BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gott silfur!

05.10.2018

Blikar unnu öruggan 4:0 sigur á KA mönnum í lokaleik Pepsí-deildar karla keppnistímabilið 2018. Með þessum sigri tryggði Blikaliðið sér silfurverðlaun á Íslandsmótinu. Flestir Blikar hefur þegið það sæti fyrir mót enda var okkur spáð 5. eða 6. sæti af flestum miðlum landsins. En þegar hugsað er til baka til þeirra leikja sem við náðum ekki að knýja fram sigur en vorum samt betri aðilinn þá situr pínulítið súrt bragð eftir í munninum. Hins vegar verða menn að horfa á mótið í heild og þá getum við ekki annað en verið sáttir við tímabilið. Úrslit í bikar og silfurverðlaun á Íslandsmóti er flottur árangur. Við getum byggt ofan á þennan árangur á næsta tímabili og þá taka Blikar bikar!

Eftir frekar hryssingslegan morgun þá tóku veðurguðirnir sig til og settu í góða gírinn eftir hádegi. Sólin tók að skína og Blikar bara nokkuð bjartsýnir fyrir leikinn. Kópacabana splæstu í eina auglýsingu á vegaskiltinu góða þar sem Keflavíkingar voru hvattir til dáða. Kópavogsbúar mættu ágætlega á leikinn en frekar fáir Norðanmenn létu sjá sig. Enda að litlu að keppa fyrir þá.

Ágúst og Gummi  ákváðu að gera litlar breytingar á byrjunarliðinu frá sigurleiknum gegn Fjölni. Að vísu kom Viktor Örn inn í stað Johnathan enda sá síðarnefndi síbrotamaður og kominn í bann vegna fjögurra gulra spjalda. Sjá byrjunarliðin hér og hér.

Ágúst þjálfari upplýsti stuðningsmenn Blika fyrir leik  hvernig hann hyggðist leggja upp leikinn. Liggja aftur og leyfa KA-mönnum að halda boltanum. Sækja síðan hratt og nýta fljóta kant- og miðjumenn Blikaliðsins. Þetta gekk svo sannarlega eftir. KA menn sóttu nokkuð fyrstu mínúturnar og fengu nokkrar hættulega hornspyrnur. Blikar sóttu hins vegar af krafti þegar þeir náðu boltanum og strax á þriðju mínútu var brotið á Gísla Eyjólfssyni inn í teig og vítaspyrna dæmd. Markahrókurinn Thomas Mikkelsen sendi knöttinn af fádæma öryggi í markið.

Áfram þróaðist leikurinn svipað og Ágúst hafði lagt upp með. Þeir gulklæddu voru meira með boltann en um leið og við fengum boltann þá skapast nánast alltaf stórhætta upp við mark gestanna. Aron Bjarnason var mjög frískur en var klaufi að skora að minnsta kosti 1-2 mörk í hálfleiknum. En hann bætti fyrir það á 30 mínútu þegar hann lék skemmtilega upp vinstri kantinn og sendi knöttinn fyrir þar sem efnilegast leikmaður Pepsí-deildarinnar Willum Þór Willumsson þrykkti boltanum í markið af fádæma öryggi. Skömmu síðar bætti þessi besti maður vallarins öðru marki sínu við og þriðja marki Blikaliðsins.

Því miður voru úrslitin ekki alveg að detta með okkur á Hlíðarenda þannig að menn drukku kaffið og meðlætið í rólegheitum í leikhléi hjá Blikaklúbbnum. En menn voru sáttir við Blikaliðið enda höfðu KA-menn varla átt eitt einasta hættulegt færi fyrir utan fyrrnefndar hornspyrnur.

Greinilegt að leikmenn höfðu frétt hver staðan var á öðrum völlum þannig að nokkuð dró úr sóknarþunga Blikaliðsins í síðari hálfleik. En vorum samt með öll tögl og haldir í leiknum. Damir og Gísli fóru fljótlega af velli vegna smávægilegra meiðsla og Aroni var skipt af velli fyrir ungan og efnilegan 16 ára dreng úr 3. flokki Andra Fannar Baldursson. Greinilegt að Blikaliðið ungar út efnilegum leikmönnum eins og engin sé morgundagurinn! Í millitíðinni setti Thomas sitt annað mark með miklu harðfylgi eftir frábæra sendingu Arons.  Lokastaðan því 4:0 og enn einn leikurinn þar sem Blikaliðið fær ekki á sig mark.

Blikaliðið heild á hrós skilið fyrir þennan leik. Leikmenn liðsins stigu vart feilspor þessar 90 mínútur. Varnarmúrinn var ókleyfur fyrir ungt KA-liðið, miðjutríóið Gísli, Willum og Oliver voru frábærir og sóknarmennirnir með Thomas og Aron fremsta í flokki voru óþreytandi. Það var því viðeigandi að leikmenn, aðstandendur og stuðningsmenn gátu fagnað vel um kvöldið i Smáranum. Þar var upplýst að Nestorinn Gunnleifur Gunnleifsson hefði verið valinn besti leikmaður liðsins, Willum sá efnilegasti og Davíð Kristján leikmaður leikmannanna. Svo fékk Thomas verðlaun fyrir að vera markahæsti leikmaður meistaraflokksins.

Stundum er sagt að gott silfur sé gulli betra. Það er auðvitað kjaftæði! Auðvitað hefðum við viljað fá gullið.  En lítum aðeins á tölfræðina. Blikaliðið fékk á sig fæst mörk allra í deildinni eða 17. Næstu lið fengu KR og Valur fengu á sig 23. Eftir danska dýnamítið Thomas Mikkelsen kom til liðsins hrökk sóknarleikur Blikaliðsins heldur betur í gang. Daninn skoraði 10 mörk í 11 deildarleikjum og er með markahæstu mönnum deildarinnar. Margir Blikar hafa spurt sig hvort við hefðum hampað titilinum ef Thomas hefði verið með okkur allan tímann.  Það er ekki ólíklegt því okkur gekk fremur erfiðlega að koma tuðrunni í netið framan af móti. En um leið og dýnamítið fór að skora hrukku líka aðrir leikmenn í gang.

Nú er engin leikmaður með lausan samning og því auðvelt að byggja ofan á þennan góða árangur í ár. Blikaliðið sýndi á köflum í sumar frábæra takta og því er ekki annað en hægt að hlakka til Pepsi-deildarinnar árið 2019. Framtíðin er græn!

-AP

BlikarTV – Myndaveisla

Umfjallanir netmiðla

Markasyrpa mfl karla 2018

Íslands- og bikarmeistarar mfl kvenna 2018

Til baka