BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hraði og fáar snertingar

05.10.2020 image

Þó Valsmenn séu komnir með aðra höndina á Íslandsmeistaratitilinn á  því dæmalausa ári 2020 er enn að nógu að keppa fyrir liðin sem raða sér í næstu 5 sæti á töflunni. 2 sæti í Evrópukeppni næsta árs að  ótöldum silfurverðlaunum í PepsiMax deildinni enn í boði.  Einhvern tíma hefði okkur Blikum þótt slíkt harla gott sæti i uppskerulok, en þeir tímar eru sannarlega liðnir að við hoppum hæð okkar yfir öðru sætinu að ekki sé talað um þaðan af lakara sæti. En staðan fyrir leik kvöldsins var sem sagt sú að við vorum 13 stigum á eftir Valsmönnum og titillinn því örugglega utan seilingar. Í þeirri stöðu hljómar 2. sætið og silfurverðlaun ágætlega. Jafnvel hægt að sætta sig við það 3ja. En það eru hindranir á þeirri leið og í kvöld voru það Fylkismenn sem mættu galvaskir í Kópavoginn. Erindi þeirra hið sama og Blika, enda liðin með jafnmörg stig. Veður var blítt miðað við árstíma, 5° hiti og logn og aðstæður allar hinar bestu. Áhorfendur ekki mjög margir en nánast fullt í Blikahólfinu og 3/4 í gestahólfinu, eða tæplega 400 talsins. Blikar léku í vínrauðum treyjum, hvítum buxum og hvítum sökkum að þessu sinni og var vel til fundið á afmælisárinu að sýna og leika í keppnisbúningi félagsins frá 1967. Nánar er fjallað um þetta hér en þess má líka geta til gamans að það hefur einmitt verið sjáanleg tilvísun í þennan búning í varabúningum meistaraflokka undanfarin ár, eins og glöggir áhorfendur hafa eflaust tekið eftir.

Byrjunarlið Blika í kvöld var svona:

image

Davíð Ingvarsson búinn að taka út sitt leikbann en Andri Rafn hinsvegar kominn í eins leiks bann. Kristinn Steindórsson er enn að glíma við meiðsli og Thomas mun einnig vera lítillega meiddur.

Það væri mikil lygi að segja að leikurinn hafi farið rólega af stað. Þvert á móti var alveg blússandi fart frá fyrstu mínútu og ritara gafst ekki ráðrúm til að hripa hjá sér nema það allra markverðasta. En af nógu var að taka. 3 skot Blika færð til bókar á fyrstu 10 mínútum leiksins en aðeins eitt hirti rammann. Hin sigldu framhjá, og annað þeirra mjög naumlega strax á annarri mínútu. Semsagt líf og fjör. Fyrsta skot Fylkis á mark endaði hinsvegar í netinu. Það kom upp úr þurru þegar við misstum boltann á miðjunni og gestirnir brunuðu í sókn sem lauk með því að heimaalinn Bliki sendi boltann í mark sinna gömlu félaga og sannaðist þar hið fornkveðna, þið vitið þetta um kálfinn og svo framvegis. En lipurlega gert hjá gestunum engu að síður. Blikar algerlega rotaðir þarna og máttu prísa sig sæla að fá ekki annað mark í andlitið örskömmu síðar þegar gestirnir löbbuð í gegnum vörnina og sendu fyrir markið þar sem annar fyrrum leikmaður Blika var aleinn og í dauðafæri, en svo vinsamlegur að þruma boltanum í niður í jörðina af afli sem dugði til að þeyta honum yfir og aftur fyrir endamörk. Þar sluppum við með skrekkinn.
Þetta reyndist hinsvegar vera næstsíðasta marktækifæri gestanna í leiknum og það sem nú fór í hönd var okkur meira að skapi því aðeins örfáum mínútum síðar voru Blikar búnir að jafna metin. Fylkismenn voru að dóla með boltann á mijum eigin vallarhelmingi þegar Oliver náði að hirða hann af þeim og renndi boltanum á Stefán Inga sem var fljótur að átta sig og fann Brynjólf í teignum og hann setti biltann í netið af öryggi.

image

Mynd: HVH

Vel gert hjá öllum þrem. Staðan nú jöfn og Blikar létu kné fylgja kviði. Aðeins 2 mínútum síðar áttu Blikar hörkusókn og Viktor Karl komst inn í teig í gott skotfæri og lét vaða á markið. Skoið var vel varið, af enn einum Blikanum í liði gestanna, en Viktor náði frákastinu sjálfu og skallaði því næst í slánna og út. Þar kom Stefán Ingi á ferðinni og ætlaði að skalla boltann í netið en fékk spark í höfuðið um leið. Dómarinn ekki í vafa og dæmdi þegar í stað víti. Brynjólfur fór á punktinn og þrumaði í netið af öryggi án þess að markmaður næði að hreyfa legg eða lið.

image

Mynd: HVH

Staðan orðin 2-1 og tók nú heldur betur að „hýrna um hólma og sker, hreiðra sig Blikinn“ og það allt, eins og ort var í Reykhólasveitinni fyrir mart löngu. Jón Thoroddsen var merkilegur maður. Gekk í danska herinn með náminu og barðist við Þjóðverja. Drap mann og særði annan, að sagt er. En svona ljómandi gott skáld.
Skömmu síðar hefði Brynjólfur hæglega getað gert sitt 3ja mark. Blikar fóru í skyndisókn og Gísli átti frábera sendingu á Brynjólf en snertingin sveik hann og markmaður gestanna náði að bjarga á síðustu stundu. Ææ.. Hálfleikskaffið hefði smakkast enn betur með 3-1 á töflunni. Blikar héldu áfram að þjarma að Fylkismönnum og stjórnuðu leiknum en náðu ekki að bæta við marki. Gestirnir fengu svo aukaspyrnu þegar skammt var til leikhlés, en Anton Ari var ekki í vandræðum með hana.

Það er alkunna að hálfleikskaffið smakkast mun betur þegar Blikar eru yfir og þetta hafa allar rannsóknir þar að lútandi staðfest. Og ekki skemma jólaljósin fyrir. Mikið rætt um búningamálin og menn að velta fyrir sér af hverju Blikar fóru í þennan búning 1967. Nokkrar skýringar settar á flot en ljóst að það mál þarf að rannsaka. Steini Þorvalds bjó á Selfossi á þessum árum og greindi frá því í kvöld að Selfyssingar hefðu hinsvegar leikið í grænum búningum þetta sumar og er það með nokkrum ólíkindum ef satt er. En Steini er nú ekki vanur að fara með fleipur, svo vér neyðumst nú til að trúa þessu.

Logi Kristjánsson var markvörður Blikaliðsins frá 1966 til 1969. Hann spilaði alltaf í gulri treyju og hvítum buxum. Logi var heiðursgestur á leiknum í gærkvöld. Fyrir leikinn færði Logi deildini gömlu treyjuna sína að gjöf og Orri Hlöðversson færði Loga eintak af treyjunni sem Anton Ari spilaði í leiknum.

image

Síðari hálfleikur var jafn til að byrja með og fór að mestu fram á miðum vellinum, eða þar til Blikar náðu laglegri sókn sem endaði með skoti frá Höskuldi sem hitti markið, en það vantaði allt púður í skotið. En nú færðist heldur betur fjör í samkvæmið, því áður en Fylkismenn vissu hvaðan á þá stóð veðrið var dómarinn búinn að vísa einum þeirra rakleiðis til búningsherbergja fyrir að haga aftan í Stefáni Inga þegar hann geystist í átt að vítateig Fylkis eftir að hafa stolið boltanum af brotamanninum. Sá fékk nú að líta gult spjald í annað sinn og þar með það rauða. Hefndist honum nú fyrir að fara með skó sinn í andlit Stefáns þegar Blikar fengu vítið og fyrr er sagt frá. Blikar hertu nú enn tökin á gestunum og þurftu ekki að bíð ýkja lengi eftir 3ja markinu. Það kom upp úr hornspyrnu og það var Elfar Freyr sem skallaði boltann laglega yfir markvörð gestanna í slá og inn. Fallegt mark og Blikar í góðum málum.

image

Mynd: HVH

Skömmu síðar gerðu Blikar sína fyrstu skiptingu þegar Stefán Ingi lauk leik og í hans stað kom Atli Hrafn. Stefán með flottan leik og ljóst að þar fer mikið efni í mikilli framför. Blikar þjörmuðu nú látlaust að Fylkismönnum og Brynjólfur, Höskuldur hefðu báðir getað bætt við mörkum áður en fyrrnefndur Atli Hrafn skoraði 4ða markið og hans fyrsta fyrir Blika. Markið var einkar laglegt. Leikmaður Fylkis var með boltann við hliðarlínu og ætlaði að láta boltann fara út af en Blikar náðu  að stela boltanum og Höskuldur gaf glæsilega sendingu inn á vítapunkt þar sem Atli Hrafn kom á ferðinni og tók boltann með sér og framhjá úthlaupandi markverði Fylkis og renndi svo boltanum rakleitt í netið. Glæsilega gert, og þar með var endanlega ljóst að gestirnir myndu ekki skemm kvöldið fyrir okkur.

image

Mynd: HVH

Gunnar Heimir Ólafsson & Anton Logi Lúðvíksson komu inn fyrir Oliver og Viktor Örn sem báðir áttu góðan leik í kvöld. Gunnar og Anton bráðefnilegir piltar og báðir að þreyta frumraun sína í efstu deild. En Blikar voru ekki hættir og hlóðu í enn eina glæsisókn sem endaði með góðu skoti frá Höskuldi en á einhvern óskiljanlegan hátt tókst markverði Fylkis að koma fætinum fyrir boltann og skömmu síðar var flautað til leiksloka.

Blikar léku vel í kvöld, eins og svo oft áður í sumar, en að þessu sinni var broddurinn ögn meiri en stundum áður og uppskeran eftir því. Menn héngu ekki jafn mikið á boltanum, heldur létu hann ganga hratt með fáum snertingum og hraðabreytingum. Fyrir vikið áttu varnarmenn Fylkis í mestu vandræðum með okkar menn. Það þarf nefnilega að hreyfa andstæðinginn og koma honum úr jafnvægi og út úr stöðu. Það gerist hinsvegar hvorki með hægagangi né hálfkáki, heldur með hraða og ákefð eins og í kvöld. Ef menn bjóða upp á svona frammistöðu þurfum við engu að kvíða.

Nú verður gert hlé á deildinni vegna landsleiks gegn Rúmenum. Næsti leikur Blika er heimaleikur gegn HK fimmtudag 15. október kl. 19:15.
Það kemur í ljós hvort okkur langar að vinna hann eða hvort við ætlum að vinna hann. Í því liggur gæfumunur.

Áfram Breiðablik !
OWK

Umfjallanir netmiðla

Myndaveisla í boði BlikarTV

image

Mynd: HVH

Til baka