BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Jafnteflið dugði ekki til

07.07.2016

Breiðablik mætti liði FK Jelgava í síðari viðureign liðanna í Evrópudeildinni í kvöld. Fyrri leikurinn tapaðist 2-3 á heimavelli og því var alveg ljóst að Blikar þurftu að vinna með 2 marka mun til að komast beint áfam.

Byrjunarlið Blika var þannig skipað:

Gunnleifur Gunnleifsson - Arnór Sveinn - Elfar Helga – Damir - Davíð Kristján - Oliver - Andri Rafn - Gísli Eyjólfs - Arnþór Ari – Ellert - Daniel Bamberg

Bekkurinn: Aron Snær - Ágúst Eðvald - Jonathan Glenn - Atli Sigurjóns - Alfons -Viktor Örn - Kári Ársæls

Breiðabliksliðið byrjaði leikinn af miklum krafti og voru mun hættulegri fyrstu 15 mínúturnar. En fótboltinn getur verið skrítinn því þvert gegn gangi leiksins skoruðu heimamenn fyrsta mark leiksins á 15. mínútu þegar misskilningur í vörn Blika varð þess valdandi að Daniils Turkovs skoraði. Staðan 1-0 og heilmikil brekka sem þurfti að yfirstíga. En miðað við gang leiksins var maður nokkuð viss um að við gætum skorað nokkur mörk.

Á 30. mínútu leiksins skoraði Ellert Hreinsson mark eftir að boltinn kom frá Arnþóri Ara, Ellert fékk boltann við vítapunktinn og lagði hann snyrtilega framhjá Kaspars Ikstens í marki heimamanna. Það liðu ekki nema 2 mínútur þar til Blikar létu aftur til skarar skríða. Aftur barst boltinn inn til Ellerts og hann sneri á varnarmann og gerði sig kláran í að hamra boltann í netið þegar varnarmaður Jelgava reif hann niður og dómarinn dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Á punktinn steig Daniel Bamberg og hann sendi markvörðinn og vitlaust horn og staðan því skyndilega orðin 2-1 fyrir Blika.

Blikar í stúkunni stukku á fætur og undirritaður uppskar þó nokkra svipi frá heimamönnum. Enn héldum við áfram og vorum mun líklegri að bæta við en Lettarnir að jafna. Arnþór Ari skoraði svo mark rétt undir lok fyrri hálfleiks en var réttilega flaggaður rangstæður. Skömmu síðar var flautað til loka fyrri hálfleiks. Það var mikill hugur í Breiðabliksliðinu og hélt maður að við myndum ganga á lagið og hreinlega skora nokkur mörk til viðbótar.

Í síðari hálfleik héldu yfirburðir Blika áfram, við héldum boltanum á löngum köflum vel innan liðsins en það vantaði alltaf að gera betur á síðasta þriðjungnum. Lettarnir tóku við sér og settu örlitla pressu á Blikaliðið og uppskáru hornspyrnu sem varð svo að marki. Klaufagangur í vörninni og við náum ekki að hreinsa. Staðan orðin 2-2 en við þurftum bara eitt mark til að koma leiknum í framlengingu. Miðað við fyrri leik liðanna var maður býsna vongóður þar sem Jelgava menn voru gjörsamlega búnir á því á undir lok leiks í fyrri leiknum. En það var eins og markið hafi virkað sem vítamínsprauta fyrir þá og þeir tvíefldust í leik sínum og áttu nokkrar álitlegar sóknir skömmu eftir markið.

En eins og oft áður þegar lið þarf að verja forskot þá féllu heimamenn langt aftur og vörðust af krafti allt til loka. Við náðum því miður ekki að opna vörnina og lauma inn einu marki og niðurstaðan því 2-2 jafntefli og Blikarnir úr leik í Evrópu þetta árið.

Næsti leikur er á sunnudaginn gegn Skagamönnum og þá fáum við tækifæri til að koma okkur aftur á beinu brautina eftir erfitt gengi undanfarið.

GMS

Umfjallanir annarra netmiðla.

Til baka