Fall er fararheill!
26.04.2014Breiðabliks tapaði 4:1 fyrir FH í úrslitum Lengjubikarsins á Stjörnuvellinum í kvöld. Sigur Hafnfirðinga var verðskuldaður enda virkuðu okkar drengir frekar þungir og þreyttir. Að vísu verður að taka tillit til þess að margir lykilmenn Blikaliðiðsins, Finnur Orri, Guðjón Pétur, Árni Vill og Stefán Gísla, voru hvíldir og komu ekkert við sögu að þessu sinni. Mark Blika setti varamaðurinn Gísli Eyjólfsson á snyrtilegan hátt í síðari hálfleik.
FH-ingar tefldu fram sínu sterkasta liði og náðu fljótlega undirtökunum í leiknum. Varnarmenn okkar dekkuðu hættulega sóknarmenn þeirra ekki nægjanlega vel og áttum við oft í vandræðum með snöggar sóknir þeirra. Oft skall hurð nærri hælum upp við mark Blika en sem betur fer náðu Hafnfirðingar einungis einu sinni að koma tuðrunni í netið. Við áttum ekki margar sóknir og þau fáu skipti sem við komust upp að marki Gaflaranna hirti hinn reyndi markvörður þeirra Kristján Finnbogason alla bolta.
Í síðari hálfleik skipti Óli öllum varamönnunum inn á og frískuðu þeir nokkuð upp á sóknarleikinn. Einkum voru þeir Ellert og Elfar Páll sterkir í loftinu. Eftir að Gísli hafði minnkað muninn í 2:1 sóttum við nokkuð stíft að marki þeirra hvítklæddu. En tvær skyndisóknir FH-inga sökktu vonum okkar endanlega. Lokatölur því 4:1 og Hafnfirðingar því Lengjubikarmeistarar 2014.
Blikaliðið hefur oft spilað betur en í þessum leik. Páll Olgeir sýndi lipra takta í fyrri háflleik og Andri Rafn var duglegur að vanda. Í síðari hálfleik komu Höskuldur og Gísli með meiri hraða í sóknarleikinn og Elfar Páll og Ellert með ógnun í loftinu.
En gamla máltækið ,,Fall er fararheill" á við í þessu tilfelli. Blikaliðið mun koma sterkt til leiks gegn FH-ingum mánudaginn 5. maí næst komandi. Þá mun engin muna eftir úrslitunum í þessum leik!
Þrátt fyrir úrslitin þá verður að hrósa stuðningsmönnum Breiðabliks vel fyrir mætingu og góða hvatningu. Öflugur grænn stuðningskjarni mætti með fána og trommur og lét vel til sín heyra. Þetta var til fyrirmyndar og áttum við stúkuna frá upphafi til enda. Þetta er til fyrirmyndar og lofar góðu fyrir sumarið.!
-AP