Góður sigur á Víkingum
11.05.2019Blikar spiluðu sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu á Wurth-vellinum í Árbæ. Andstæðingurinn, funheitir Víkingar sem voru þó ekki búnir að vinna leik á tímabilinu en spilamennska þeirra hafði verið með ágætum. Aðstæður í Lautinn voru með ágætum, hægur andvari, völlurinn úr gervigrasi, reyndar skítakuldi. 5° við upphafsspark og átti eftir að kólna eftir því sem á leikinn leið.
Eins og kunnugt er spiluðum við gegn HK í síðasta leik í innanhúsfótboltaleik í Kórnum. Sannarlega frábært að spila inni í höllunum á æfingamótum og Lengjubikar yfir vetrartímann en ekki þegar komið er út í Íslandsmót, en það er nú önnur saga. Blikar reimuðu á sig takkaskóna á 86.mínútu gegn HK og var uppleggið í leiknum gegn Víkingum að reyna að byrja að spila fótbolta frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Liðsuppstillingin og taktík var aðeins öðruvísi en í fyrstu leikjum sumarsins.
3-5-2 eða 3-4-3 varð fyrir valinu, kannski ekki skrýtið að Gústi hafi ákveðið að spila þessa taktík þar sem við enduðum leikinn gegn HK með þessari liðsuppstillingu. Einhvers staðar segir: Í upphafi skyldi endinn skoða.
Myndaveisla í boði Fótbolti.net Leikskýrsla KSÍ Úrslit.net
Fyrir leik voru fjölmargir fyrrverandi leikmenn í mjög þykkum úlpum og með trefla að skeggræða hlutina og hafa að sjálfsögðu sterkar skoðanir á svo til öllu tengdu liðinu og voru menn sammála um að þessi leikur gæti orðið “do or die” leikur fyrir okkar menn. Gríðarlega sterkt hefði verið að jafna leikinn gegn HK og það væri merki um þann karakter sem byggi í liðinu en að sama skapi dygðu ekki nein vettlingatök gegn Víkingsliðinu sem er samsuða reynslubolta og ungra og efnilegra leikmanna.
Liðið var svona skipað:
Aron Bjarnason var ekki í hóp vegna smávægilegra meiðsla og Yeoman var tæpur og því settur á bekkinn.
Þorvaldur dómari var með vel olíuborna leggi og greinilega tilbúinn taka á móti sólargeislunum með intensive tanning oil a la Siggi Jóns ca ’93.
Leikurinn hófst á slaginu 20:00 á þessu föstudagskvöldi. Maður lifandi að fá að mæta á knattspyrnuleik á föstudagskvöldi er eitthvað sem maður gæti vanist.
Víkingar byrjuðu leikinn með mikilli pressu og ætluðu sér greinilega að beita sömu taktík og HK í síðasta leik. í þeim leik vorum við ekki tilbúnir í barninginn og pressuna en það var svo sannarlega ekki tilfellið í þessum leik.
Hvernig er best að mæta hápressu og slagsmálum úti á velli? Jú, með því að pressa til baka og berjast af enn meiri hörku. Blikarnir voru ofan á í þessari baráttu í allar 90 mínúturnar gegn Víkingum og með einstaklingsgæði leikmanna liðsins er erfitt fyrir andstæðinga okkar að brjóta okkur þegar baráttan og vinnslan er til staðar.
Fyrsta mark leiksins skoraði Kolbeinn Þórðarson á 11.mínútu með góðu langskoti. Hann fékk boltann á miðjum vellinum og sá smá pláss til að keyra af stað í og lét svo vaða á markið og boltinn söng í netinu. Annað mark Kolla í sumar.
Þetta var í fyrsta skipti í sumar sem Víkingar lenda undir. Þeir voru hins vegar ekki lengi að svara fyrir sig því um það bil 90 sekúndum síðar var staðan orðin 1-1. Blikar steinsofandi í vörninni og daninn Nikolaj Hansen kom boltanum fram hjá Gulla. Það virtist ekki nokkur maður hafa áttað sig á að Hansen væri einn og með pláss í vítateignum.
Helvítis vesen… Það sem eftir lifði hálfleiksins stjórnuðu Blikar leiknum og uppskáru svo mark á markamínútunni. Þar var aftur að verki ungur maður að nafni Kolbeinn. Í þetta skiptið eftir frábæran undirbúning Höskulds. Höggi tók boltann á miðjunni og sneri á varnarmann, gerði svo atlögu upp hægri vænginn og sendi boltann fast fyrir markið með fram jörðinni, þar var mættur áðurnefndur Kolbeinn og kom hann boltanum fram hjá Þórði í markinu. Virkilega flott mark og nokkrir spekingar í stúkunni voru búnir að kalla eftir því að fá sendingar með fram jörðinni þar sem meðalhæð Víkingsvarnarinnar er tæpir 2 metrar. Blikar fögnuðu og voru staðráðnir í að fá ekki jöfnunarmark á sig strax í aftur og helst bara að sleppa því alfarið.
Þorvaldur dómari flautaði til hálfleiks og það var mál manna að það var allt annað að sjá til Blikanna í þessum fyrri hálfleik og forystan fylllega verðskulduð.
Í síðari hálfleik var maður alltaf að bíða eftir 4ja marki leiksins og tilfinningin var að það mark myndi enda í marki Víkings. Sú varð svo raunin þegar Höskuldur skallaði inn aukaspyrnu Guðjóns Péturs og staðan orðin 3-1 fyrir Blikar. Virkilega vel stangað hjá Högga og hann sýndi það enn einu sinni að hann er baneitraður í föstum leikatriðum.
Blikar fagna marki Höskuldar og frábærri stoðsendingu Guðjóns Péturs. Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Undirritaður hafði spáð leiknum 4-1 fyrir leik og sú staða hefði svo sannarlega ekki verið ósanngjörn því Thomas Mikkelsen brenndi af í einverjum mesta dauðafæri sem sést hefur og mjög svo undarlegt að sjá hann ekki plassera tuðruna í netið af svo stuttu færi. Skömmu áður hafði Thomas einnig átt gott skot utan af velli eftir geggjaðan undirbúning frá Viktori Karli sem hafði komið inn á skömmu áður. Elli Helga fékk líka gott færi sem og Guðjón Pétur en lokaniðurstaðan 3-1 feykilega öruggur sigur. Víkingar fengu varla færi í þessum leik og var það fyrst og fremst mikil vinnsla hjá öllum leikmönnum sem gerði þeim erfitt fyrir. Varnarlínan var ofboðslega traust og Alexander Helgi stýrði miðjunni eins og herforingi. Maður leiksins var Kolbeinn Þórðarson sem er nú kominn með 3 mörk og er búinn að sýna öllum hversu ofboðslega góður hann er.
Kolbeinn Þórðarson skorði 2 mörk í leiknum og var auk þess valinn Bliki leiksins. Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Það er mikil breidd í Blikaliðinu og menn eins og Yeoman, Viktor Karl og Brynjólfur komu allir inn á.
Næsti leikur verður mjög erfður fyrir okkar menn því við eigum leik gegn KA mönnum fyrir norðan þann 15.maí.
Með spilamennsku eins og í kvöld eigum við samt ekki að vera smeykir við neitt lið og stefna bara að sigri í deildinni og hana nú.
GMS
Klippur og mörkin úr leiknum í boði BlikarTV