BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Karakterstig gegn Stjörnunni

18.02.2017

Blikar og Stjarnan gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik liðanna í Lengjubikarnum í ár. Við misstum Aron Kára af velli strax á 10. mínutu en við sýndum mikinn karakter það sem eftir lifði leiks. Það tók okkur að vísu smá tíma að endurskipuleggja liðið en í síðari hálfleik vorum við sterkari aðilinn og áttum í raun og veru að vinna leikinn.

Gulli átti reyndar tvisvar sinnum markvörslu á heimsmælikvarða en hinum megin skoraði Willum flott mark sem var ranglega dæmt af vegna rangstöðu. Hrósa verður öllu Blikaliðinu fyrir gríðarlega yfirferð og flotta baráttu. Oliver datt aftar á völlinn þegar við vorum orðnir einum færri og stöðvaði ófáar sóknir þeirra bláklæddu. Guðmundi Friðrikssyni fer fram með hverjum leik sem hann spilar og varnarvinna miðjumannanna var til fyrirmyndar. Aron Bjarnason kom frískur inn á síðari hálfleik og Willum sýndi snilldartilþrif þegar hann skoraði markið.

Næsti leikur Blikaliðsins er gegn Grindvíkingum á laugardaginn í Fífunni kl.12.00. Þeir unnu stórsigur á Leikni F í fyrsta leik sínum þannig að búast má við hörkuleik gegn nýliðunum í Pepsi-deildinni.

Fyrir leikinn fékk Andra Rafni Yeoman silfurplatta fyrir að leika 200 opinbera leiki fyrir félagið. Andri var staddur erlendis þegar afhenda átti plattann í árlegu jólaboði meistaraflokkanna. Leikjaáfanganum náði Andri Rafn á árinu 2016 þannig að nú er hann kominn í 243 leiki og klifrar hægt og bítandi upp töfluna yfir leikjahæstu menn Blika frá upphafi. Það var nýkjörinn formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, Ólafur Hrafn Ólafsson, sem afhenti Andra viðurkenninguna. 

-AP

Til baka