Fyrstu stigin í hús!
16.01.2016
Blikar unnu sanngjarnan 1:0 sigur á Víkingum frá Ólafsvík fotbolti.net mótinu. Blikar voru mun betra liðið í fyrri hálfleik og hefðu átt að skora að minnsta kosti 2-3 mörk fyrstu 45 mínúturnar. En mark Atla Sigurjónssonar úr víti skömmu fyrir leikhlé var það sem gerði gæfumuninn í leiknum. Síðari háflleikur var ekki alveg eins góður og hefðu gestirnir getað stolið stigi undir lok leiksins. En aðalatriðið er að við unnum leikinn og síðan er hægt að fínpússa það sem betur má fara í næstu leikjum. Sjá myndband af markinu hér.
Sólbrúnir og sætir þjálfararnir gerðu nokkrar breytingar á byrjunarliðinu en það er greinilegt að þeir hafa ekki enn fundið réttu blönduna fyrir sumarið. Þess vegna hafa leikmenn enn tækifæri til að sýna sig og sanna en sjálfsagt fara þeir Addi og Kristó að móta endanlegan hóp fyrir baráttuna framundan.
Allt annað var að sjá til Blikaliðsins í fyrri hálfleik en í undanförnum leikjum. Boltinn flaut mun betur og vorum við að skapa okkur töluvert af færum. Damir átti til dæmis skalla í stöngina, Gísli skaut með blátánni í báðar stangirnar en náði síðan að fiska víti rétt fyrir leikhlé. Það tók norðanpilturinn Atli og skoraði örugglega.
Botninn datt nokkuð úr leik liðsins í síðari háflleik og náðum við ekki nema í smá tíma að setja alvöru pressu á Ólafvíkingana. Glenn kom inn á síðari hálfleik í sínum fyrsta leik á þessu tímabili en náði ekki að setja mark sitt á leikinn að neinu ráði. GUðmundur Atli er veikur og Oliver, Aron Snær markvörður og Arnór eiga enn við smávægileg meiðsli að stríða og voru ekkert með. Hlynur stóð vaktina í búrina og stóð sig vel.
Næsti leikur liðsins er gegn Stjörnunni í Kórnum annan þriðjudag. Búast má við hörkuleik enda hafa Garðbæingar styrkt sig töluvert frá síðasta sumri. Vonandi geta Arnar og Kristó teflt fram sterku liði enda alltaf hart barist þegar þessi tvö lið mætast.
-AP