BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jafnt á Samsung vellinum

17.07.2012

Blikaliðið mætti bláum Stjörnumönnum í síðasta leik fyrri umferðarinnar á Samsungvellinum í gærkvöldi.

Blikar fengu eins og kunnugt er skell í síðasta leik gegn Keflvíkingum og voru staðráðnir í að láta það slys ekki henda aftur.

Byrjunarliðið var nokkuð breytt frá síðasta leik.

                                            Kale

Gísli Páll       Sverrir            Þórður Steinar             Kiddi Jóns

                                      Finnur Orri

                     Olgeir                  Yeoman

Arnar Már                      Elfar Árni                      Tómas Óli

Renee Troost tók út leikbann í leiknum og kom Þórður Steinar inn í hans stað og stóð hann sig mjög vel í sinni stöðu sem hafsent.

Það var ljóst að Blikar ætluðu að liggja tilbaka og beita skyndisóknum enda með eldfljóta menn í fremstu víglínu.
Arnar Már, Tómas Óli og Yeoman voru duglegir að sækja hratt og beinskeytt mjög.

Stjörnumenn hafa verið sjóðheitir í sumar og skorað mikið af mörkum en það var aldrei í boði í leiknum í gærkvöldi. Enda kom þeirra eina mark úr eftir óverjandi aukaspyrnu frá Halldóri Orra. Reyndar sýndist undirrituðum aukaspyrnudómurinn vera ansi "soft" og hefði líklega ekkert átt að dæma. En Þorvaldur dómari leiksins blés þó í þetta skiptið en hann dæmdi leikinn prýðisvel. Eins og áður sagði þá lágu Blikar til baka í leiknum og sóttu hratt þegar tækifæri gáfust til. Það hefðui ef til vill mátt koma fleiri sendingar fyrir markið.
Helsta ógn Blika í leiknum var í formi hins eitraða Kristins Jónssonar sem var sívinnandi upp og niður kantinn og lét vel til sín taka í sóknarspili okkar manna.
Arnar Már Björgvinsson skoraði fyrsta mark leiksins eftir hraða sókn þar sem hann fékk frábæra stungusendingu inn fyrir vörnina frá King Olla. Vel klárað hjá strák og staðan 0-1.

Einhvern veginn náðum við ekki að láta kné fylgja kviði enda þótt mýmörg tækifæri hefðu gefist til.

Lokaniðurstaða 1-1 og uppskeran eftir fyrri umferðina 15 stig og 9.sæti, en það er stutt í toppbaráttuna og ef við náum að tengja eins og 2-3 siguleiki er aldrei að vita hvað gerist. Ég hef fulla trú á liðinu, þjálfaranum og stjórninni fyrir síðari hluta mótsins. Mörkin fara að detta inn og með Sverri í því formi sem hann var í gær eru ekki mörg mörk að fara leka inn hjá vígalegum grænum.

Menn leiksins í gær voru þrír að mínum dómi: Sverrir Ingi var tröll í vörninni í gær og kætti áhorfendur ógurlega þegar hann tæklaði Kennie Chopart aftur til Danmerkur. Kristinn Jónsson var eins og eldibrandur upp og niður vinstri kantinn og var að öðrum ólöstuðum hættulegasti sóknarmaður liðsins í gær. Þá átti Andri Rafn Yeoman fína spretti í gær og vantar bara herzlumuninn á að hann fari að skora 1-2 mörk í leikjum. Örlítl gredda og þetta er komið.

Ég held að við getum verið þokkalega bjartsýn fyrir síðari hluta tímabilsins og setjum stefnuna á Evrópusæti.

GMS

Til baka