Frábær fyrri hálfleikur tryggði Blikum góðan sigur!
05.09.2012
Blikastrákarnir gerðu góða ferð suður með sjó á mánudagskvöldið og lögðu heimapilta í Grindavík 2:4 í Pepsí-deildinni. Þeir grænklæddu léku á alls oddi í fyrri hálfleik og sundurspiluðu heimapilta gersamlega. Grindvíkingar voru á hælunum og hefðu hæglega getað fengið fleiri mörk á sig. Arnar Már, Kristinn Jóns, Tómas Óli og Rafn Andri skoruðu fín mörk og með smá heppni hefðu mörkin getað orðið fleiri. Í síðari hálfleik gáfu Blikar hins vegar eftir eins og ansi oft í sumar og leyfðu heimapiltunum að skora tvö mörk. En góður 2:4 sigur okkar manna staðreynd og þar með stimluðum við okkur aftur inn í keppnina um Evrópusæti.
Þeir fáu áhorfendur sem mættu á leikinn, reyndar flestir úr Kópavoginum, fengu svo sannarlega knattspyrnuveislu í fyrri hálfleik. Hraðir sóknarmenn Blika dönsuðu í kringum óörugga varnarmenn Grindavíkur og það var ekki eins og þeir gulklæddu væru að berjast fyrir sæti sínu í deildinni. Blikavörnin var sterk með Kidda Jóns fremstan meðal jafningja. Miðjan dreifði boltanum vel og Arnar Már og Rohde börðust vel í framlínunni. Daninn var óheppinn að skora ekki í þessum leik en þetta hlýtur að fara að detta fyrir hann. Svo verðum við að hrósa Rafni Andra fyrir mjög góðan leik. Hann nálgast sitt besta form en þetta hefur brekka fyrir hann eftir erfið meiðsli. Einnig var mikilvægt fyrir Tómas Óla að skora enda þurfa þessir ungu leikmenn okkar að skora meira.
Svo má ekki gleyma því að unglingalandsliðsmaðurinn Adam Örn Arnarsson kom inn á lokin og spilaði þar með sinn fyrsta leik í efstu deild. Adam Örn er á fyrsta ári í 2. flokki og er einn af okkar efnilegustu varnarmönnum.
Það er hins vegar ákveðið áhyggjuefni hve Blikaliðið dettur oft niður í síðari hálfleik. Það sama gerðist gegn Selfossi og FH. Við töpuðum seinni hálfleiknum 2:0 í Grindavík og það var eins og það væri ekki sama lið inn á vellinum í síðari hálfleik. Það var ekki sama grimmd fram á við og við fengum tvö skallamörk á okkur eftir slaka dekkningu inn í teignum.
Leikurinn var 200. mótsleikur Ólafs þjálfara með Breiðbliksliðið. Blikar.is óska Óla til hamingju með þennan áfanga hvetjum við Blika til að styðja vel við bakið á okkar mönnum í PEPSI deildinni í komandi leikjum. Það er enn til nokkurs að vinna og enn geta Blikar bætt sig
Næsti leikur er gegn KR í Frostaskjólinu sunnudaginn 16. september. Þá þurfa okkar drengir að vera uppi á tánum í 90 mínútur! Fyrirliðinn Finnur Orri verður fjarri góðu gamni því hann er kominn í eins leiks bann vegna fjögurra gulra spjalda. Á móti kemur að Þórður Steinar kemur aftur inn eftir bann.
Ólafur þjálfari þarf að finna nýja peppræðu í leikhléi og strákarnir verða að sýna sama hungur og baráttu eins og í fyrri hálfleiknum í Grindavík. Þá munum við sigla þremur stigum í hús og gera alvöru atlögu að Evrópusætinu!
Áfram Breiðablik!