ÍA - Breiðablik í PEPSI mánudaginn 5. júní kl. 19:15
04.06.2017ÍA er það lið sem Breiðablik hefur mætt næst oftast í opinberri keppni. Liðin hafa mæst 108 sinnumí mótsleik frá fyrsta leik liðanna sem var 16. maí árið 1965. Skagamenn hafa sigrað í 62 viðureignum, Breiðablik í 24 viðureignum og jafnteflin eru 22. Á 30 ára tímabili frá 1965 til 1995unnu Skagamenn nánast allar viðureignir liðanna. Fyrsti sigurleikur Blika á ÍA var í Litlu bikarkeppninni 16. maí 1970 og fyrsti sigur Blika á ÍA í efstu deild (þá 1.deild) var á gamla Melavellinum í Reykjavík 9. ágúst 1972.
Í 29 mótsleikjum liðanna frá árinu 2000 hafa Blikar unnið 11 leiki, jafnteflin eru 8, og töpin eru 10. Blikar hafa skorað 55 mörk gegn 38 mörkum Skagamanna. Samtals 92 skoruð mörk í 29 leikjum síðan árið 2000.
Vinningshlutfallið í efstu deild er jafnt eftir að Breiðablik tryggði sér síðast sæti í efstu deild eftir nokkur mögur ár í 1. deild. Árin 2006-2016 eru viðureignir liðanna í efstu deild 14 : 5 sigrar, 4 jafntefli og 5 töp. Skagamenn léku 1. deild frá 2009 og 2011, og aftur árið 2014. Þess vegna eru efstu deildar leikirnir 14 á þessu 11 ára tímabili frá 2006 til 2016.
Okkur Blikum hefur ekki gengið nógu vel upp á Skaga því aðeins 1 sigur hefur litið dagsins ljós á framangreindum 11 árum. Sigurleikurinn var í 5. umferð í lok maí 2015. Það var Arnþór Ari Atlason sem skoraði eina mark leiksins á 68. mín nánar um leikinn. Árangur Blika í efstu deild gegn Skagamönnum á þeirra heimavelli árin 2006-2016 er: 1 sigur, 3 jafntefli og 3 töp.
Leikur ÍA og Breiðabliks á Norðurálsvellinum á Akranesi á mánudaginn er 109.viðureign liðanna í öllum mótsleikjum frá upphafi;53. viðureign liðanna í efstu deild frá upphafi og 27. viðureign liðanna í efstu deild á Akranesi.
Leikurinn á mánudaginn hefst stundvíslega kl.19:15.
Við skorum á alla Blika að mæta upp á Skaga og styðja við bakið á strákunum!
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!