BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Frábær sigur í Garðabænum og toppsætið aftur til Breiðabliks

19.06.2019

Þegar undirritaður var að alast upp í Kópavoginum fyrir um hálfri öld síðan (!) og Vallargerðisvöllurinn var helsta athvarf okkar ungra Breiðabliksstráka lékum við gegn jafnöldrum okkar í Ungmennafélaginu Stjörnunni í Garðahreppi. (Garðabær kom síðar) í UMSK mótinu svokallaða. Þá bjuggu nokkur hundruð sálir í Silfurtúnshverfinu og það voru hús á stangli hér og þar í þessu vaxandi samfélagi. Þetta var iðulega frekar ójafn leikur, enda Stjarnan á sínum frumbýlingsárum og við unnum yfirleitt stórt.

Nú eru breyttir tímar. Núna búa yfir 16.000 manns í Garðabænum, (37.000 í Kópavogi – en með 2 knattspyrnufélög) og Stjarnan hefur vaxið og dafnað eins og bæjarfélagið. Í dag er Stjarnan á meðal bestu knattspyrnuliða landsins. Stjarnan varð Íslandsmeistari árið 2016 eftir mikla dramatík og hefur á seinni árum reynst okkur Blikum nokkuð erfiður ljár í þúfu þó tölfræðin sé okkur aðeins í hag (sjá hér) Á síðasta keppnistímabili töpuðum við báðum leikjum gegn Stjörnunni auk þess að tapa í úrslitaleik Mjólkurbikarsins eftir vítaspyrnukeppni. Það var mikið áfall. Breiðablik endaði aðeins 2 stigum á eftir Íslandsmeisturum Vals í fyrra í deildinni og því sviðu tapleikirnir gegn Stjörnunni enn sárar en ella.

Það var undir þessum kringumstæðum sem Blikar heimsóttum Stjörnuna á Samsung vellinum í Garðabæ þann 18. júní í Pepsi deildinni. Með sigri gat Breiðablik endurheimt toppsætið – sem við glutruðum úr hendi eftir stórslys í Árbænum þar sem við fengum á okkur 4 mörki í einum og sama leiknum. Samtals hafði Breiðablik fengið á sig samtals 5 mörk í 7 leikjum hingað til. Vörn og markvarsla okkar – vörumerkið undanfarin ár – gleymdist heima í það sinnið og við höfum ekki efni á slíkum lúxus í þeirri baráttu sem deildin er í ár.

Helgi Viðar frá BlikarTV var með myndavelina á Stjörnuvellinum í Garðabæ.

Reyndar verður seint sagt um Samsung völlinn að hann sé augnayndi. Hann er alls ekki hlýlegur, steypan og þrengslin í áhorfendastúkunni eru fráhrindandi og það eru fáránlega margar stoðir í áhorfendastúkunni sem trufla útsýnið. Það er synd að þetta ágæta félag hafi ekki betri heimavöll – verandi til heimilis í ríkasta sveitarfélagi landsins. Það má hinsvegar ekki gleyma því að það var einmitt á þessum velli sem Breiðablik náði sínum toppi í sögu karlaliðsins í knattspyrnu eftir að hafa gert jafntefli í september og tryggði okkur Íslandsmeistartitilinn á hryssingslegum haustdegi í september 2010.

En nú að því sem málið snýst um. Innihaldinu en ekki forminu eins og listfræðingarnir segja. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ágætar en kuldinn aðeins of mikill eftir einmuna veðurblíðu undanfarnar vikur. Norðangarri og hitinn lágur.

Við stilltum upp sama liði og í Árbænum – nema að Kolbeinn kom inn á fyrir Aron Bjarnason.

Leikskýrsla KSÍ      Úrslit.net

Sessunautar mínir – sem eru orðlögð gáfumenni í knattspyrnufræðum - fannst sumum einkennilegt að Aron byrjaði ekki leikinn. „Hann er alltaf líklegur. En Gústi veit vonandi hvað hann er að gera“ – hafði ég punktað niður hjá mér meðal annars eftir félögum mínum. 

Við spiluðum gegn vindinum í fyrri hálfleik og leikurinn var í jafnvægi allan hálfleikinn. Lítið um færi og bæði liðin reyndu stutt spil en sterkur vindurinn gerði leikmönnum ekki auðvelt fyrir. Blikum voru eitthvað mislagðar fætur í sendingum og ef eitthvað var áttu Stjörnumenn frumkvæðið og voru meira með boltann undan vindinum. Það setti hinsvegar neikvæðan brag á leikinn að dómarinn, Þorvarður Árnason, var í nokkuð undarlegum ham. Það er ekki smart að setja út á dómarann – þeir geta átt slaka leiki eins og leikmenn – en ákvarðanir hans voru margar hverjar út úr öllu korti og það hallaði töluvert á okkar menn. Gleggsta dæmið var á 36. mínútu þegar Thomas Mikkelsen vann skallaeinvígi við varnarmann Stjörnunnar og Damir skoraði. Markið var dæmt af á einhvern furðulegan hátt og Mikkelsen sagður brotlegur. Furðulegur dómur og hefði getað reynst dýrkeyptur. 

Í hálfleik var staðan 0-0 og menn sammála um að draga myndi til tíðinda eftir hlé. Hugo Rasmus sagði við skrásetjara: „Var ekki 0-0 á móti FH líka í hálfleik? Við vinnum þetta örugglega“. Síðari hálfleikurinn var aðeins 4ra mínútna gamall þegar enn einn furðulegi aukaspyrnudómurinn gaf Hilmari Halldórssyni eitt tækifærið á hættulegum stað fyrir Stjörnuna. Gunnleifur markmaður – sem átti góðan leik – hafði í tvígang varið vel frá heimspekinemanum í fyrri hálfleik en gat á engan hátt gert neitt til að afstýra marki Stjörnumanna eftir mikið klafs í teignum. 1-0 fyrir Stjörnuna – og menn voru frekar niðurlútir Breiðabliksmegin i stúkunni. 

Eftir markið var hinsvegar alveg ljóst að Blikarnir myndu ekki sætta sig við þessi úrslit. Ágúst þjálfari setti áðurnefndan Aron Bjarnason inn á völlinn á 55. mínútu og tók hann sæti Andra Rafns Yeoman. Yeoman hafði alls ekki staðið sig illa og lék þarna sinn leik nr. 200 í efstu deild. Nokkuð sem engum Blika hefur tekist áður. Það segir talsvert um breiddina í okkar hópi að geta leyft sér að hvíla Andra Yeoman ef svo ber undir. Þetta er auðvitað magnaður árangur hjá Andra Rafni. Hann er fæddur árið 1992 og því aðeins 27 ára gamall. Segja má að hann hafi verið fastamaður í byrjunarliði félagsins frá því hann hafði aldur til að spila í meistaraflokki. Blikar.is óska honum innilega til hamingju með þennan magnaða árangur.

Ágúst var ekki hættur – heldur setti hann Brynjólf Darra Willumsson inn fyrir Thomas Mikkelsen á 60. mínútu og var það djörf skipting enda Daninn ávallt hættulegur. En þessi liðsbreyting átti hinsvegar eftir að hafa afgerandi áhrif á leikinn. Aron ógnaði gríðarlega með hraða sínum og leikni og Brynjólfur skapaði mikla ógn með sinni frammistöðu. Hann er einungis 19 ára en spilar eins og hann hafi aldrei gert annað en að vera í toppbaráttu gegn bestu varnarmönnum landsins. Hann skýlir boltanum afar vel með líkamanum, heldur honum þannig að erfitt er að fyrir mótherjann að ná til boltans. Hann dregur þannig samherjana með sér og gerir liðinu auðveldar að byggja upp sóknir. Þetta virkar einfalt í fjarlægð – en þetta er miklu erfiðara en sýnist. Hann hefur auk þess mikla boltatækni sem ekki er sjálfgefið hjá jafn hávöxnum leikmanni og hann er. Minnir þar mikið á bróður sinn Willum.

Eitraðir hægri fætur

Á 66 mínútu dró til verulegra tíðinda. Blikar fá hornspyrnu vinstra megin. Aldrei þessu vant ákveður Guðjón Pétur Lýðsson að taka stutt horn, nokkuð sem ég hef ekki séð framkvæmt í ár. Sendir á Aron Bjarnason sem ákveður að taka skot með hægri fæti. Það heppnast gríðarlega vel og hann endar í blávinklinum í hornið fjær. Blikastúkan gersamlega sprakk – og leikmenn greinilega komnir á bragðið. 

Blikarnir tóku öll völd á vellinum og við áttum miðjuna þar sem Guðjón Pétur var eins og herforingi. Á 78. mínútu er hann felldur í skyndisókn af Baldri Sigurðssyni – sem fékk gult spjald – en Blikar almennt sammála að þar hefði annar litur átt að vera til sýnis fyrir Mývetninginn. Guðjón tók aukaspyrnuna sjálfur og smell hitti boltann sem söng í vinklinum vinstra megin. Það var óverjandi fyrir Harald markvörð. Markaskorarar Blika eru sennilega með eitruðustu hægri fætur Pepsi deildarinnar.

Eftir þetta var aldrei spurning um hvar sigurinn myndi lenda. Það var svo í uppbótartíma sem Aron Bjarnason kórónaði snilldarinnkomu sína með einleik upp vinstri kantinn og sendi þvert fyrir markið. Þar var mættur Alexander Helgi Sigurðsson sem hafði komið inn á sem varamaður 10 mínútum áður og afgreiddi boltann af öryggi í netið.

Sterk liðsheild – mikið leikjaálag framundan

Það var allt annað að sjá til liðsins í kvöld heldur en gegn Fylki á föstudaginn. Gulli var öryggið uppmálað í markinu og vörnin traust. Kolbeinn og Guðjón náðu miklum tökum á miðjunni í síðari hálfleik og allir börðust vel. Innkomu varamannanna hefur verið lýst hér nokkuð ítarlega hér að ofan – hún gerði gæfumuninn í leiknum.

Kollegi minn hér á blikar.is OWK sagði í síðasta pistli að Rúnar þjálfari Stjörnunnar héldi því fram í öllum viðtölum eftir leiki að Stjarnan sé alltaf betri aðilinn í leiknum. Líka þegar þeir voru greinilega slakari. Nú veit maður ekki hvað Rúnar segir um þennan leik – en það þarf engin sérstök Breiðabliksgleraugu til að fullyrða að sigurinn í kvöld var sanngjarn og virkilega gaman að horfa á strákana í þessum leik.

Frammistaðan segir okkur að við erum með breiðan og öflugan hóp. Það er líka nauðsynlegt þar sem framundan er afar erfiður mánuður og leikálagið er mikið. Við erum enn inni í bikarkeppninni og í dag var dregið í 1. umferð í forkeppni Evrópukeppni félagsliða. Þar fengum við sem mótherja Vaduz frá Liechtenstein, sem er sýnd veiði en ekki gefin, en liðið leikur í svissnesku deildinni, sem er firnasterk.

Næsti leikur í Pepsi deildinni verður hinsvegar gegn ÍBV á heimavelli í Kópavoginum á laugardaginn. Vestmannaeyingar eru í harðri baráttu um að halda sér í deildinni og geta reynst skeinuhættir á góðum degi.

Ef við höldum áfram á þeirri braut sem lögð var til í Garðabænum í kvöld þá ættum við ekki að hafa neinu að kvíða. Strákarnir þurfa á öllum stuðningi að halda til að við halda toppsætinu. Þeir eiga það líka skilið eftir frammistöðuna í kvöld.

HG

Umfjallanir netmiðla

Heisi var á hliðarlínunni á leik Blika gegn Stjörnunni og náði nokkrum góðum mörkum, stikklur úr leiknum fylgja með.

Til baka