- Byrjunarlið Breiðabliks í leiknum. Mynd: HVH
- Damir skoraði gott mark eftir fyrirgjöf frá Arnóri. Mynd: HVH
- Framherjar Blika fengu lítið pláss og tím til að athafna sig. Mynd: HVH
- Gunnleifur Gunnleifsson náði í gærkvöld þeim áfanga að verða þriðji leikjahæsti leikmaðurinn í sögu deildarkeppni Íslandsmótsins. Mynd: HVH
- Leikurinn var 50. opinberi leikur Olivers Sigurjónssonar með Breiðabliki. Mynd: HVH
- Fyrir leikinn fékk Arnór fyrirliði viðurkenningu fyrir 250 opinbera leiki með Breiðabliki. Mynd: HVH
Gallsúrt jafntefli
04.08.2016
Blikar mættu Fylki í 13.umferð PEPSI deildarinnar í gær. Það var mikið í húfi einsog endranær, heil 3 stig. Blikar gátu með sigri haldið sig í toppbbaráttunni en andstæðingarnir eru að berjast fyrir lífi sínu á hinum enda töflunnar. Það áttu því flestir von á hörkuleik.
Aðstæður voru góðar, völlurinn loksins kominn í toppstand og orðinn þéttur og sléttur. Veðrið ágætt þó ekki væri sama blíðan og verið hefur undanfarnar vikur. Sólfarsvindu af norðvestri og hiti 11°C.
Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson(F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg -Árni Vilhjálmsson
Varamenn:
Alfons Sampsted - Hlynur Örn Hlöðversson(M) - Jonathan R. Glenn - Atli Sigurjónsson - Viktor Örn Margeirsson - Willum Þór Willumsson - Höskuldur Gunnlaugsson.
Sjúkralisti: Guðmundur Atli Steinþórsson
Leikbann: Enginn
Það er orðið nokkuð langt síðan Blikar hafa mætt jafn varnarsinnuðu liði og þeir mættu í gær. Okkar menn fengu allt það pláss og tíma sem þeir vildu inni á vellinum og því miður notuðu þeir oftar en ekki allan tímann á meðan gestirnir biðu í rólegheitunum á eigin vallarhelmingi og þrumuð boltanum svo langt fram í hvert sinn sem þeir náðu honum. Á þessu voru örfáar undantekningar og Blikar þjörmuðu stundum hressilega að gestunum en náðu samt ekki að skapa sér afgerandi færi. Alltaf reynt að spila alla leið inn að markteig, en oftar en ekki tapaðist boltinn áður en þangað var komið. Einu sinn reyndu okkar menn þó langskot, en það small í stöng gestanna og því ekki von að menn reyndu slíkt aftur. Gestirnir áttu, svo því sé haldið til haga, eina eða tvær skyndisóknir og úr einni þeirra náðu þeir lúmsku skoti sem fór naumlega framhjá.
Í hálfleikskaffinu var mikið spekúlerað af hverju Blikar reyndu ekki að skjóta á markið í stað þess að reyna eilíflega að dúllast í gegn á hálfum hraða, án árangurs? Láta reyna á markmanninn. Mikð rætt um þetta. Fykisliðið að margra mati á við miðlungs 1 .deildarlið og ætti að vera búið að ganga frá því fyrir löngu. En það er ekki hægt í ,,slow motion“, svo mikið er víst. Og hornspyrnur okkar sem voru fjölmargar í fyrri hálfleik, eins og svo oft áður, sköpuðu enga hættu. Alls enga.
Gestirnir hófu síðari hálfleikinn með látum og innan 20 sekúndan voru þeir komnir inn í vítateig okkar og brenndu góðu færi beint í hendurnar á Gunnleifi. Þar voru Blikar heppnir. En okkar menn tóku svo völdin á ný og gerðu harða hríða að marki gestanna sem skilaði loks marki þegar 10 mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Eftir nokkra pressu okkar manna kom sending inn í vítateig sem Arnór náði við endalínuna og hann sendi fyrir markið þar sem Damir var réttur maður á réttum stað og skallaði öruglega í netið. Blikar komnir í 1-0 og nú átti að láta kné fylgja kviði. 3 mínútum síðar fengu Blikar afbragðsfæri til að auka við forystuna en Árni skallaði sneiddi boltann með höfðinu framhjá marki gestanna. Þarna fór gott færi forgörðum og Árni reyndi þarna erfiðu leiðina í stað þess að skalla boltann af afli í sömu átt og hann kom úr. Eins og Damir !!!
En það sem verra var að gestirnir komust í sókn á sömu mínútu og náðu tveim skotum á mark og það síðara endaði í netinu. Þarna vorum við einfaldlega steinsofandi og maður getur bara argað og grenjað af ergelsi yfir svona barnalegri spilamennsku. Búnir að vera að puða í 60 mínútur við að opna glufur, með boltann nánast allan tímann, ná loks markinu og henda þessu svo frá sér strax með helv... kæruleysi. Algerlega óþolandi.
Þó stíft væri pressað og mikið verið með boltann voru okkar menn ekki mjög líklegir til að klára þennan leik og hirða öll stigin. Það vantaði einfaldlega færin. Blikar skiptu inn 3 varamönnum , Atli kom inn í stað Gísla, Höskuldur kom inn fyrir Bamberg og Glenn í stað Olivers. Og talandi um Glenn, þarf ekki að fá særingamann til að létta álögunum, eða á maður að segja bölvuninni, af blessuðum drengnum?
En allt kom fyrir ekki og reyndar voru það gestirnir sem fengu svo dauðafæri í uppbótartíma en klúðruðu því. Það hefði verið alveg til að drepa mann og annan ef þeir hefðu labbað í burt með öll stigin.
Málarameistarinn knái var alveg úti á túni með flautuna eiginlega allan leikinn og samræmi lítið. Arnór og Andri Rafn ítrekað sparkaðir niður í leiknum án þess að spjaldi væri lyft. Lélegt hjá annars prýðilegum dómara. En það eyðilagði ekki leikinn fyrir okkur. Við sáum um það og ef Blikar ætla að vera með í toppbaráttunni dugar svona frammistaða skammt.
Þetta er sennilega slakasta Fylkislið sem hefur mætt í Kópavog í langan tíma og við náðum ekki að vinna. Við vorum með boltann nánast allan tímann en samt átti Fylkir fleiri marktilraunir en við, skv. talningamönnum! Við fengum heilt dúsín af hornspyrnum. Aldrei hætta.
Kommon strákar ! Þetta gengur ekki.
Næsti leikur Blika er útileikur gegn Víkingi R. n.k .mánudag og hefst l. 19:15.
Menn eða mýs?
Við mætum.
Áfram Breiðablik!
OWK
p.s.
Kopacabana eru alveg heillum horfnir og eiginlega bókstaflega horfnir. Hvað veldur?
Þarf ekki að halda fund?