Fátt um svör
25.05.2012Breiðablik tók á móti Fram á Kópavogsvelli, rigning og rok mætti leikmönnum og áhorfendum á þessu fimmtudagskvöldi. Einhverjir létu það greinilega stoppa sig í að mæta en svo má gera ráð fyrir að Evróvision hafi haft eitthvað um það að segja að mætingin var ekki betri. Ég er allaveganna að vona það því að liðið manns þarf aldrei meiri stuðning en einmitt þegar að illa gengur.
Blikar eru kannski orðnir of góðu vanir eftir síðustu ár, þrátt fyrir að sumarið 2011 hafi ekki alveg gengið eins og menn ætluðu sér. Ég ætla ekki að dvelja of lengi við þennan leik, ég bara nenni því ekki og geri ekki ráð fyrir því að neinn vilji það.
Leikurinn var nokkuð jafn framan af og bleytan og vindurinn höfðu sitt að segja um það hvernig leikurinn spilaðist. Persónulega þá fannst mér ekkert vera að gerast þegar að Frammarar sparka háum bolta inn í teig, Sigmar misreiknar sig í markinu og nær ekki að koma boltanum frá. Bingó, klaufaskapur og klafs og staðan orðin 0-1 fyrir Fram. Ég heyrði kunnulegt andvarp í stúkunni frá köldum Blikum sem sumir hverjir voru farnir að biðja til almættisins um sambatakta inn á vellinum til að ylja sér. Ekki voru þeir að öskra með lúðravsveitnni sem spilaði af krafti allan leikinn, sennilega bæði til að styðja strákana og svo til að halda á sér hita. Össur og hans strákar eiga alla mína virðingu en staðan er líka þannig að stuðningurinn verður koma frá öllum. Spilandi sveit í 90.mín getur snúist upp í andhverfu sína ef enginn tekur undir.
Blikar gerðu lítið framávið en það segir sitt að hættulegasta færi Blika kom þegar að Sverrir vippaði boltanum inn fyrir vörn Frammara á Troost sem komst í fínt færi en náði ekki að klára það eins og framherji hefði kannski gert. Seinna mark þeirra bláu kom eftir að Blikar gáfu gjörsamlega tilgangslaust horn, boltinn barst inn í teig og enginn tók af skarið í teignum. Boltinn lag í gegnun allt Blikaliðið og endaði á einhvern óskiljanlegan hátt í markinu.
Ég kreysti tómt pappakaffimálið og bölvaði í hljóði, sá að sessunautar mínir gerðu það sama. Sonur minn 5 ára gamall sat við hliðina á mér og sá hversu svekktur ég var, hann snéri sér að mér og spurði mig, höldum við núna með Fram? Skil vel að hann velti því fyrir sér svona ungur af hverju maður er að svekkja sig á þessu og af hverju maður velji ekki bara auðveldu leiðina og styðji bara hvern þann sem er að vinna hverju sinni. Ég svaraði honum, nei auðvitað ekki við erum Blikar! Reyndi svo að gefa nokkur öskur frá mér til að reyna að hvetja strákana áfram en fann að það skilaði litlu enda var krafturinn ekki til staðar á þessum tímapunkti.
Það er samt akkurat málið, núna þarf að styðja við liðið og láta þá finna að þei hafi bakland og hóp af fólki sem trúir á verkefnið. Það efast enginn um að þetta eru öflugir fótboltamenn og getan til að gera mikið betur er til staðar. Ég var virkilega ánægður að sjá Gumma Pé koma inn og vona svo sannarlega að hann fái meiri spilatíma. Fannst líka Elfar Árni og Haukur Baldvins koma með ákveðin ferskleika inn í leikinn. Það vantaði ekki að menn voru að reyna en það var samt því miður ekki að skila neinu.
Næsti leikur er á Selfossi fimmtudaginn 31 maí, nú fá menn smá pásu til að leggjast aðeins yfir hlutina með það að markmiði að bæta það sem þarf að bæta. Eins og þjálfarinn og fyrirliðinn hafa báðir sagt þá þarf að sína karakter, stíga upp og sína að menn virkilega vilji ná árangri. Það sama gildir um okkur sem í stúkunni sitjum, við erum Blikar svo mikið er víst. Nú gefst tækifæri til að skella sér í stemmningsferð á Selfoss, sumarið er að byrja og þá er alltaf tilefni til að vera bjartsýn. Það er allt til alls hjá okkur í Kópavoginum, hættum að fókusa á neikvæðu hlutina og einblínum á það jákvæða. Skellum okkur með stemmningu og stuð á Selfoss, veit að einhverjum kann að finnast það erfitt en það er okkar að rífa upp móralinn og bakka strákan upp. Ég er örugglega með laust sæti í mínum bíl ef þig vantar far. ÁFRAM BREIÐABLIK!
KIG