BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kári í jötunmóð!

24.03.2017

Leikur Fram og Breiðabliks í Lengjubikarnum fer líklega  í sögubækurnar sem einn frægasti leikur sem hefur verið leikinn á Íslandi. Ástæðan er sú að Twitter myndir blikar.is sem sýna Kára fara hamförum í Grafarholtinu hafa dreifst um allan heim. Snjóstormur skall á leikmenn, starfsmenn og  áhorfendur og ákvað dómarinn að flauta leikinn af á 70. mínútu þegar staðan var 0:1 fyrir okkar menn. Líklegast mun sú staða standa og eigum við því góða möguleika á því að komast áfram úr riðlinum. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði mark okkar pilta með góðu skoti í síðari hálfleik eftir ágætan samleikskafla okkar drengja.

Eins og gefur að skilja settu veðurskilyrði töluverðan svip á leikinn. Reyndar var þokkalegt veður í Grafarholtinu í fyrri hálfleik þótt veðurguðirnir létu vita af sér af og til. Það var mesta furða hve leikmenn gátu spilað góða knattspyrnu og nokkur ágæt marktækifæri litu dagsins ljós. Þeir bláklæddu fengu fyrsta færið í byrjun leiks en Gunnleifur ,,Nestor“ Gunnleifsson varði mjög vel. Leikurinn var í járnum eftir þetta en undir lokin gerðum við harða atlögu að marki heimapilta. En inn vildi knötturinn ekki.

Í síðari hálfleik fór að hvessa og leikmenn fóru varlega til að slasa sig ekki á hálum vellinum. Við vorum þó sterkari aðilinn í leiknum og þegar hefur verið sagt frá ágætu marki Höskuldar Gunnlaugssonar. Þegar Arnar þjálfari hugðist skipta Erni Bjarnasyni inn á fyrir Willum þá var dómaranum nóg boðið. Hann blés leikinn af og voru flestir ánægðir að geta leitað vars nema ef til vill Ernir. Lokaleikur riðilsins er gegn Leikni F. á föstudaginn í Fífunni kl.19.15. Ef við sigrum í þeim leik þá komust við áfram og mætum líklegast Val eða ÍA í undanúrslitum.

P.S. Svona í lokin má geta þess að knattspyrnufélagið Fram var stofnað árið 1908 og hét fyrstu mánuðina knattspyrnufélagið Kári. Það var í höfuðið á hetjunni Kára  Sölmundarsyni úr Njálssögu. Kári sem slapp einn úr brennunni á Bergþórshvoli og loguðu þá hár hans og klæði, segir sagan. Eftir brennuna fór Kári víða og elti uppi brennumenn og drap þá hvern á fætur öðrum. Af einhverjum ástæðum hugnaðist Reykjavíkurpiltunum ekki nafnið á félaginu sínu og breyttu því fljótlega í knattspyrnufélagi Fram. Líklegast var Kári Sölmundarson í Grafarholtinu í gær að að hefna sín á Frömurum fyrir að leggja nafn hans af! 

Umfjallanir netmiðla.

Sjá myndband BlikarTV

Úrslit leiksins standa. Af vef KSÍ:

24.3.2017

Leikur Fram og Breiðbliks í A deild Lengjubikars karla sem fram fór fimmtudaginn 23. mars á Framvelli Úlfarsárdal var hætt eftir 70 mínútur. Dómari leiksins mat vallaraðstæður þannig að hann hefði áhyggjur af öryggi leikmanna ásamt því að línur vallarins sáust ekki.

Mótanefnd KSÍ hefur fjallað um málið og niðurstaða hennar er:  

Að teknu tilliti til verkefna viðkomandi félaga næstu daga og hve stutt er í að úrslitakeppni mótsins hefjist ásamt því að verulega langt var liðið á leikinn þegar honum var hætt, hefur mótanefnd KSÍ ákveðið að úrslit leiksins skuli standa eins og þau voru þegar leiknum var hætt eftir 70 mínútur. Ákvörðunin byggir á ákvæðum 15.6 í Reglugerð KSÍ um knattspyrnumót og 11.1 í Reglugerð KSÍ um Deildarbikarkeppni karla. 

Úrslitin í leik Fram og Breiðabliks í A deild Lengjubikars karla frá 23. mars 2017 eru því 0-1.

Til baka