Gjöf í Garðabænum
10.08.2017
Gjafmildir Blikar klúðruðu víti og gáfu tvo mörk í Garðabænum og fóru því tómhentir heim. Þetta var mjög sárt enda var liðið síst lakara í leiknum. En þegar menn nýta ekki færin sín þá er ekki von á góðu. Það er líka áhyggjuefni að markahæsttu leikmenn liðsins er einungis með þrjú mörk. Nú þarf Blikaliðið að girða sig í brók og ná upp spilamennskunni sem við sýndum á Akureyri. Þá klifrum við áfram upp töfluna. En spennustigið virtist vera of hátt hjá okkar piltum að þessu sinni og það þarf að laga.
Blikaklúbburinn hitaði upp í Fífunni fyrir leik og þar mætti Arnar Már Björgvinsson, fyrrum leikmaður Blika og Stjörnunnar. Hann hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði að leikurinn yrði mjög fýsískur og Stjarnan myndi reyna að dæla háum boltum inn á kraftmikla framherja liðsins. Blikar svöruðu því með því að stilla upp þriggja manna hávaxinni varnarlínu með Damír, Elfari Frey og svo óvænt Þórði Steinari.
Leikurinn byrjaði vel fyrir okkur Blika þegar Gísli prjónaði sig í gegnum vörn þeirra bláklæddu og náði í vítaspyrnu. En Martin Lund var allt of hikandi í tilhlaupinu og markvörður Garðbæingana las hann löngu áður en spyrnan kom. Ef við hefðum skorað þarna í byrjun hefði leikurinn sjálfsagt þróast öðruvísi. En í stað þess að skora vorum við slegnir út af laginu og heimapiltar tóku völdin á vellinum. Við lágum aftarlega og ansi oft vorum við dæmdir brotlegir þegar við vorum að stöða vöðvastælta framherja Garðbæingana. Reyndar náðum við nokkrum skyndisóknum en náðum ekki að koma knettinum í markið.
Síðari háflleikur hófst hörmulega fyrir okkar drengi. Einbeitingarleysi í vörninni gaf Stjörnumönnum hornspyrnu og engin passaði hávaxnasta leikmann þeirra bláklæddu. Við allt í einu komnir undir. Við héldum samt áfram að spila ágætlega og vorum með undirtökin í leiknum. En þrátt fyrir nokkur góð færi þá náðum við ekki að skora. Síðan komu varnarmistök enn og aftur hjá okkar drengjum og stigin farin frá okkur.
Milos tók nokkra áhættu með því að breyta sigurliði og spila öðruvísi taktík. En á vissan hátt gekk það upp í fyrri hálfleik því Stjörnumenn voru ekki að skapa sér mikið af færum þrátt fyrir að þeir væru meira með boltann. En sjaldséð kæruleysi í varnarleiknum kom okkur í koll. Við létum líkamsburði Garðbæinga fara í taugarnar á okkur en sú leikaðferð á tti ekki að koma okkur á óvart.
Næsti leikur okkar Blika er gegn Víkingum R. á mánudaginn í Kópavogi. Viðsnúningur Blika á þessu keppnistímabilii hófst einmitt gegn Víkingum í fyrri umferðinni og nú verðum við að láta kné fylgja kviði. Evrópusætið er ekki úr sögunni en það er ekki heldur mjög langt niður í fallbaráttuna. Nú sýnum við að við erum menn ekki mýs!
-AP