- Byrjunarlið Blika ásamt Lukkustrákum. Mynd: HVH
- Andri Rafn Yeoman og Willum Þór Willumsson skorðu mörk Blika í seinni hálfleik. Mynd: HVH
- Þessir héldu uppi stuðinu í seinni hálfleik
- Karl Friðleifur Gunnarsson kom inn fyrir Jonathan Hendrickx. Karl er kornungur og var að leika sinn fyrsta leik í efstu deild og stóð sig mjög vel. Mynd: HVH
- Blikar notuðu svo síðustu skiptinguna skömmu síðar þegar Brynjólfur Darri Willumsson kom inn fyrir Svein Aron. Brynjólfur eins og Karl að leika sinn fyrsta leik í efstu deild. Mynd: HVH
- Svo fagna menn auðvitað í leikslok. Mynd: HVH
Frábær stig !
14.06.2018Það var ekki sérlega bjart yfir dalnum í dag þegar Blikar mættu Fylki í níundu umferð PEPSI deildarinnar. Gekk á með skúrum og heldur dumbungslegt. Hiti rétt slefaði yfir 9°C en vindur hægur. Glaða sólskin í annarri sveit og víðsfjarri. Pylsur grillaðar oní mannskapinn fyrir leik í boði Varðar og það var fín mæting á völlinn, áhorfendur vel á 15. hundraðið.
Leikskýrsla: KSÍ og Úrslit.net
Það þurfti ekki að vökva völlinn fyrir leik en það hefði sannarlega ekki veitt af kaldri bunu á okkar menn til að vekja þá því þeir mættu alveg steinsofandi í leikinn. Alveg gjörsamlega á hælunum fyrsta hálftímann og stálheppnir að lenda ekki undir. Það var reyndar með ólíkindum að Fylkismenn skyldu ekki ná að nýta sér sofandahátt okkar manna í fyrri hálfleik. Feilsendingar í tugatali og misskilningur á milli manna olli hvað eftir annað stórhættu við okkar vítateig og gestirnir klaufar að gera ekki meira úr sínum færum. Gestirnir pressuðu hátt og við ýmist réttum þeim boltann hvað eftir annað með slökum sendingum eða þá að okkar menn létu hirða af sér boltann þegar þeir uggðu ekki að sér eða voru að reyna að sóla sig í gegnum pakkann. Þetta var hrein hörmung í fyrri hálfleik og þrátt fyrir að við ættum okkar færi og settum boltann 2svar í tréverkið þá hefði það nú varla verið sanngjarnt að Blikar hefðu haft forystu í leikhlénu. Þeir voru einfaldlega einsog lélegar eftirlíkingar af sjálfum sér og spilamennskan jafn skynsamleg og rússíbanareið án öryggisbelta. Ekkert meira um það að segja.
Ég man varla hvernig hálfleikskaffið smakkaðist. Maður var alveg með böggum hildar yfir þessari fráleitu frammistöðu okkar manna og náði ekki að einbeita sér að kræsingunum sem skyldi. Eflaust smakkast vel að venju. Bjarni Bjarna, annálaður varnarjaxl úr fyrsta úrvalsdeildarliði Blika var ekki jafnstressaður yfir þessu og þótti einsýnt að úr því gestirnir væru ekki búnir að klára leikinn þá liti þetta bara vel út.. ,,Hvað segirðu Gummi“ (Guðmundur Þórðarson) Fer þetta þá ekki 2-0 fyrir okkur?“.
Síðari hálfleikur byrjaði mun betur en sá fyrri og minnstu munaði Blikar skoruðu eftir að Willum kom sér inn í teig og sendi fyrir markið. Þar vantaði fleiri Blika, en varnarmaður gestanna var hársbreidd frá sjálfsmarki. Fylkismenn fengu svo enn eina hornspyrnuna og tróðu boltanum í netið en það var réttilega dæmt brot á sóknarmann þeirra. Og svo kom eiginleg augnablikið sem breytti leiknum. Gestirnir fengu algjört dauðafæri eftir fasta og eitraða fyrirgjöf en lúðruðu boltanum yfir markið af 3ja metra færi. Maður trúði varla eigin augum. En það var eins og við manninn mælt að nú fjaraði smám saman undan öllum aðgerðum gestanna og þeir virkuðu ögn þreyttir. Skömmu síðar skiptu Blikar Arnóri Gauta inn fyrir Aron Bjarnason. Arnór verið að kljást við meiðsli síðan í bikarleiknum gegn KR en kom frískur inn í þennan leik. Á 65. mínútu dró svo til þeirra tíðinda sem glöddu meirihluta vallargesta. Andri Yeoman fékk boltann á miðjum vallarhelmingi gestanna með tvo Fylkismenn á hælunum en hristi þá af sér með því að setja í gírinn. Skeiðaði svo í átt að teignum og gaf á Willum sem náði að koma sér inn í teig með nokkra Fylkismenn í kringum sig. Hann þræddi boltann svo fyrir fætur Andra sem lenti í smá klafsi en náði svo þéttingsföstu skoti í fjærhornið. Mjög vel gert og Blikar komnir með forystuna.
Gestirnir tóku miðju og náðu strax góðri sókn og fengu ágætt færi en Gulli varði skotið örugglega. Eftir þetta róaðist leikurinn aðeins. Gestirnir reyndu að jafna metin og fengu nokkur horn en úr þeim varð ekkert. Blikar ógnuðu með skyndisóknum. Blikar skiptu enn manni inn á og Karl Friðleifur Gunnarsson kom inn fyrir Jonathan Hendrickx. Karl er kornungur og var að leika sinn fyrsta leik í efstu deild og stóð sig mjög vel. Mjög öruggur og yfirvegaður. Skömmu síðar heimtuð Blikar víti þegar Sveinn Aron var sparkaður niður við línuna. Sá ekki vel hvort þetta var innan teigs, en þetta var klárt brot. Ekkert var dæmt. Skömmu síðar komst Arnór Gauti einn í gegn eftir góðan undirbúning Gísla en náði ekki alveg nógu góði skoti og Aron Snær varði með fótunum. Blikar náðu nú upp smá spili og pressu og ógnuðu marki gestanna. Það bar ávöxt þegar um 10 mínútur voru til leiksloka. Blikar fengu aukaspyrnu á miðjum vallarhelmigi gestanna. Oliver tók spyrnuna og boltinn kom inn í teig á móts við vítapunkt. Þar náði Sveinn Aron að setja kollinn í boltann og skallaði fyrir fætur Willums sem var ískaldur þegar hann húkkaði boltann á lofti með vinstri fæti um leið og hann lagði hann fyrir þann hægri og skoraði með föstu skoti. Fallegt og óverjandi. Blikar komnir í 2 – 0 sem verður að teljast allgott miðað við gang leiksins.
Blikar notuðu svo síðustu skiptinguna skömmu síðar þegar Brynjólfur Darri Willumsson kom inn fyrir Svein Aron. Brynjólfur eins og Karl að leika sinn fyrsta leik í efstu deild. Það sem eftir lifði leiks bar fátt til tíðinda utan að gestirnir heimtuðu víti en dómarinn var ekki sammála. Skömmu síðar kom ljótt pirringsbrot hjá fyrirliða gestanna þegar hann keyrði Gísla niður út við hliðarlínu. Algjör óþarfi og verðskuldað gult spjald. Og úr því minnst er á þetta þá er löngu kominn tími til að dómarar fari að taka á tuddunum í deildinni. Ætli sé ekki búið að brjóta svona 60 sinnum á Gísla í sumar. Það er langmest brotið á honum af öllum leikmönnum og hann er ítrekað sparkaður og keyrður niður, eins og í þetta sinn. Kolbeinn er enn meiddur eftir fólskulega áras Baldurs Sigurðssonar um daginn. Það hefði átt að vera beint rautt spjald. Svo eru menn spjaldaðir og reknir útaf fyrir minniháttar tuð. Þetta er algjörlega óskiljanlegt, til háborinnar skammar fyrir dómaranefnd KSÍ og þetta verður að laga.
Blikar sigldu svo þessum stigum í hús út við hornfána síðusta mínúturnar í uppbótartíma og fögnuðu vel í leikslok. Það var full ástæða til því þetta voru 3 dýrmæt stig sem við áttum varla skilið. Eru það ekki sætustu sigrarnir?
Næsti leikur Blika er í 8 liða úrslitum Mjólkurbikarnum þann 25.júní. Andstæðingar okkar eru Valsmenn og fer leikurinn fram á heimavelli þeirra og hefst kl. 20:00,
Þetta þarf ekkert að flækja það. Við verðum að vinna.
Áfram Breiðablik !
OWK