BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Frábær sigur í Krikanum

08.05.2018

Blikar lögðu land undir fót í kvöld og héldu suður. Stikuðu yfir tvo bæjarlæki og námu staðar í Kaplakrika þar sem þeir mættu heimamönnum í 2. umferð PEPSI deildarinnar.
Það var dumbungur  í Krikanum og hiti rétt nartaði í 6°C. Sólarlaust í SA golu en til allrar lukku lét blessuð úrkoman sem spáð var ekki kræla á sér og það glaðnaði heldur til þegar leið á leikinn. Kaplakrikavöllur í fínu standi að venju, en kannski í þyngra lagi, ekki kominn í miðsumarsbúninginn.

Fjölmiðlar og knattspyrnuáhugamenn sýndu leiknum talsverðan áhuga svona fyrirfram vegna allskonar tenginga á milli þessara liða og það væri að æra óstöðugan að fjölyrða um það allt hér, en það lá náttúrulega í augum úti að þarna voru Blikar að mæta Ólafi H. Kristjánssyni, sínum gamla þjálfara, í fyrsta sinn í efstu deild frá því hann lét af störum hjá Blikum 2013 eftir 7 frábær ár. Jonathan Hendrickx, Gummi Kristjáns og Kiddi Steindórs komu líka við sögu, að ógleymdum Steven Lennon sem, einsog vallarþulur orðaði svo skemmtilega fyrir leik, gerði nýverið 4 ára samning við FH, eftir að hafa ítrekað verið orðaður við Blika í upphafi sauðburðar. Sú undirskrift framkallaði einsog kunnugt er blik í auga hins skelegga formanns knattspyrnudeildar FH, og þótti í frásögur færandi enda kallar hann ekki allt ömmu sína og alls ekki þekktur fyrir viðkvæmni. Vonandi er formaður FH búinn að þerra tárin sem gjarnan fylgja í kjölfarið þegar tilfinningarnar bera menn loks ofurliði.
Áhorfendur voru rúmlega 1800 talsins og hafa oft verið færri.

Byrjunarlið Blika: Sjá urslit.net og vef ksi.is
Sjúkralisti: Enginn.
Leikbann: Enginn.

Leikurinn hófst á því að FH ingar stilltu upp fyrir upphafssspyrnuna einsog gert var í stórfiskaleik á planinu við Kópavogsskóla hér í den. Dúndruðu svo boltanum fram og ætluðu greinilega að pressa Blika í byrjun. Okkar menn kærðu sig hinsvegar kollótta og héldu kúlinu. Létu svo krók koma á móti bragði og veiddu FH inga strax í rangstöðugildruna. Og sá veiðiskapur gekk reyndar prýðilega allan leikinn. Gísli komst fljótlega svo fljótlega í álitlegt færi eftir góðan sprett en náði ekki að klára færið almennilega eftir góða skyndisókn. Þetta reyndist vera forsmekkurinn að því sem í vændum var. Hinumegin skall hurð nærri hælum þegar framherji FH slapp inn fyrir og komst í ágætt færi en Gunnleifur bjargaði vel. Þar munaði litlu, en þetta var þegar upp var staðið besta færi heimamanna í fyrri hálfleik. Skömmu síðar komst Sveinn Aron í gott færi eftir að boltinn hrökk til hans inni í vítateig. Varnarmaður FH hékk á pilti en hann náði að slíta sig lausan og koma skoti á markið sem markmaður FH varði. Blikar gerðust smátt og smátt ágengari og náðu oft góðum skyndisóknum eftir að hafa hirt boltann á miðjunni eða upp við eigin vítateig, en ævinlega vantaði herslumun, síðasta sending klikkaði oftar en ekki og færin létu sig vanta. Elfar prófaði eina Rabona sendingu en hún skilaði sér ekki. Elfar er þá búinn að prófa þetta 2svar í þessum mánuði. Engum líkur. Sveinn Aron átti hörkuskot úr aukaspyrnu skömmu fyrir leikhlé en það var sömuleiðis varið. En það reyndist skammgóður vermir fyrir gestgjafana því á síðustu andartökum hálfleiksins náðu Blikar góðri sókn. Sveinn Aron skallaði boltann fyrir fætur Arnþórs Ara sem lagði boltann snyrtilega í gegnum flata vörn FH og hver annar en Gísli kom á fullri ferð og renndi sér inn í teiginn með knöttinn á tánum og vippaði snyrtilega yfir úthlaupandi markvörðinn. Glæsilegt mark hjá Blikum og vel það því staðið, enda fögnuð þeir vel og rækilega. Það var líka gert í stúkunni. Þar með lauk fyrri hálfleik. Blikar með verðskuldaða forystu, en leikurinn í járnum.

Hálfleikskaffið var snarpheitt fyrir þá sem ekki settu of mikla mjólk út í. Öll veitingaaðstaða í Kaplakrika er til mikillar fyrirmyndar og gætum við ýmislegt lært af því sem þar hefur verið gert til að gera aðstöðu áhorfenda og starfsmanna leiksins sem besta. Þessu hafa þeir fengið að ráða sjálfir.

Hafi einhverjir (og mögulega voru þeir nokkrir) haldið að Blikar myndu leggjast í vörn og reyna að halda fengnum hlut í upphafi seinni hálfleiks, þá var það ekki merkjanlegt, am.k. ekki strax. Að vísu fengu heimamenn fyrstu hornspyrnuna en ekkert varð úr henni fremur en öðrum föstum leikatriðum sem FH fékk í þessum leik. En skömmu síðar kræktum við í horn, eftir flotta skyndisókn og það var maður í stúkunni sem sagði í votta viðurvist að nú myndi Elfar skora. Og það stóð heima. Elfar hamraði boltann í mark gestanna með kollinum eftir góða hornspyrnu Andra. Svona á að gera þetta, og sannaðist þar hið fornkveðna að þeir verja hann ekki þarna. Staðan orðin 0 -2 fyrir Blika og nú færðist heldur betur fjör og harka í leikinn. Heimamenn ekki sáttir með gang mála og freistuðu þess að keyra á Blikana og hleypa leiknum upp, enda Blikar við það að detta í gott stuð. Oliver og Elfar voru sparkaðir niður á sömu þúfunni með örskömmu millibili og hinir brotlegu fengu báðir gult en Blikar voru sérstaklega ósáttir með væga refsingu fyrir brotið á Oliver. Það þarf maður að sjá aftur til að dæma um.  Heimamenn herjuðu nú á okkar menn og kynntu nú til leiks tvo Atla, sem oft hafa reynst okkur erfiðir. Þetta var þó ekki nein nauðvörn hjá okkar mönnum og þeir voru áfram líklegir í skyndisóknum sínum. Í einni slíkri var brotið á Arnþóri Ara utan vítateigs. Það er skemmst frá að segja að Jonathan Hendrickx skoraði úr spyrnunni og kom Blikum í 3-0. Markið fer ekki i sögubækurnar fyrir fegurðar sakir og sennilega vill markvörður FH ekki horfa á þetta í hægri endursýningu, En þessi mörk telja líka. Blikar í stúkunni ærðust, leikmennirnir sömuleiðis. Skárra væri það. Jonathan fagnaði svo á eigin forsendum, þar sem ekki má, og hlaut að launum gult spjald.
Heimamenn ætluðu ekki að láta kaffæra sig orða- og hljóðalaust, herjuðu nú á Blika og voru sem óðastir. Blikar gleymdu sér aðeins í markavímunni og gerðust værukærir við eigin vítateig sem varð svo til þess að annar Atlinn, sem fyrr var nefndur, komst inn í teig með boltann þar sem Elfar var dæmdur brotlegur og vítaspyrna dæmd. Glöggir menn sögðu að þetta hefði verið gjöf. Lennon skoraði úr vítinu og nú voru 25 mínútur eftir og mikil spenna. Blikar settu Tokic inn fyrir Svein Aron, sem var búinn að vera feykiduglegur í leiknun og skömmu síðar kom Viktor Örn inn fyrir Arnþór Ara. Eftir að hafa fengið mark í andlitið náðu Blikar vopnum sínum á ný og voru mjög ákveðnir. Þeir náðu að hægja vel á leiknum og gáfu engin færi á sér. Voru mjög þéttir á miðsvæðinu og fyrir framan eigin vítateig og áttu í fullu tré við heimamenn. Inn á milli náðu þeir góðum skyndisóknum og í einni slíkri komust Blikar 4 á móti 2 en náðu ekki að nýta sér það, náðu góðri opnun en skotið fór naumlega framhjá. Blikar gerðu enn breytingu þegar Aron kom inn fyrir Willum, sem var orðinn bensínlítill eftir mjög gott dagsverk. Þegar 95 mínútur voru komnar á klukkuna lét dómarinn þetta gott heita og Blikar fögnuðu vel með sínum stuðningsmönnum í leikslok.

Blikar voru gríðarlega einbeittir í kvöld, allir sem einn, og unnu þennan leik sanngjarnt og sannfærandi. Aftasta varnarlínan steig vart feilspor og var sérstaklega grimm í varnarleiknum ásamt því að skila boltanum vel frá sér og Gulli tók allt sem hægt var að ætlast til. Mörk frá varnarmönnum eru alltaf vel þegin og að þessu sinni voru þau tvö. Miðju- og sóknarmenn voru sömuleiðis í fantaformi og voru alveg sérlega lagnir við að stela boltanum og koma honum hratt upp völlin. Það vantaði reyndar oft bara herslumun til að skapa fleiri færi og skora fleiri mörk, en það heyrðist svo sem enginn kvarta í leikslok. 3 mörk er alltaf fínt.
Blikar sigldu stigunum örugglega í hús eftir að heimamenn minnkuðu muninn og það var gaman að sjá klókindin í leik þeirra, þegar þeir smám saman drógu tennurnar úr óþolinmóðum andstæðingunum. Það er fínn bragur á liðinu og breiddin er næg. Liðið sló ekkert af þegar nýir menn komu inn og allir virtust vita til hvers væri ætlast. Það ætti að gefa mönnum sjálfstraust í framhaldið.

Stuðningsmenn Blika velta því nú vafalaust fyrir sér hvort leikmenn muni fara með himinskautum og brotlenda í næsta leik. Enda verður þeim hælt alveg upp í rjáfur næstu daga og  umfjöllun mun öll verða á einn veg. Þetta getur truflað en það er engin ástæða til að ætla að liðið týni sér í þessu. Þar er næg reynsla til að tækla slíkt og það er auðvitað hlutverk og skylda hinna reynslumeiri leikmanna, ekki síður en þjálfara og þeirra sem eru í kringum liðið, að sjá til þess að allir mæti einbeittir og tilbúnir í næsta leik.

Næsti leikur Blika er á Kópavogsvelli gegn nýliðum Keflvíkinga á laugardag og hefst kl. 16:00.

Áfram Breiðablik !

OWK

Myndaveisla í boði Fotbolti.net

Úrvalsklippur í boði BlikarTV

Umfjallanir netmiðla

Til baka