvað svo sérstaklega skemmtilegt að ná sigri á móti KR, þess vegna var maður að venju frekar spenntur fyrir kvöldinu.
Ekki nóg með það þá var líka möguleikinn að gera KR-ingum en erfiðara fyrir í Evrópu baráttunni og um leið að styrkja okkar stöðu þar. Þeir hafa að auki náð í nokkra uppalda Blika og boðið þeim skjól í hinum Vesturbænum, ekki ósvipað og FH hafa gert. Blikar hafa náð 2 sigrum á móti FH í sumar og sigur númer 2 á KR var á boði á Kópavogsvelli í kvöld.
Það blés þokkalega í kvöld og undirritaður tók Álafoss teppið með í stúkuna, smá haustbragur á veðrinu eins og hefur verið í allt sumar.
KR byrjuðu betur og einhverjir heimtuðu mark eftir tæpar 10 mínútur þegar Óskar Örn skaut langt utan af velli og Gulli lenti í smá vandræðum með boltann en Eddi línuvörður var viss í sinni sök. Ekkert mark dæmt og ætli við fáum ekki hina margfrægu marklínutækni Pepsi markanna til að skera úr um þetta á endanum. Blikar hafa svo sem fengið það sama í andlitið, hver man ekki eftir þrusu marki Gísla Eyjólfs á móti Víkingum fyrr í sumar sem ekki fékk að standa.
Eftir þetta jafnaðist leikurinn út og Blikar fóru að færa sig upp á skaftið, þokkaleg barátta var í mönnum og hefðu KR alveg geta verið búnir að fá 1 eða 2 gul spjöld í þessum fyrri hálfleik. Að sama skapi fannst flestum í stúkunni KR liðið óvenju pirrað inni á vellinum og var tuðað yfir minnstu ákvörðunum hjá dómaratríóinu.
Seinni hálfleikurinn rúllaði af stað og nú voru Blikar með vindinn í bakið. Menn reyndu ítrekað langar sendingar inn fyrir sem skiluðu ekki miklu. Nokkrir hættulegir sprettir litu dagsins ljós og mátti oft minnstu muna að Blikar kæmust í gegn en allt kom fyrir ekki.
Eftir 65.mín fór einn besti maður Blika í sumar Andri Yeoman út af eftir að hafa lent í smá hnjaski, vonum að hann sé heill. Inn á kom Alexander Helgi í sínum fyrsta leik í sumar eftir að hafa verið í láni í Inkasso deildinni hjá Víkingi Ólafsvík.
Ejub skólinn virðist hafa gert honum gott því eftir 5 mínútur barst boltinn á Lexa sem var ekkert að tvínóna við þetta og nelgdi boltanum á markið. Beitir í marki KR varnarlaus og staðan orðin 1-0 fyrir Blika. Frábært einstaklingsframtak og mögnuð byrjun hjá Lexa.
Leikurinn hafði ekki verið neitt sérstaklega mikið fyrir augað fram að þessu og nú sá maður að Blikar ætluðu að liggja til baka og beita sínum frægu skyndisóknum. Það skilaði næstum því marki nokkru sinnum en KR náðu að bægja hættunni frá.
Dómarinn bætti við 5 mínútum í uppbótartíma og þar hefðu KR getað jafnað en sem betur fer kláruðu Blikar KR í annað skiptið í sumar. Ekki nóg með það heldur skelltu þeir sér líka á toppinn þó að Valur og Stjarnan eigi leiki til góða þá er alltaf gaman á toppnum.
Næsti leikur hjá Blikum á móti Víking Reykjavík mánudaginn 13 ágúst og svo mætum við aftur Víkingum fimmtudaginn 16. ágúst en þá eru undanúrslit í Mjólkurbikarnum og Víkingarnir verða frá Ólafsvík. Nóg framundan hjá Blikum og ennþá séns á 2 bikurum í hjá strákunum sem er ekkert nema frábært.
Stanslausir stórleikir framundan og það skiptir máli að mæta og styðja okkar fólk, við erum Blikar og bæði stelpurnar og strákanir að standa sig frábærlega. Klárum þetta sumar með stæl!
KIG